Fara í innihald

Daldónar, ógn og skelfing Vestursins

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa belgísku útgáfu bókarinnar.

Daldónar, ógn og skelfing Vestursins (franska: Les Cousins Dalton) eftir Maurice de Bevere (Morris) og René Goscinny er 12. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1958, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) á árinu 1957.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Dalton bræðurnir Jobbi, Vibbi, Kobbi og Ibbi (Ívar) eru yngri frændur hinna alræmdu Dalton bræðra, sem Lukku Láki kom fyrir kattarnef í bókinni Eldri Daldónar, og hafa svarið þess eið að koma fram hefndum. Þeir þrá ekkert heitar en að verða frægir óbótamenn eins og frændur sínir, en tilraunir þeirra til að hasla sér völl sem slíkir fara jafnan út um þúfur. Þeir finna Lukku Láka á krá í bænum Drápuhlíð (e. Killer Gulch) í Texas, en fljótt kemur í ljós að þeir hafa lítið í Láka að gera. Þeir bjóða Láka þá að slást í lið með sér og hann samþykkir það til þess að geta afstýrt frekari illvirkjum. Þannig tekst Láka að spilla fyrir tilraunum Daldónanna til bankarána. Þegar Daldónarnir komast að því að þeir hafa verið plataðir ákveða þeir að koma Láka fyrir kattarnef og skipta liði. Eftir að Ibba, Kobba og Vibba mistekst ætlunarverkið og eru handsamaðir af Lukku Láka kemur til lokauppgjörs við elsta bróðurinn Jobba í bænum Skollagili (e. Coyote Gulch).

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Í bókinni eru Daldónarnir kynntir til sögunnar, en þeir áttu eftir að birtast í fjölmörgum seinni bókum í ritröðinni og keppa við Lukku Láka sjálfan um vinsældir lesenda. Daldónarnir höfðu birst áður í bókinni Óaldarflokkur Jússa Júmm, en aðeins í mýflugumynd. Þótt Daldónar, ógn og skelfing Vestursins sé þannig fyrsta bókin um Daldónana eru þeir strax orðnir sjálfum sér líkir; Jobbi hinn skapbráði fer fyrir bræðrunum, en Ibbi er barnalegastur þeirra og hugsar mest um mat. Miðbræðurnir Vibbi og Kobbi eru litlausari, en í þessari bók gegna þeir þó veigameira hlutverki en yfirleitt varð í seinni bókum í ritröðinni.
  • Miðbræðrunum Vibba og Kobba virðist vera ruglað saman í bókinni. Í byrjun er Vibbi (e. William) næstminnstur (á eftir Jobba), en er líður að sögulokum er hann orðinn næststærstur (á eftir Ibba).
  • Í viðtali við teiknimyndablaðið Sval á níunda áratuginum lét Morris hafa eftir sér að hann hefði fengið hugmyndina að Daldónunum eftir að hafa lesið bókina When the Daltons Rode eftir Emmett Dalton.
  • Lukku Láki drekkur mikið af Kóka kóla í bókinni. Hér er ekki um sögulega ónákvæmni að ræða þar sem gosdrykkurinn kom fram á sjónarsviðið í Bandaríkjunum árið 1886, en gera má ráð fyrir því að sagan gerist eftir að hinir raunverulegu Dalton bræður mættu örlögum sínum árið 1892.
  • Í fyrsta sinn í bókaflokknum sýnir Lukku Láki ómannlega hæfileika með frethólkinn. Sjá bls. 32 í íslensku útgáfunni.
  • Daldónar, ógn og skelfing Vestursins er fyrsta Lukku-Láka sagan sem kom fyrir sjónir lesenda í Noregi, þ.e. í Norsk Ukeblad árið 1962. Lukku-Láki gekk þá undir nafninu "Lucky Boy".
  • Á öftustu síðu bókarinnar má sjá veggspjald þar sem lýst er eftir byssubófanum Red Beard Yvan. Þar er á ferðinni skopmynd af þáverandi ritstjóra tímaritsins Svals Yvan Delporte.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Daldónar, ógn og skelfing Vestursins var gefin út af Fjölva árið 1978 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er sjötta bókin í íslensku ritröðinni.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Lucky-Luke. 1957-1958. Egmont Serieforlaget A/S. 2003.
  • Lucky Luke. Nouvelle Intégrale 4. Dupuis. 2022.