Le Pont sur le Mississipi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa frönsku útgáfu bókarinnar.

Le pont sur le Mississipi (íslenska: Brúin yfir Mississippi) eftir belgíska teiknarann Morris (Maurice de Bevere) og höfundana Jean Léturgie og Xavier Fauche er 63. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1994 og hefur ekki verið gefin út á íslensku.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1868 hefur Mississippifljót ekki verið brúað milli bæjanna St. Louis og Illinoistown. Bæjarstjórinn Bat Cayman er hæstánægður með ástand mála þar sem hann rekur sjálfur einu ferjuna sem siglir milli bæjanna og gín yfir öllu atvinnulífi á svæðinu í slagtogi með bróður sínum Dick Cayman. Þegar forseti Bandaríkjanna fær verkfræðinginn James Eads til að ráðast í smíði brúar milli bæjanna er veldi Caymanbræðra ógnað og þeir leita allra ráða til að spilla fyrir brúarsmíðinni. Lukku Láki kemur Eads til aðstoðar og veitir ekki af þar sem Cayman bræður svífast einskis í tilraunum sínum til að koma í veg fyrir að Eads nái að ljúka verkinu.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Sögusvið bókarinnar er smíði Eads brúrinnar yfir Mississippifljót milli vestur- og austurhluta St. Louis árið 1874. Brúin, sem nefnd var í höfuðið á verkfræðingnum James B. Eads (1820-1887), var vígð á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna þann 4. júlí 1874 og var þá lengsta bogabrú í heimi (tæpir 2 km).
  • Upprunalegt heiti bókarinnar er Le Pont sur le Mississipi (með einu p-i) sem er eldra ritmál í frönsku. Þegar bókin var endurútgefin var þessu breytt og einu p-i bætt við.
  • Höfundurinn Morris átti það til á sínum efri árum að stytta sér leið við gerð Lukku Láka bókanna og afrita teikningar milli tveggja eða jafnvel fleiri ramma. Nokkur dæmi þessa má finna í bókinni, t.d. á bls. 38.
  • Þegar bókin kom fyrst út í Danmörku árið 1995 urðu útgefandanum á þau mistök að þýða heiti hennar Floden over Mississippi. Þetta var leiðrétt þegar bókin var endurútgefin árið 2007.
  • Nokkrir gamlir kunningjar úr eldri bókum koma við sögu í bókinni, t.d. Patti póker úr Spilafantinum, Ned stýrimaður úr Fúlspýt á Fúlalæk og útfararstjórinn úr Karlarígur í Kveinabæli.