Fara í innihald

Maðurinn sem drap Lukku-Láka

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa íslensku útgáfu bókarinnar.

Maðurinn sem drap Lukku-Láka (franska: L'homme qui tua Lucky Luke) eftir franska teiknarann Matthieu Bonhomme er fyrsta bókin í sérstakri seríu um Lukku-Láka þar sem ólíkir listamenn af ýmsu þjóðerni fá að spreyta sig á að semja og teikna ævintýri um kúrekann, sem þó teljast ekki hluti hinnar opinberu bókaraðar. Bókin kom út árið 2016 í tilefni af sjötugsafmæli Lukku-Láka.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Dimma rigningarnótt kemur Lukku-Láki ríðandi á Léttfeta til bæjarins Froggy Town. Á krá bæjarins lendir Láki í útistöðum við skerfara bæjarins, einn hinna þriggja Bone-bræðra, sem vill ólmur skora Lukku-Láka á hólm. Annar bróðirinn skerst í leikinn og Láki neyðist til að láta af hendi byssu sína. Bræðurnir hverfa á braut við svo búið, en Láki kemst í kynni við gamlan kúreka á kránni, hinn lungnaveika Wednesday lækni. Daginn eftir, þegar Lukku-Láki ætlar að yfirgefa Froggy Town, biðja stjórnarmenn í íbúasamtökum bæjarins Láka um að taka að sér rannsókn á dularfullu póstvagnaráni í nágrenni bæjarins. Steve, þriðji Bone-bróðirinn, var á vettvangi ránsins og heldur því fram að óþekktur indíáni hafi verið að verki. Láki fer í fylgd Wednesday læknis á vettvang til að freista þess að finna slóð indíánans. Á leiðinni mæta þeir póstvagninum og meðal farþega er gömul vinkona Láka, Laura Legs, sem er á leið til bæjarins til að ganga í hnapphelduna. Lukku-Láki rekur slóðina að gamalli gullnámu á landi Bone-bræðra þar sem gamall maður, pabbi bræðranna, ógnar Láka með haglabyssu og rekur hann burt. Um kvöldið, á kránni í Froggy Town, birtist pabbinn í fylgd sona sinna og Lauru Legs sem ætlar sér að ganga að eiga einn bræðranna, Anton. Sá gamli sakar Láka um að ætla sér að svívirða orðspor Bone-fjölskyldunnar með því að kenna bræðrunum um ránið á póstvagninum. Eftir nokkra rekistefnu er afráðið að halda með flokk manna undir forystu Bone-bræðra á landsvæði indíána í nágrenni bæjarins til að leita ræningjans. Lukku-Láki og Wednesday læknir hraða sér á undan til indíánanna í þeirri von að afstýra yfirvofandi blóðbaði.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Bókin fékk prýðisgóðar viðtökur þegar hún kom út árið 2016 og vann til sérstakra verðlauna á myndasöguhátíðinni í Angouléme í Frakklandi í ársbyrjun 2017. Fljótlega fylgdu í kjölfarið fleiri bækur í ritröðinni, þar á meðal önnur bók eftir Matthieu Bonhomme, og telur ritröðin nú alls fimm bækur.
  • Með bókinni rættist æskudraumur höfundarins Bonhomme um að fá að teikna Lukku-Láka sögu, en hann hafði margoft stungið upp á því sjálfur við útgefanda Lukku-Láka.
  • Nafn bókarinnar er innblásið af vestrakvikmynd John Ford frá árinu 1962, The Man Who Shot Liberty Valance.
  • Sagan á að gerast milli bókanna Daisy Town og Fingers í opinberu ritröðinni og varpar hulunni af ástæðu þess að Lukku-Láki hætti að reykja.
  • Fyrirmynd Joshua Wednesday læknis í sögunni er að öllum líkindum byssumaðurinn berklasjúki Doc Holliday sem var meðal þáttakenda í einni af frægustu rimmum Villta Vestursins, byssubardaganum við OK Corral í Tombstone í Arísóna árið 1881.
  • Söngkonan Laura Legs kemur við sögu í tveimur eldri bókum úr opinberu seríunni, Stórfurstanum og La Corde du pendu et autres histoires.
  • Í kirkjugarði bæjarins í bókarlok má sjá legstein með áletruninni "four slugs from a 44 no less no more" sem er vel þekkt grafskrift á leiði sem kennt er við Lester nokkurn Moore í Boothill kirkjugarðinum í Tombstone.

Íslensk útgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Maðurinn sem drap Lukku-Láka var gefin út af Froski útgáfu árið 2021.

Grein í Le Figaro https://www.lefigaro.fr/bd/2016/04/02/03014-20160402ARTFIG00037-lucky-luke-se-reinvente-entre-john-ford-et-sergio-leone.php