Fara í innihald

Í fótspor Daldóna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa belgísku útgáfu bókarinnar.

Í fótspor Daldóna (franska: Sur la piste des Dalton) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 17. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1961, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) árið 1960. Bókin hefur ekki komið út á íslensku.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Söguþráður bókarinnar er tilbrigði við kunnuglegt stef og svipar mjög til framvindu mála í eldri bókunum Daldónar, ógn og skelfing Vestursins og Flótti Daldóna. Daldónunum tekst að strjúka úr fangelsi með því að grafa göng undir fangelsismúrinn og Lukku Láki er beðinn um aðstoð við að hafa hendur í hári þeirra. Lukku Láki er tregur í taumi, en þegar Daldónarnir ræna hestum frá gömlum vini hans, Tex Thompson, hefur Láki eftirför ásamt Léttfeta og fangelsishundinum Rattata. Allt gengur á afturfótunum til að byrja með og Daldónunum tekst að vopnast og láta greipar sópa í bænum Rightful Bend. Lukku Láka tekst að grípa Jobba Daldón glóðvolgan og koma fyrir bak við lás og slá, en þegar Láki er sjálfur yfirbugaður af hinum bræðrunum í felustað þeirra skammt frá bænum semja þeir við skerfarann um fangaskipti á Láka og Jobba. Í hönd fer sannkölluð óöld í héraðinu og bæjarbúar flýja Rightful Bend af ótta við blóðugt lokauppgjör milli Daldónanna og Lukku Láka.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Í bókinni er Rattati, heimskasti hundur Villta Vestursins og þó víðar væri leitað, kynntur til sögunnar. Hann var nokkurs konar mótleikur Goscinny við dýrkun bandarísks kvikmyndaiðnaðar á ofurgáfuðum hundum eins og Lassie og Rin Tin Tin á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Rattati átti eftir að birtast í mörgum seinni Lukku Láka bókum og verða ein af aðalpersónum bókaflokksins, en meðan Goscinny naut við birtust Rattati og Daldónarnir raunar alltaf í sömu bókum. Í fótspor Daldóna er stundum talin marka upphaf gullaldartímabils Lukku Láka, enda höfðu þá allir aðalleikendur seríunnar verið kynntir til sögunnar.
  • Í fótspor Daldóna er fyrsta Lukku Láka bókin þar sem Léttfeti talar: hann lýsir vanþóknun sinni á Rattata við fyrstu kynni þeirra félaga.
  • Teiknimyndahetjunni Jerry Spring bregður fyrir í bókinni ásamt mexíkóskum félaga sínum Pancho. Lærifaðir Morris, belgíski teiknarinn Jijé (Joseph Gillain, 1914-1980), var höfundur sagnanna um Jerry Spring.
  • Lucky Luke. Nouvelle Intégrale 6. Dupuis. 2024.