Stórfurstinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa íslensku útgáfu bókarinnar.

Stórfurstinn (franska: Le Grand Duc) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 40. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1973, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Pilote sama ár.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Hans hátign Leoníd stórfursti, sérlegur erindreki Rússakeisara, kemur í heimsókn til Bandaríkjanna ásamt hjálparhellu sinni, Boulenkov ofursta. Lukku Láki er boðaður á fund innanríkisráðherra í Washington þar sem honum er falið það verkefni að fylgja furstanum í skoðunarferð um Villta Vestrið, enda ríður á að ferðalagið heppnist vel þar sem í húfi er mikilvægur viðskiptasamningur við Rússa. Furstinn vill hefja ferðina á heimsókn til hins róstusama bæjar Abilene í Kansas. Ferðin hefst, en hvorki Lukku Láki né furstinn vita að rússneskur stjórnleysingi veitir þeim eftirför í því skyni að ráða furstann af dögum. Á kránni í Abilene heillar Leoníd fursti söngkonuna Lauru Legs upp úr skónum með herramannslegri framkomu og hún varar Lukku Láka í kjölfarið við áformum kráareigandans Jackson´s um að ræna furstanum. Ránstilraunin fer út um þúfur og félagarnir koma til bæjarins Bellow Springs. Í nágrenni bæjarins stendur yfir leit að hættulegum stigamanni, Texas Ripper, og stórfurstinn ákveður að taka þátt í leitinni.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

Ljósmynd tekin árið 1872 af Alexei stórfursta (t.h.) og Custer hershöfðingja.
  • Sagan um stórfurstann er innblásin af heimsókn Alexei Alexandrovich fursta (1850-1908) til Bandaríkjanna árið 1871. Alexei fursti, sem var fjórði sonur Alexanders II Rússakeisara, ferðaðist víðs vegar um Bandaríkin með lest og hitti m.a. Ulysses S. Grant bandaríkjaforseta og ýmsar sögufrægar persónur Villta Vestursins eins og William Frederic Cody (Buffalo Bill) og George Armstrong Custer hershöfðingja. Alexei fursta og Custer varð raunar vel til vina og fóru þeir m.a. saman á vísundaveiðar í Nebraska.
  • Heimildir eru fyrir því að á ferðalagi sínu hafi Alexei fursti kynnst ensku leikkonunni Lydiu Thompson (1838-1908) á sýningu í St. Louis og hrifist mjög af söng hennar. Leikkonan er því mögulega fyrirmynd Lauru Legs í bókinni.
  • Í sögunni fá Lukku Láki og Leoníd stórfursti aldrei vitneskju um tilraunir rússneska stjórnleysingjans til að koma þeim fyrir kattarnef. Í lok sögunnar bendir allt til þess að ódæðismanninum muni takast ætlunarverk sitt, en hann hættir við þegar hann heyrir að von sé á Rússakeisara til Bandaríkjanna. Alexander II Rússakeisari kom aldrei til Bandaríkjanna, en hann var myrtur af stjórnleysingjum í St. Pétursborg árið 1881.
  • Snemma í sögunni kemur í ljós að Leoníd fursti er mikill aðdáandi bandaríska rithöfundarins James Fenimore Cooper (1789-1851), höfundar skáldsögunnar um Síðasta Móhíkanann.
  • Sagan minnir nokkuð á þjóðsöguna um hinn rússneska Grigory Potemkin.
  • Leoníd stórfursti er skopstæling á bresk/bandaríska kvikmyndaleikaranum Sidney Greenstreet (1879-1954). Í íslensku útgáfu bókarinnar Allt um Lukku Láka er hins vegar talið að fyrirmynd furstans sé leikarinn og leikstjórinn Orson Welles (1915-1985).
  • Stórfurstinn var ein af eftirlætisbókum Morris.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Stórfurstinn var gefinn út af Froski útgáfu árið 2018.