Gaddavír á gresjunni

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Gaddavír á gresjunni (franska: Des barbelés sur la prairie) eftir Maurice de Bevere (Morris) og René Goscinny er 29. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1967, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) árið 1965.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Einkaleyfi Josephs F. Gliddens af nútímagaddavír frá 1874

Garðyrkjubóndinn Áslákur hefur keypt landskika á sléttunni miklu. Þegar nautahjörð í eigu hins digra Kussa Kassa, nautabaróns sem situr í nálægum , er rekin þvert yfir jörð Ásláks með tilheyrandi landspjöllum heldur Áslákur til fundar við Kussa á krá hans í Kúagili. Kussi bregst illa við erindinu, en Lukku Láki, sem fyrir tilviljun er staddur á kránni, bjargar bóndanum frá því að verða hengdur í hæsta gálga af Kussa og kumpánum hans. Þegar Áslákur bregður á það ráð að girða land sitt með gaddavír verður fjandinn laus þar sem það þykir jaðra við landráð að reisa gaddavírsgirðingar á sléttunni. Áslákur leitar liðsinnis annarra bænda í héraðinu, en Kussi Kassi smalar til sín digrustu kúakóngum og nautabarónum til að ráða niðurlögum Ásláks og félaga. Það kemur í hlut Lukku Láka að búa bændurna undir komandi uppgjör.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Bakgrunnur þessarar bókar eru illvígar deilur um jarðnæði og beitarrétt á landi í villta vestrinu sem stundum hafa verið nefndar gaddavírsstríðin (e. The Fence Cutting Wars). Eins og lýst er í bókinni stóðu deilurnar stundum milli kornyrkjubænda annars vegar og kúabaróna hins vegar, en oft var líka um að ræða innbyrðis átök milli jarðeigenda eða landnema og þeirra sem fyrir voru um mörk jarða. Gaddavírinn, sem kom fram á sjónarsviðið í villta vestrinu á seinni hluta 19. aldar, gegndi lykilhlutverki í þessum skærum þar sem hann gerði eigendum jarða kleift að girða lönd sín með minni tilkostnaði en áður. Tóku þá gaddavírsgirðingar að rísa skipulagslaust um alla sléttuna. Þessum átökum lauk með lagasetningu sem bannaði mönnum að eigna sér beitarlönd úr almenningum og gerði vírklippingar refsiverðar.
  • Ekki er óhugsandi að Morris og Goscinny hafi einnig sótt innblástur að sögunni í tvær vestrakvikmyndir frá 6. og 7. áratugnum þar sem svipuðum atburðum er lýst, þ.e. vestrunum Shane frá árinu 1953 og Cattle King frá árinu 1963.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Gaddavír á gresjunni var gefin út af Fjölva árið 1979 í íslenskri þýðingu Þórs Stefánssonar. Þetta er 20. bókin í íslensku ritröðinni.