Flótti Daldóna
Flótti Daldóna (franska: L´Évasion des Dalton) eftir Maurice de Bevere (Morris) og René Goscinny er 15. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1960, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) á árunum 1958-59. Bókin hefur ekki komið út á íslensku.
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Hinum alræmdu Daldónum tekst að flýja úr fangelsi með því að yfirbuga fangavörð og Lukku Láki hefur eftirför. Daldónarnir taka fljótt upp sína eftirlætisiðju, þ.e. að ræna banka, og finna sér felustað í afskekktum kofa. Þeim dettur það snjallræði í hug að dreifa plakötum þar sem lýst er eftir Lukku Láka fyrir ýmis afbrot og brátt standa allir í þeirri trú að Láki sé stórhættulegur óbótamaður. Til lokauppgjörs kemur milli Lukku Láka og Jobba Daltón þar sem það verður Jobba að falli að hafa sett smurolíu í byssuslíður sitt til að vera fljótari að draga, en þegar til kastanna kemur skreppur flughál byssan úr hendi hans. Lukku Láki hefur betur og kemur Daldónunum fjórum í hendur riddaraliðsins.
Fróðleiksmolar
[breyta | breyta frumkóða]- Eftir hina "alvarlegu" Allt í sóma í Oklahóma kemur lauflétt saga þar sem Daldónarnir eru í aðalhlutverki í annað skipti í bókaflokknum - fyrsta skiptið var Daldónar, ógn og skelfing Vestursins sem kom út tveimur árum fyrr. Þema bókarinnar - leit Lukku Láka að Daldónunum eftir flótta þeirra úr fangelsi - átti eftir að endurtaka sig í mörgum seinni bókum í bókaflokknum.
- Í byrjun bókarinnar ræða Daldónarnir í fangaklefanum um móður sína. Hún átti síðar eftir að verða aðalsöguhetja í bókinni Mamma Dagga.