Ríkisbubbinn Rattati

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Ríkisbubbinn Rattati (franska: L´Héritage de Rantanplan) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 41. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1973, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Pilote sama ár.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Uggi Sveins, vellauðugur fyrrverandi fangi, safnast til feðra sinna kemur í ljós að hann hefur arfleitt fangelsishundinn Rattata að öllum sínum eignum. Í erfðaskránni stendur jafnframt að ef Rattati falli frá muni öll auðæfin - fjöldi fasteigna í Vigguborg og silfurnáma í grennd við borgina - renna til Jobba Daldón. Lukku Láki er snarlega skipaður lögráðamaður erfingjans og heldur ásamt Rattata til borgarinnar til að hafa umsjón með eignunum og greiða starfsfólki laun. Á sama tíma tekst Daldónum að flýja úr fangelsinu og þeir elta Lukku Láka til borgarinnar með það fyrir augum að koma Rattata fyrir kattarnef og komast þannig yfir auðinn. Í Vigguborg lenda Daldónarnir í útistöðum við kínverska glæpaklíku í kínahverfi bæjarins, en þegar Kínverjarnir komast að því að Daldónarnir vilja Rattata feigan bjóðast þeir til að veita Daldónunum alla mögulega aðstoð, enda hafa eigendur fasteigna í kínahverfinu lengi okrað á leigu. Þegar Rattati hverfur sporlaust eru góð ráð dýr því skiptaráðendur neyðast þá til að stöðva allan rekstur námanna og fyrirtækja Rattata. Allt atvinnulíf borgarinnar lamast og framtíð hennar veltur á því að Lukku Láka takist að finna Rattata á lífi á undan Daldónunum.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

Hið virðulega Hotel International í Virginia City.
  • Sagan gerist að mestu leyti í Virginia City í Nevada, námubæ sem reis nánast á einni nóttu árið 1859 þegar silfur og gull fannst þar í jörð. Varð bærinn mikið uppgangspláss og um miðjan áttunda áratug 19. aldar var íbúatalan farin að nálgast 30.000 og bærinn orðinn einn mikilvægasti þéttbýlisstaður vestan Chicago. Dró bærinn m.a. til sín mikinn fjölda kínverskra innflytjenda sem komu þar á fót einu stærsta kínahverfi vestursins. Eins og títt er um námabæi stóð blómaskeið Virginia City þó ekki lengi. Um 1880 voru námurnar að mestu uppurnar og á örskömmum tíma breyttist borgin í draugabæ með um nokkur hundruð íbúa.
  • Hótelið sem Rattati erfir í bókinni (sjá mynd á bls. 11 í íslensku útgáfu bókarinnar) er hið raunverulega Hotel International í Virginia City sem var á sínum tíma eitt af stærstu og glæsilegustu hótelum vestan Chicago. Það brann til kaldra kola í miklum bruna þann 26. október 1875, en bruninn jafnaði einnig að mestu við jörðu kínahverfi borgarinnar. Hótelið var endurbyggt tveimur árum síðar, en gjöreyðilagðist í öðrum eldsvoða árið 1914. Nú er að finna bílastæði þar sem hótelið stóð áður.
  • Bókin er sú fyrsta í bókaflokknum sem er kennd við hundinn Rattata sem kom fyrst fram á sjónarsviðið í bókinni Í fótspor Daldóna árið 1960. Þessi staðreynd er til vitnis um vaxandi vinsældir Rattata á þessum tíma og árið 1987 hóf Morris að teikna sjálfstæðar sögur um Rattata. Komu alls út um 20 bækur í þeirri ritröð.
  • Þrátt fyrir að Daldónarnir og gáfnaljósið Rattati gegni veigamiklu hlutverki í bókinni með tilheyrandi glensi má þó einnig greina alvarlegri undirtóna í sögunni, enda fjallar hún öðrum þræði um félagslegt óréttlæti og kynþáttaárekstra milli hvítra íbúa Vigguborgar og kínverskra innflytjenda.
  • Í bókinni hittir Lukku Láki rithöfundinn Mark Twain (1835-1910). Bendir það til þess að sagan gerist á tímabilinu frá 1862 til 1864 þegar Mark Twain starfaði sem blaðamaður á héraðsblaðinu Territorial Enterprise í Virginia City.
  • Ríkisbubbinn Rattati er síðasta Lukku Láka sagan sem birtist á síðum teiknimyndablaðsins Pilote.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Ríkisbubbinn Rattati var gefin út af Fjölva árið 1978 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 14. bókin í íslensku ritröðinni.