Hvíti kúrekinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa frönsku útgáfu bókarinnar.

Hvíti kúrekinn (franska: Le Cavalier Blanc) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 43. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1975, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Lucky Luke á árunum 1974-75. Bókin hefur ekki komið út á íslensku.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Lukku Láki er á leið til bæjarins Einskisgils (e. Nothing Gulch) eftir að hafa rekið kúahjörð fyrir gamlan vin, Hank Wallace. Fámennur leikhópur undir forystu Whittaker nokkurs Baltimore verður fyrir tilviljun á vegi Lukku Láka. Leikhópurinn er á sýningarferðalagi um Texas og slæst með í för til Einskisgils þar sem hópurinn ætlar að setja upp leikritið "Hvíti kúrekinn" fyrir bæjarbúa. Við komu til bæjarins afhendir Lukku Láki Hank Wallace greiðsluna fyrir kýrnar og Hank leggur féð inn í banka bæjarins. Um kvöldið halda þeir félagar á krána til að sjá leikritið, en þegar bankinn er rændur í miðjum klíðum verður uppi fótur og fit. Bæjarbúar hefja þegar í stað leit að ræningjunum ásamt Lukku Láka, en engin slóð finnst. Morguninn eftir heldur leikhópurinn ferð sinni áfram til næsta viðkomustaðar, námubæjarins Miners Pass. Lukku Láka grunar að ekki sé allt með felldu og fylgir hópnum til bæjarins. Grunsemdir hans styrkjast þegar skrifstofa námunnar er rænd á meðan á leiksýningu stendur, en gamanið kárnar þegar grunur fellur óvænt á Lukku Láka sjálfan og öskureiðir námamennirnir taka hann höndum. Með hjálp Léttfeta tekst Lukku Láka naumlega að forðast hengingu og hann eltir leikhóp Whittaker Baltimore til næsta bæjar, staðráðinn í að fletta ofan af ræningjunum.

Sviðs- og kvikmyndaleikarinn John Barrymore á ljósmynd frá þriðja áratuginum.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Sagan um Hvíta kúrekann birtist upprunalega í hinu skammlífa tímariti Lucky Luke sem einungis kom út í um eitt ár. Hið sama á við um sögurnar sem birtust í næstu bók á undan, Allt um Lukku Láka.
  • Hvíti kúrekinn er ein af örfáum bókum í bókaflokknum þar sem Lukku Láki fæst við kúrekstur. Þarf að leita allt aftur til Rangláta dómarans, sem kom út 16 árum fyrr, til að finna annað dæmi um það.
  • Eins og í mörgum fyrri bókum skopstælir Morris frægar kvikmyndastjörnur í sögunni, að þessu sinni bandarísku leikarana John Barrymore (1882-1942) í gervi tuskuleikarans Whittaker Baltimore og Andy Devine (1905-1977) í gervi búgarðseigandans Hank Wallace.