Hroðreið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Kápa belgísku útgáfu bókarinnar.

Hroðreið (franska: Rodéo) eftir belgíska teiknarann Morris er önnur bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1949, en sögurnar sem hún hefur að geyma birtust fyrst í Teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1948-1949. Bókin hefur ekki komið út í íslenskri þýðingu.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Bókin hefur að geyma þrjár sögur. Í Hroðreið (f. Grand rodéo) kemur Lukku Láki til bæjarins Navajo City til að taka þátt í ótemjureið. Lukku Láki lendir fljótlega upp á kant við ofstopamann bæjarins, Cactus Kid, og þegar hinn síðarnefndi áttar sig á því að Láki muni reynast erfiður viðureignar í reiðkeppninni grípur hann til óyndisúrræða og rænir verðlaunafénu. Í annarri sögunni, Lucky Luke à Desperado-City, segir frá heimsókn Lukku Láka til bæjar nokkurs sem rumpulýður hefur lagt undir sig. Eftir mikil átök, þar sem litlu munar að Lukku Láki sé hengdur upp á þráð, nær okkar maður loksins undirtökunum. Þriðja sagan, La Ruée vers l'or de Buffalo Creek, fjallar um mikið gullæði sem brýst út að ósekju í bænum Buffalo Creek.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Í Hroðreið sést Lukku Láki í fyrsta skipti kveikja sér í sígarettu, sitjandi á baki ótemju. Í sögunni minnist Lukku Láki á fjölskyldu sína, þ.e. afa sinn, og sennilega finnst aðeins eitt annað dæmi þess í öllum sagnabálkinum, þ.e. í bókinni um Langa Láka.
  • Nokkrir rammar í annarri sögunni (Desperado-City) eru teiknaðir af læriföður Morris, teiknaranum Jijé.
  • Í þriðju sögunni um gullæðið bregður félaga Morris, teiknaranum Will (Willy Maltaite), fyrir í gervi gullgrafara sem grefur upp hauskúpu.
  • Hroðreið er fyrsta bókin í seríunni þar sem Lukku Láki raular lagið um einmana kúsmalann. Texti lagsins, "Im a poor lonesome cowboy", er fenginn úr vestranum Along Came Jones frá árinu 1945 þar sem Gary Cooper söng lagið.
  • Skerfarinn í Desperado-City átti eftir að koma við sögu síðar í bókaflokknum, þ.e. í bókinni Eldri Daldónar.