Fara í innihald

La Terre promise

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa frönsku útgáfu bókarinnar.

La Terre promise (íslenska: Fyrirheitna landið) eftir franska teiknarann Achde (Hervé Darmenton) og höfundinn Jul (Julien Berjeaut) er 79. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 2016 og hefur ekki komið út á íslensku.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Gamall vinur Lukku Láka af gyðingaættum, kúrekinn Jack-la-Poisse, á von á fjölskyldu sinni í heimsókn frá Evrópu. Hann biður Láka um að gera sér þann greiða að fylgja fjölskyldunni frá St. Louis að hitta sig á áfangastað í Chelm City í Montana. Fjölskyldan hefur ekki hugmynd um að Jack starfi við kúrekstur og stendur í þeirri trú að hann sé farsæll lögfræðingur í New York. Við upphaf ferðalagsins vekur fjölskyldan athygli tveggja óbótamanna. Þeir halda að gyðingafjölskyldan hafi mikla peninga meðferðis og ákveða að veita henni eftirför. Lukku Láki fær því í nógu að snúast á ferðalaginu.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • La Terre promise er fyrsta Lukku Láka bókin sem samin er af franska höfundinum og teiknaranum Jul (Julien Berjeaut). Hann er þekktur fyrir myndasögurnar Silex and the City sem notið hafa vinsælda og urðu efniviður að teiknimyndaseríu í sjónvarpi. Jul var í hópi þeirra sem komu til greina sem handritshöfundar fyrir Ástrík gallvaska þegar Albert Uderzo settist í helgan stein árið 2014, en varð að lúta í lægra haldi fyrir Jean-Yves Ferri.
  • Sagan fjallar um gyðingafjölskyldu frá Austur-Evrópu sem sest að í Bandaríkjunum. Haft var eftir höfundinum að sagan væri til að heiðra minningu René Goscinny sem var af gyðingaættum og átti skyldmenni sem fórust í helförinni.
  • Bærinn Chelm City í Montana er tilbúningur í sögunni, en er vafalaust tilvísun til samnefndrar borgar í Póllandi sem hýsti eitt fjölmennasta samfélag gyðinga í Evrópu áður en seinni heimsstyrjöldin braust út.
  • Kápumynd bókarinnar er bersýnilega innblásin af Grænjaxlinum.