Fara í innihald

Sálarháski Dalton bræðra

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa frönsku útgáfu bókarinnar.

Sálarháski Dalton bræðra (franska: La Guérison des Dalton) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 44. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1975, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Le Journal de Tintin og í dagblaðinu Le Nouvel Observateur sama ár.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Prófessor Hemmi von Húmpubúk, virtur vísindamaður frá Evrópu, aðhyllist þær kenningar að glæpi megi rekja til áfalla í æsku og að alla glæpamenn megi lækna með sálgreiningu. Hann heldur til Bandaríkjanna til þess að sanna kenningar sínar með því að lækna harðsvíruðustu glæpamenn Villta Vestursins. Lukku Láki fylgir prófessornum til fangelsisins til að finna tilraunadýr og fyrir valinu verða vitaskuld hinir óforbetranlegu Daldónar sem sjá sér leik á borði að samþykkja að undirgangast meðferð til þess að losna úr fangelsinu. Eftir nokkra hnökra í byrjun fer meðferðin að skila árangri og prófessorinn leggur lokapróf fyrir Daldónana, þ.e. gefur þeim kost á vopnuðum flótta. Daldónarnir falla á prófinu og flýja með prófessor Hemma. Lukku Láki finnur Daldónana í afskekktum fjallakofa, en er yfirbugaður þegar í ljós kemur að prófessor Hemmi hefur gengið í lið með Daldónunum. Prófessornum hefur dottið í hug að beita aðferðum geðlæknisfræðinnar við bankarán og tekur Lukku Láka með í ránsferð til að koma honum í skilning um yfirburði aðferðarinnar. Babb kemur þó í bátinn þegar sálræn meðferð prófessors Hemma fer að hafa tilætluð áhrif á einn af Daldónunum.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

Kvikmyndaleikarinn Emil Jannings.
  • Kenningar prófessors Hemma von Húmpubúk í bókinni endurspegla kenningar í geðlæknis- og afbrotafræði sem áttu fylgi að fagna á seinni hluta 19. aldar og fólu í sér að glæpahneigð mætti lækna eins og sjúkdóm. Sagan er áhugaverð í þessu ljósi, enda birtist hún fyrst í dagblaðinu Le Novel Observateur sem þótti einkum höfða til menntaelítunnar í Frakklandi á miðjum áttunda áratuginum. Lok bókarinnar geyma bráðsnjalla skírskotun til austurríska geðlæknisins og sálgreinisins Sigmund Freud (1856-1939) og umdeildra kenninga hans um Ödipusarduld.
  • Sagan gerist að mestu í bænum Einskisgili (e. Nothing Gulch) og nágrenni, en sami bær er sögusvið nokkurra eldri bóka, t.d. Vagnalestarinnar. Í íslenskri þýðingu bókarinnar heitir bærinn Hnútagúll, en varð Einskisgil eða Einskisbær í þeim bókum sem síðar komu út á íslensku.
  • Prófessor Hemmi von Húmpubúk er skopstæling á austurríska/þýska kvikmyndaleikaranum og Óskarsverðlaunahafanum Emil Jannings (1884-1950) sem líklega er þekktastur fyrir að hafa leikið á móti Marlene Dietrich í kvikmyndinni Blái engillinn (Der blaue Engel) árið 1930.
  • Sálarháski Dalton bræðra er síðasta Lukku Láka bókin sem René Goscinny samdi um Daldónana og hundinn Rattata.

Íslensk þýðing[breyta | breyta frumkóða]

Sálarháski Dalton bræðra var gefin út af Fjölva árið 1977 í íslenskri þýðingu Þórs Stefánssonar. Þetta er fjórða bókin í íslensku ritröðinni.