Svala sjana

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa finnsku útgáfu bókarinnar.

Svala Sjana (franska: Calamity Jane) eftir Maurice de Bevere (Morris) og René Goscinny er 30. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1967, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) á árunum 1965-66.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Rannsóknarstofnun indíánamála fær Lukku Láka til að rannsaka vopnasmygl til indíána. Á leið sinni til Plómubælis (El Plomo) verður Lukku Láki fyrir árás indíána, en hin víðfræga Svala Sjana, sem allt Villta Vestrið talar um, kemur honum til bjargar. Svala Sjana slæst í för með Láka til Plómubælis þar sem hún skorar kráreigandann Ágúst Ostran á hólm í sjómann um að fá að kaupa af honum krána. Ágúst fær heljarmennið Simba Smásál til að keppa fyrir sína hönd, en allt kemur fyrir ekki; Sjana vinnur og hreppir krána. Svala Sjana og Lukku Láki vita hins vegar ekki að Ágúst Ostran stendur á bak við vopnasmyglið og hann neytir allra bragða til að komast aftur yfir krána sem hann hefur notað sem felustað fyrir vopnin. Svala Sjana, sem blótar stöðugt, drekkur óblandað viskí og tyggur skro, neyðist til að taka upp breytta siði til að ganga í augun á kvenfélagi bæjarins og fær Lukku Láki Róbert Geiroddsen, prófessor við mannasiðaháskóla í Hóstaborg (e. Houston), til að koma til Plómubælis og kenna Sjönu kurteisi. Á sama tíma eru indíánarnir farnir að ókyrrast þar sem þeir eru hættir að fá vopn og árás þeirra á Plómubæli vofir yfir.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

Calamity Jane á ljósmynd frá um 1880
  • Persóna Svölu Sjönu er byggð á einni af hinum þjóðsagnakenndu hetjum Villta Vestursins, hinni raunverulegu Mörthu Jane Canary (Calamity Jane). Frásögn Sjönu í upphafi bókarinnar á lífshlaupi sínu styðst að nokkru leyti við sögulegar heimildir. Þannig var Martha Jane fædd í Princeton í Missouri og starfaði um tíma sem skáti í hernum, vagnekill og gullgrafari. Hún settist að í gullgrafarabænum Fúaviði (Deadwood) í Suður-Dakóta og þar kynntist hún öðrum frægum ævintýramanni úr Vestrinu James Butler Hickok (Wild Bill Hickok). Óvíst er að þau hafi nokkru sinni verið gift, en dauða Villta Billa er rétt lýst í bókinni: hann var skotinn við pókerspil á krá í Fúaviði þann 2. ágúst 1876. Martha Jane lést árið 1903 og var jörðuð við hlið Villta Billa í kirkjugarði í Fúaviði.
  • Svala Sjana er fyrsta Lukku Láka bókin þar sem kona er í aðalhlutverki.
  • Svala Sjana kom stuttlega við sögu í eldri Lukku Láka bók, Óaldarflokki Jússa Júmm. Hún birtist þar sem eftirlýstur bófi sem hvorki rýmar við persónuna eins og henni er lýst í Svölu Sjönu né sögu hinnar raunverulegu Sjönu. Persónan átti síðar eftir að verða í aðalhlutverki í annarri Lukku Láka bók, Chasse aux fantômes sem kom út árið 1992.
  • Morris teiknaði stundum klæðalausar konur í Lukku Láka bókunum, en þær teikningar voru jafnan afmáðar eða breytt af útgefandanum Dupuis áður en bækurnar komu út. Á bls. 16 í íslensku útgáfu Svölu Sjönu má sjá dæmi um þetta þar sem litað hefur verið yfir mynd af konu á vegg.
  • Siðameistarinn Róbert Geiroddsen er skopstæling á breska kvikmyndaleikaranum David Niven (1910-1983). Þá minnir Ágúst Ostran mjög á Skotann Sean Connery sem lék í sinni fimmtu James Bond mynd á sama ári og bókin um Svölu Sjönu kom út.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Svala Sjana var gefin út af Fjölva árið 1978 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er áttunda bókin í íslensku ritröðinni.