Fara í innihald

Daldónaborg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa frönsku útgáfu bókarinnar.

Daldónaborg (franska: Dalton City) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 34. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1969, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Pilote á árinu 1968. Bókin hefur ekki komið út á íslensku.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Sagan hefst á því að Lukku Láki kemur til bæjarins Fenton Town í Texas, spillingarbælis þar sem lögleysan ein ríkir og plásskóngurinn Dean Fenton hefur alla þræði í hendi sér. Lukku Láki hreinsar til í bænum og kemur Dean Fenton í hendur réttvísinnar. Dean er dæmdur til 1.223 ára þrælkunarvinnu og er færður í fangelsi. Svo vill til að í sama fangelsi afplána Daldónarnir sinn dóm og þeir heyra sögur Deans af yfirgefna bænum sem við hann var kenndur. Þegar mistök seinheppins símritara fangelsisins verða til þess að Jobbi Daldón er látinn laus úr fangelsinu ákveður hann að frelsa bræður sína úr prísundinni og halda til hins yfirgefna bæjar til að koma þar á fót griðastað fyrir glæpamenn Villta Vestursins. Lukku Láki fylgir Daldónunum til bæjarins, en er gripinn höndum og Jobbi Daldón ákveður að Lukku Láki skuli hjálpa bræðrunum að undirbúa komu gestanna. Þegar Daldónarnir ráða flokk dansmeyja undir forystu Lúlu Sprengikúlu til að skemmta gestum á krá bæjarins færist fjör í leikinn.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

Mae West
  • Daldónaborg var fyrsta Lukku Láka sagan sem birtist í teiknimyndablaðinu Pilote eftir að Morris og Goscinny yfirgáfu útgáfufélagið Dupuis árið 1968 og héldu til liðs við hið frjálslyndara Dargaud. Sagan ber vistaskiptunum glöggt vitni - í fyrsta skipti í bókaflokknum fá dansmeyjar Villta Vestursins veigamikið hlutverk, en þær voru alger bannvara hjá Dupuis. Bókin er einnig sú fyrsta í seríunni þar sem ástin kemur við sögu, en tveir af Daldónunum verða bálskotnir í kjarnorkukvendinu Lúlu Sprengikúlu.
  • Daldónaborg er ein af fáum bókum í bókaflokknum þar sem miðbræðurnir Vibbi og Kobbi fá að njóta sín, einkum Vibbi sem býður Jobba "stóra bróður" byrginn í slag um ástir Lúlu. Í sögunni er Vibbi hærri í loftinu en Kobbi, en í öðrum bókum í bókaflokknum er því yfirleitt öfugt farið.
  • Lúla Sprengikúla er skopstæling á bandarísku söng- og leikkonunni Mae West (1893-1980).
  • Á kránni í Daldónaborg má sjá skilti með áletruninni "Ekki skjóta píanóleikarann" sem gæti verið skírskotun til frönsku kvikmyndarinnar Tirez zur le pianiste (skjótið píanóleikarann) eftir François Truffaut frá árinu 1960.