Fara í innihald

Vagnalestin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa belgísku útgáfu bókarinnar.

Vagnalestin (franska: Le Caravane) eftir Maurice de Bevere (Morris) og René Goscinny er 24. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1964, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) á árunum 1962-63.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Bakgrunnur þessarar sögu eru hinar miklu landnámsferðir frá Mississippi-dalnum til Kaliforníu á vesturströnd Bandaríkjanna sem hófust um miðja 19. öld. Lukku Láki tekur að sér að leiða vagnalest landnema slíka háskaför. Fljótlega eftir að lagt er upp kemur í ljós að einhver í hópnum ætlar sér með skemmdarverkum að koma í veg fyrir að vagnalestin komist á áfangastað. Vagnalestinni tekst þó við illan leik að komast yfir skrælnaða eyðimörkina til lastabælisins Kreysuvíkur (e. Crazy town) þar sem ægir saman spilavítum, krám og léttúðarhúsum. Eftir að kvenfélag bæjarins beitir sér fyrir siðbót í bæjarfélaginu heldur vagnalestin áfram ferðinni, en þá kárnar gamanið þar sem fara þarf um veiðilönd herskárra síuxa-indíána sem hafa það sem dægrastyttingu að safna höfuðleðrum.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Eins og Þverálfujárnbrautin og fleiri Lukku Láka bækur fjallar Vagnalestin um hættuför yfir víðáttur villta vestursins. Bókin er kannski einkum eftirminnileg fyrir skemmtilegar aukapersónur: hárskerann franska Mussju Pérr, uppfinningamanninn Zakarías Zíhugsandi, múlrekann orðljóta Skralla Skrölt, óknyttastrákinn Pinna Pjakk og hinn samviskusama njósnara indíánanna Hrausta nautshaus.
  • Sagan hefst á því að vagnalestin kemur til bæjarins Einskisneinsgils (e. Nothing Gulch) þar sem Lukku Láki slæst í för. Bærinn átti eftir að koma við sögu síðar í bókaflokknum, t.d. í bókunum Jessi Jamm og Jæja, Hvíti kúrekinn og Sálarháski Dalton bræðra.
  • Fyrirmynd hins seinheppna uppfinningamanns Zakaríasar Zíhugsandi er bersýnilega prófessor Vilhjálmur Vandráður úr Tinnabókunum.
  • Lukku Láki er orðinn bindindismaður í bókinni og drekkur bara berjasaft og mysu. Í fyrri bókum drekkur hann jafnan áfengi, en þó alltaf í hófi. Í næstu bókum hélt Láki áfram að drekka berjasaft, en í Heiðursverði Billa Barnunga pantar hann sér bjór á krá.
  • Í bókarlok nær vagnalestin til Hollywood í Kaliforníu og í fyrsta skipti í bókaflokknum sést strönd Kyrrahafsins.
  • Páfagaukurinn framan á kápu bókarinnar sést hvergi í sögunni sjálfri.

Íslensk útgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Vagnalestin var gefin út af Fjölva árið 1980 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 23. bókin í íslensku ritröðinni.