Fara í innihald

Mamma Dagga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa frönsku útgáfu bókarinnar.

Mamma Dagga (franska: Ma Dalton) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 38. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1971, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Pilote sama ár.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Móðir Daldónana, Mamma Dagga, býr skammt frá bænum Kaktusgili (e. Cactus Junction) og er vel liðin af bæjarbúum. Þegar Lukku Láki hjálpar þeirri gömlu yfir götu skrifar hún sonum sínum bréf í fangelsið og biður þá að taka sér Láka til fyrirmyndar. Jobbi Daldón er ekki á þeim buxunum og bræðrunum tekst að flýja úr fangelsinu með því að kveikja í rúmdýnum sínum og forða sér í burtu í öngþveitinu sem skapast. Þeir heimsækja móður sína sem skýtur yfir þá skjólshúsi og felur fyrir Lukku Láka. Ibbi er í miklu uppáhaldi hjá Mömmu Döggu sem fer óstjórnlega í taugarnar á hinum bræðrunum. Til að ganga í augun á Mömmu Döggu dulbúast þeir sem hún og ræna bankann í Kaktusgili og síðan fleiri banka í nágrannabæjunum. Skelfing breiðist út í héraðinu og lögreglan veit ekki sitt rjúkandi ráð. Lukku Láki fær þá hugmynd að leggja gildru fyrir Daldónana og efnir til mikillar mæðrahátíðar í Kaktusgili. Vibbi, Kobbi og Ibbi ganga í gildruna, en þar sem Jobbi var skilinn eftir útundan sleppur hann. Jobbi lofar Mömmu Döggu að frelsa bræður sína úr prísundinni, en gegn því skilyrði að hann megi kála Lukku Láka í leiðinni.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Mamma Dagga er önnur bókin í bókaflokknum þar sem kona er í aðalhlutverki, en fyrri bókin var Svala sjana. Kynnt er til sögunnar móðir Daldón bræðranna sem áður hafði borið á góma í bókinni Flótti Daldóna. Hún átti einnig eftir að koma við sögu í síðari bókum í bókaflokknum, þ.e. í bókunum L'Amnésie des Dalton og Belle Star.
  • Persóna Mömmu Döggu kann að vera innblásin af hinni raunverulegu Ma Barker (1873-1935). Ma Barker var ásamt tveimur sonum sínum meðlimur í glæpagengi sem fór um með bankaránum á kreppuárunum í Bandaríkjunum. Hún var skotin til bana ásamt öðrum syninum í umsátri lögreglu árið 1935.
  • Í eftirmála bókarinnar er fjallað stuttlega um harðskeyttar konur í Villta Vestrinu. Myndin sem fylgir er af bindindisfrömuðinum Carrie Nation (1846-1911) sem hét fullu nafni Carrie Amelia Moore Nation. Hún barðist fyrir áfengisbanni í Bandaríkjunum í kringum aldamótin 1900 og átti það m.a. til að ráðast á krár og aðra sölustaði áfengis með exi.
  • Í bókinni er upplýst um örlög föður Daldónanna; hann sprengdi sig óviljandi í loft upp með dýnamíti á heimili fjölskyldunnar. Þá kemur í ljós að Vibbi er eini Daldón bróðirinn sem kann að lesa.
  • Bókin er tileinkuð mæðrum höfundanna og kisum þeirra.

Íslensk útgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Mamma Dagga var gefin út af Fjölva árið 1978 í íslenskri þýðingu Lofts Guðmundssonar. Þetta er 10. bókin í íslensku ritröðinni.