Apasagjáin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa ensku útgáfu bókarinnar.

Apasagjáin (franska: Canyon Apache) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 37. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1971, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Pilote sama ár.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Ljósmynd frá 1887 af Apasahöfðingjanum Geronimo (1829-1909).

Lukku Láki er sendur af indíánaverndarráðinu til Gjávirkis (Fort Canyon) á slóðum Apasa-indíána til að rannsaka hvers vegna ekki hefur tekist að semja frið við Kímíkúra-apasa og höfðingja þeirra, Patrónímó. Í ljós kemur að stjórnandi riddaraliðsins í Gjávirki, Ó´Nólan ofursti, fyrirlítur Apasana þar sem syni hans var rænt af Apösum á unga aldri og ekkert spurst til hans síðan. Lukku Láki fer til fundar við Apasana í því skyni að reyna að koma á friði og grafast fyrir um örlög sonar ofurstans. Lukku Láki nær að vinna traust Patrónímos og fær inngöngu í ættflokkinn eftir að hafa staðist karlmennskuþrekraunir Apasana, en töfralæknir ættflokksins tortryggir hann eftir sem áður. Eftir að Lukku Láki spillir fyrir umsátri indíánanna við Apasagjána álíta þeir Láka svikara og skilja hann eftir bundinn við jörðina, ofurseldan þeim örlögum að verða illvígum maurum að bráð. Ungur indíánapiltur, Kojotító, sem Lukku Láki hafði vingast við, kemur honum til bjargar og Lukku Láki heldur í flýti til Gjávirkis sem indíánarnir hafa umkringt. Riddaraliðið á við ofurefli að etja og þegar Ó´Nólan ofursti ríður einn gegn indíánunum eru hann og Lukku Láki teknir höndum og fluttir til búða indíánanna handan landamæranna í Mexíkó. Þeir eru bundnir við kvalastaurinn þar sem á að brenna þá til dauða, en á síðustu stundu grípa örlögin í taumana.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Apasagjáin verður að teljast ein af "alvarlegustu" sögunum í bókaflokknum um Lukku Láka. Hún fjallar um átök indíána og hvítra manna og hatur þeirra (Ó´Nólans ofursta og indíánahöfðingjans Patrónímós) á hvor öðrum af meiri dýpt en gert er í fyrri bókum í seríunni. Líklegt er að Morris og Goscinny hafi við gerð bókarinnar verið undir áhrifum frá kvikmyndinni Little Big Man með Dustin Hoffman frá árinu 1970, en myndin þótti taka málstað indíána í deilum þeirra við hvíta menn og draga upp raunsannari mynd af framferði bandaríska hersins í átökunum en áður hafði verið gert.
  • Eins og við á um eldri indíánabókina 20. riddaraliðssveitina er söguþráður Apasagjárinnar að hluta til byggður á vestrakvikmyndum John´s Ford frá 5. og 6. áratugnum, en hliðstæður má einkum finna í kvikmyndunum Fort Apache frá 1948, Rio Grande frá 1950 og jafnvel The Searchers frá 1956.
  • Öftustu rammar bókarinnar sýna Bandaríki nútímans og má sjá bæði bifreið og myndavél. Þetta er einsdæmi í öllum Lukku Láka bókum Morris og Goscinny.
  • Í eftirmála íslensku útgáfunnar er fjallað um átök hvítra landnema og indíána. Myndin sem fylgir (Árásin á vagnalestina) er eftir bandaríska listmálarann Frederick Remington, en síðar var heil bók í bókaflokknum, L'Artiste peintre, helguð honum.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Apasagjáin var gefin út af Fjölva árið 1978 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er níunda bókin í íslensku ritröðinni.