La Corde du pendu et autres histoires
La Corde du pendu et autres histoires (ísl. Hengingarsnaran og fleiri sögur) eftir Morris (Mauride de Bevere), René Goscinny, Vicq, Bob de Groot, Dom Domi og Martin Lodewijk er 49. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1982, en nokkrar af sögunum sem hún hefur að geyma höfðu áður komið fyrir sjónir lesenda í teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1979 og 1980.
Sögurnar
[breyta | breyta frumkóða]Bókin hefur að geyma sex styttri sögur um Lukku Láka eftir ýmsa höfunda. Í fyrstu sögunni (La Corde du pendu eftir Vicq) kemur Lukku Láki meintum hestaþjófi, sem á að hengja í hæsta gálga, til bjargar. Önnur sagan (Les Dalton prennent le train eftir Goscinny) fjallar um lestarrán Daldóna. Þriðja sagan (La mine du chameau eftir Dom Domi) segir af kynnum Lukku Láka af úlfaldasölumanni frá miðausturlöndum sem heimsækir Villta Vestrið. Í fjórðu sögunni (Règlement de comptes eftir Lodewijk) verður dansmey ástfangin af Lukku Láka sem veldur mikilli afprýðisemi hjá öðrum aðdáanda hennar. Í fimmtu sögunni (La bonne parole eftir Bob de Groot) fær predikari einn þá hugmynd í kollinn að breiða út fagnaðarerindið á slóðum Apasa. Sjötta og síðasta sagan (Li-Chi's story) fjallar um kínverja sem kemur til Villta Vestursins að freista gæfunnar.
Fróðleiksmolar
[breyta | breyta frumkóða]- Sagan um úlfaldasölumanninn er lauslega byggð á sögu Tyrkjans Hadji Ali (1828-1902) sem var ráðinn af Bandaríska hernum árið 1856 til að hafa umsjón með tilraunaverkefni sem fólst í því að nota úlfalda til vöruflutninga í suðvesturríkjum Bandaríkjanna. Herinn keypti fjölda úlfalda í þessu skyni, en tilraunin mislukkaðist á endanum.
- Höfundur sögunnar um úlfaldasölumanninn var belgíski teiknimyndasöguhöfundurinn Dom Domi (Dominique Vandael). Hann samdi nokkrar styttri sögur um Lukku Láka fyrir Morris á þessum tíma, en La mine du chameu var sú eina sem Morris notaði í bókinni. Þegar bókin L'Artiste peintre kom út um 20 árum síðar sakaði Dom Domi þá félaga Morris og Bob de Groot um að hafa stolið hugmyndinni að þeirri sögu frá sér.
- Í sögunni Règlement de comptes er söngkonan Lára Leggjafagra í aðalhlutverki, en hún hafði birst áður í bókinni Stórfurstinn.
Íslensk útgáfa
[breyta | breyta frumkóða]Tvær af sögunum í bókinni, þ.e. La bonne parole og Li-Chi's story, birtust í íslenskri þýðingu í bókinni Á léttum fótum. Spes tilboð sem Fjölvi gaf út árið 1982. Aðrar sögur í bókinni hafa ekki komið út í íslenskri þýðingu.