Fara í innihald

Írska lýðveldið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Lýðveldið Írland)
Írland
Éire (írska)
Ireland (enska)
Fáni Írlands Skjaldarmerki Írlands
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Éire go deo
(Írland að eilífu)
Þjóðsöngur:
Amhrán na bhFiann
Staðsetning Írlands
Höfuðborg Dublin
Opinbert tungumál írska, enska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Michael D. Higgins
Forsætisráðherra Simon Harris
Sjálfstæði
 • frá Bretlandi 6. desember 1921 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
118. sæti
70.273 km²
2
Mannfjöldi
 • Samtals (2019)
 • Þéttleiki byggðar
122. sæti
4.921.500
70/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 412,797 millj. dala (46. sæti)
 • Á mann 83.399 dalir (5. sæti)
VÞL (2018) 0.942 (3. sæti)
Gjaldmiðill Evra
Tímabelti UTC+0 (UTC+1 á sumrin)
Ekið er vinstri megin
Þjóðarlén .ie
Landsnúmer +353

Írland eða Írska lýðveldið (enska: Ireland; írska: Éire) er ríki sem nær yfir 5/6 hluta eyjunnar Írlands vestur af strönd Evrópu. Norðvesturhluti eyjarinnar tilheyrir Norður-Írlandi sem er hluti af Bretlandi. Írland á því aðeins landamæri að Bretlandi en Írlandshaf skilur á milli eyjarinnar og Stóra-Bretlands. Höfuðborg Írlands er Dublin við austurströnd eyjarinnar.

Árið 1922, í kjölfar írska sjálfstæðisstríðsins sem stóð frá 1919 til 1921, var Írska fríríkið stofnað. Þing Norður-Írlands, þar sem mótmælendur voru í meirihluta, nýtti sér þá möguleika til að segja sig úr hinu nýja ríki og varð sérstök eining innan breska konungsdæmisins. Írska fríríkið var í fyrstu hluti af Breska samveldinu en árið 1949 voru skyldur konungs afnumdar í írskum lögum og landið varð lýðveldi.

Írska lýðveldið var lengi vel eitt af fátækustu ríkjum Evrópu. Landið gekk í Evrópusambandið árið 1973. Seint á 9. áratug 20. aldar hófust efnahagslegar umbætur í anda frjálshyggju sem leiddu til ört vaxandi hagsældar. Írland var um tíma í upphafi 21. aldar þekkt sem „keltneski tígurinn“. Í upphafi ársins 2008 hófst alþjóðlega fjármálakreppan sem kom mjög harkalega niður á Írlandi. Þrátt fyrir kreppuna er Írland enn með best stæðu löndum heims.

Írland er þróað land og lífsgæði þar eru með þeim bestu í heimi. Landið situr líka hátt á listum yfir gæði heilbrigðisþjónustu, viðskiptafrelsi og fjölmiðlafrelsi.[1][2] Írland á aðild að Evrópusambandinu og er stofnaðili Evrópuráðsins og OECD. Landið hefur haft hlutleysisstefnu síðan fyrir síðari heimsstyrjöld og er því ekki aðili að NATO,[3] en tekur samt þátt í ýmsum samstarfsverkefnum þess eins og Partnership for Peace.

Ríkið sem stofnað var 1922 og myndað úr 26 af 32 sýslum Írlands var þekkt sem „Írska fríríkið“.[4] Í stjórnarskrá Írlands sem tekin var upp árið 1937 stendur að nafn ríkisins sé Éire, eða Ireland á ensku. Í 2. kafla laga um lýðveldið Írland frá 1948 stendur að „lýðveldið Írland“ sé lýsing á ríkinu en ekki nafn þess. Annað hefði verið í andstöðu við stjórnarskrána.[5]

Ríkisstjórn Bretlands notaði upphaflega nafnið „Eire“ (án kommu) og frá 1949 „lýðveldið Írland“ þegar talað var um ríkið.[6] Það var ekki fyrr en með Föstudagssáttmálanum 1998 að breska ríkisstjórnin notaði nafnið „Írland“.[7]

Auk heitanna „Írland“, „Éire“ og „lýðveldið Írland“ (eða „Írska lýðveldið“) hefur ríkið líka verið kallað „Lýðveldið“, „Suður-Írland“ eða „Suðrið“.[8] Írskir lýðveldissinnar tala stundum um það sem „Fríríkið“ eða „sýslurnar 26“.[9]

Barátta fyrir heimastjórn

[breyta | breyta frumkóða]

Saga lýðveldisins Írlands er aðeins lítill hluti af sögu Írlands í heild, sem nær aftur um 33.000 ár.[10] Frá gildistöku bresku sambandslaganna 1. janúar 1801 varð Írland hluti af Sameinuðu konungsríki Bretlands og Írlands. Þegar hallærið mikla gekk yfir Írland 1845 til 1852 hrundi íbúafjöldi eyjunnar, sem var fyrir um 8 milljónir, um þriðjung. Um ein milljón lést úr hungri eða sjúkdómum og 1,5 milljón flutti úr landi, flestir til Bandaríkjanna.[11] Brottflutningur hélt áfram næstu hundrað árin og leiddi til hnignandi fólksfjölda fram á 7. áratug 20. aldar.[12][13][14]

Írski þingræðisflokkurinn var stofnaður af Charles Stewart Parnell (1846–1891) árið 1882.

Frá 1874, og sérstaklega eftir að Charles Stewart Parnell tók við 1880, varð Írski þingræðisflokkurinn áberandi í írskum stjórnmálum. Írska jarðabandalagið barðist fyrir og náði fram jarðaumbótum fyrir leiguliða þegar Írsku jarðalögin voru samþykkt frá 1870. Flokkurinn beitti sér fyrir heimastjórn á Írlandi með tveimur lagafrumvörpum sem hefðu gefið Írlandi takmarkað fullveldi ef þau hefðu verið samþykkt. Baráttan leiddi samt til grasrótarstjórnmála á Írlandi gegnum sveitarstjórnir, en áður voru völdin í höndunum á dómstólum þar sem landeigendur höfðu tögl og hagldir.

Sambandssinnar á Írlandi óttuðust missi forréttinda ef kaþólskir Írar kæmust til valda í heimastjórn. Þegar bresku þingskaparlögin 1911 afnámu neitunarvald lávarðadeildarinnar og John Redmond hafði tryggt heimastjórnarlögunum fylgi á breska þinginu, leit út fyrir að heimastjórn yrði að veruleika. Sambandssinnar í Ulster mynduðu þá Ulster-sjálfboðaliðana undir stjórn James Craig til að hindra „þvingun Ulster“.[15] Þegar heimastjórnarlögin voru samþykkt 1914 lagði forsætisráðherra Bretlands, H. H. Asquith, því fram breytingalög sem frestuðu gildistöku laganna í Ulster í sex ár. Þingmenn Írlands féllust treglega á þessa niðurstöðu.

Sjálfstæðisbarátta

[breyta | breyta frumkóða]
Páskadagsyfirlýsingin, 1916.

Heimastjórnarlögin 1914 hlutu samþykki konungs og voru færð til bókar, en gildistöku þeirra var frestað vegna fyrri heimsstyrjaldar sem dró úr hættu á borgarastyrjöld á Írlandi. Redmond og Þjóðarsjálfboðaliðarnir studdu Bretland í átökunum í von um að lögin tækju gildi eftir að styrjöldinni lyki. Um 175.000 Írar gengu í 10. og 16. herdeild hers Kitcheners, meðan sambandssinnar í Ulster gengu í 36. herdeild.[16]

Írsku sjálfboðaliðarnir voru á móti Redmond og höfnuðu öllum stuðningi við Breta. Þeir hófu vopnaða uppreisn gegn breskum yfirráðum með Páskauppreisninni árið 1916. Uppreisnin hófst með yfirlýsingu um stofnun lýðveldis á Írlandi þann 24. apríl. Eftir vikulanga bardaga, aðallega í Dublin, gáfust uppreisnarmenn upp. Flestir þeirra voru fangelsaðir og 15 þeirra, þar á meðal leiðtogarnir, voru teknir af lífi fyrir landráð gegn Bretlandi. Meðal þeirra voru Patrick Pearse, talsmaður uppreisnarmanna, og sósíalistinn og verkalýðsleiðtoginn James Connolly. Ásamt herkvaðningarkreppunni 1918 áttu þessir atburðir mikinn þátt í að snúa almenningsálitinu á Írlandi gegn breskum stjórnvöldum.[17]

Í írsku þingkosningunum 1918 voru 73 af 105 þingmönnum Íra á breska þinginu, kosnir úr röðum Sinn Féin. Þeir sátu hjá í öllum málum á breska þinginu. Í janúar 1919 stofnuðu þeir írskt þing, Dáil Éireann. Þetta þing samþykkti sjálfstæðisyfirlýsingu þar sem lýst var yfir stofnun Írska lýðveldisins líkt og í Páskadagsyfirlýsingunni, en með þeirri viðbót að Írland væri ekki lengur hluti af Bretlandi. Ráðuneyti írska þingsins sendi sendinefnd undir forystu Seán T. O'Kelly á Friðarráðstefnuna í París 1919, en var neitað um aðgang.

Árið 1922 var stofnað nýtt þing, Oireachtas Írska fríríkisins, en Dáil Éireann varð neðri deild þess.

Sjálfstæðisstríð Írlands hófst í janúar 1919 og átök milli írska lýðveldishersins og breska hersins, lögreglu og stuðningsmanna þeirra. Í júlí 1921 var samið um vopnahlé og fulltrúar hvors aðila um sig gerðu samning Írlands og Englands í London milli 11. október og 6. desember. Írsku fulltrúarnir komu sér fyrir í Hans Place í Knightsbridge þar sem ákveðið var að mæla með samningnum við Dáil Éireann. Þingið samþykkti samninginn 7. janúar 1922 með 64 atkvæðum gegn 57.[18]

Samkvæmt samningnum varð allt Írland að sjálfsstjórnarsvæði sem nefndist Írska fríríkið (Saorstát Éireann). Samkvæmt stjórnarskrá Írska fríríkisins fékk þing Norður-Írlands þann kost að segja sig frá fríríkinu og verða aftur hluti af Bretlandi einum mánuði seinna. Í millitíðinni náðu yfirráð fríríkisins ekki til Norður-Írlands. Norður-Írland nýtti sér þennan rétt og varð aftur hluti af Bretlandi 8. desember 1922 með áskorun til konungs um að yfirráð þings Írska fríríkisins næðu ekki til Norður-Írlands.[19] Írska fríríkið var í konungssambandi við Bretland og önnur sjálfstjórnarríki innan breska samveldisins. Fulltrúi konungs var landstjóri Írska fríríkisins.

Borgarastyrjöldin

[breyta | breyta frumkóða]
Éamon de Valera (1882–1975).

Írska borgarastyrjöldin sem stóð frá 1922 til 1923 var bein afleiðing af samningnum um stofnun Írska fríríkisins.[20] Andstæðingar samningsins, með Éamon de Valera í fararbroddi, mótmæltu því að með samningnum var Írska lýðveldið frá 1919 lagt niður, en þeir höfðu svarið því hollustueiða. Almenningur studdi samninginn, en þeir svöruðu með því að fólk hefði engan rétt til að breyta rangt.[21] Helsti ásteytingarsteinninn var að Írska fríríkið var áfram hluti af breska heimsveldinu og eiðurinn sem þingmenn á írska þinginu áttu að sverja jafngilti hollustueið við konung Bretlands. Samningssinnar, undir forystu Michael Collins, færðu rök fyrir því að samningurinn gæfi Írum færi á að öðlast fullt sjálfstæði.[22]

Í upphafi borgarastyrjaldarinnar klofnaði írski lýðveldisherinn í samningssinna og andstæðinga samningsins. Samningssinnar voru leystir upp og urðu hluti af írska hernum. Andstæðinga samningsins skorti yfirstjórn, svo Michael Collins náði að byggja upp her með tugum þúsunda uppgjafarhermanna úr fyrri heimsstyrjöld sem áttu auðvelt með að yfirbuga andstæðinginn. Samningssinnar fengu líka hergögn og skotfæri frá breska hernum. Almenningsálitið var auk þess fylgjandi samningssinnum. Um vorið 1923 var geta lýðveldissinna til að berjast nánast engin, og hófsamari leiðtogar þeirra, eins og Frank Aiken, skoruðu á menn sína að leggja niður vopn.

Stjórnarskráin 1937

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í júlí 1937 tók ný stjórnarskrá Írlands gildi 29. desember sama ár.[23] Með nýju stjórnarskránni varð nafn ríkisins Éire eða „Ireland“ á ensku.[24][25][26][27] Greinar 2 og 3 miðuðu land ríkisins auk þess við við alla eyjuna, en takmörkuðu lögsögu þess við það land sem hafði tilheyrt Írska fríríkinu. Áður hafði stjórn fríríkisins afnumið embætti landstjóra Írlands í desember 1936. Með stjórnarskránni var búið til embætti forseta Írlands, en spurningunni um það hvort Írland væri lýðveldi var ekki svarað beint. Sendiherrar voru skipaðir af konungi en forsetinn fór annars með hlutverk þjóðhöfðingja.[28] Forsetinn veitti til dæmis nýjum lögum samþykki sitt án þess að vísa til Georgs 6.

Í síðari heimsstyrjöld var Írland hlutlaust, á tímabili sem er kallað Neyðartímabilið af því þá giltu neyðarlög í landinu.[29] Með lögum um Írska lýðveldið sem tóku gildi 18. apríl 1949 var staða landsins sem sjálfstjórnarríkis felld niður og landið lýst sjálfstætt lýðveldi.[30] Á þeim tíma jafngilti stofnun lýðveldis úrsögn úr breska samveldinu, en þeirri reglu var breytt 10 dögum eftir gildistöku laganna með Lundúnayfirlýsingunni 28. apríl 1949. Írland sótti hins vegar ekki um aðild að samveldinu á ný. Nokkrum árum síðar voru lög um konungsríkið Írland 1542 felld úr gildi.[31]

Írland gekk í Evrópubandalagið árið 1973, ásamt Bretlandi og Danmörku. Landið samþykkti Lissabonsáttmálann árið 2007.

Írland gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1955, eftir að hafa áður verið neitað um aðild vegna hlutleysisstefnunnar í stríðinu.[32] Á þeim tíma fól aðildin í sér að taka til vopna gegn öðru ríki ef Sameinuðu þjóðirnar töldu það nauðsynlegt.[33]

Á 6. áratugnum jókst áhugi á aðild að Evrópusamvinnunni og stjórnin íhugaði aðild að Fríverslunarsamningi Evrópu. Þar sem Bretland hugðist gerast aðili, sótti Írland um aðild í júlí 1961 vegna hinna miklu viðskiptatengsla landsins við Bretland. Önnur aðildarríki voru hins vegar efins um aðild Írlands vegna takmarkaðs efnahagslegs styrks, hlutleysisstefnunnar og verndarstefnu í efnahagsmálum.[34] Margir írskir hagfræðingar og stjórnmálamenn hófu því baráttu fyrir efnahagsumbótum. Árið 1963 lýsti Frakklandsforseti, Charles de Gaulle, því yfir að Frakkland myndi ekki styðja aðild Bretlands að bandalaginu, sem olli því að samningaviðræður féllu niður. Eftirmaður hans, Georges Pompidou, var á öðru máli, svo viðræðurnar hófust á ný árið 1969 og aðildarsamningur var undirritaður árið 1972. Seinna sama ár var stjórnarskrá Írlands breytt með þjóðaratkvæðagreiðslu, sem staðfesti inngöngu landsins í Evrópusamstarfið 1. janúar 1973.[35]

Seint á 8. áratugnum gekk landið í gegnum efnahagskreppu vegna fjárlaga ríkisstjórnar Fianna Fáil, afnámi bílaskatta, óhóflegrar skuldasöfnunar og óstöðugleika á heimsmörkuðum, þar á meðal olíukreppunnar 1979.[36] Frá 1989 var lagt í umtalsverða stefnubreytingu með efnahagsumbótum, skattalækkunum, umbótum í velferðarkerfinu, aukningu samkeppni og banni við lánum til að fjármagna útgjöld ríkisins. Stefnubreytingin hófst í tíð ríkisstjórna Fianna Fáil og Verkamannaflokksins, og Fianna Fáil og Framsækinna demókrata. Írland varð eitt af mestu hagvaxtarríkjum heims undir lok 10. áratugarins og var kallað „keltneski tígurinn“. Þetta mikla vaxtarskeið stóð fram að alþjóðlegu fjármálakreppunni 2007 til 2009. Frá 2014 hefur efnahagur landsins endurheimt mikið af fyrri styrk.[37]

Moher-klettar á Atlantshafsströnd Írlands.

Ríkisstjórnir Bretlands og Írlands hafa leitast við að finna friðsamlega lausn á deilum um stöðu Norður-Írlands og átökunum þar. Árið 1998 var Föstudagssamkomulagið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslum báðum megin við landamærin. Í framhaldinu var landakrafa Írska lýðveldisins í 2. og 3. grein stjórnarskrárinnar felld niður. Í hvítbók sem gerð var um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu var lögð áhersla á að friðarsamkomulagið stæði af hálfu Breta. Þar stóð að breska ríkisstjórnin styddi núverandi stöðu Norður-Írlands, að það væri hluti af Bretlandi en með sterk tengsl við Írland.[38]

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Írska lýðveldið nær yfir um 5/6 hluta eyjunnar Írlands, en Norður-Írland (hluti Bretlands) nær yfir afganginn. Í norðri og vestri á eyjan strönd að Norður-Atlantshafi, í norðaustri að Úlfreksfirði, í austri að Írlandshafi, í suðaustri að Norðursundi og í suðri að Keltahafi.

Vesturhéruð landsins eru fjalllend, klettótt og hæðótt. Miðláglöndin eru þakin jökulseti úr leir og sandi. Þar eru líka stór mýrlendi og stöðuvötn. Hæsti tindur Írlands er Carrauntoohil í fjallgarðinum MacGillycuddy's Reeks í suðvestri. Fljótið Shannon rennur um láglöndin og er lengsta á Írlands, 386 km að lengd.

Skógþekja á Írlandi hefur minnkað mikið vegna landbúnaðar. Innlendar trjátegundir eru eik, askur, hesliviður, birki, elri, víðir, ösp, álmur, reyniviður, ýviður og skógarfura. Vöxtur þekjumýra og ruðning skóga vegna landbúnaðar hafa valdið skógeyðingu. Nú eru aðeins um 10% landsins þakin skógi, mest nytjaskógi með barrtrjám. Talið er að innlendur skógur sé aðeins um 2%.

Um 64% landsins er landbúnaðarland. Vegna þess er lítið eftir af víðerni fyrir villt dýralíf, sérstaklega stærri spendýr. Löng saga landbúnaðar og nútímaræktunaraðferðir eins og notkun skordýraeiturs og tilbúins áburðar hefur dregið úr líffjölbreytni.

Atlantshafið og Golfstraumurinn hafa mikil áhrif á veðurfar á Írlandi þar sem ríkir temprað úthafsloftslag. Hiti fer sjaldan niður fyrir -5°C eða upp fyrir 26°C. Lægsti hiti sem mælst hefur var -19,1° í Markree-kastala í Sligo, og hæsti hitinn var 33,3° í Kilkenny-kastala árið 1887.

Úrkoma er meiri yfir vetrarmánuðina. Mest úrkoma er í suðvesturhéruðunum vegna ríkjandi suðvestanvinda, en minnst í Dublin. Suðausturhéruðin eru sólríkust. Norðvesturhéruðin eru með vindasömustu svæðum Evrópu og hafa mikla möguleika til vindorkuframleiðslu. Sólarstundir á Írlandi eru venjulega milli 1100 og 1600 á ári, eða milli 3,25 og 3,75 á dag á flestum stöðum. Maí og júní eru sólríkustu mánuðirnir með milli 5 og 6,5 sólarstundir á dag.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Írland er lýðveldi með þingræðisstjórn. Írska þingið (Oireachtas) skiptist í fulltrúadeild (Dáil Éireann) og öldungadeild (Seanad Éireann). Opinber bústaður forseta Írlands er Áras an Uachtaráin, en þingið kemur saman í Leinster House í Dublin.

Forseti Írlands er þjóðhöfðingi landsins. Hann er kjörinn til sjö ára í senn og má bjóða sig fram tvisvar. Völd forseta eru aðallega táknræn, en hann fer með tiltekin völd samkvæmt stjórnarskránni, að ráði ríkisstjórnarinnar. Forsetaembættið fer þó með sjálfstætt ákvörðunarvald í tilteknum málum, eins og að skjóta lögum til hæstaréttar til að dæma um hvort þau samræmist stjórnarskránni.[39] Michael D. Higgins varð níundi forseti Írlands 11. nóvember 2011.[40]

Taoiseach (forsætisráðherra) er stjórnarleiðtogi og er skipaður af forseta samkvæmt tilnefningu fulltrúadeildarinnar. Flestir Taoiseach hafa verið leiðtogar þess stjórnmálaflokks sem fær flest þingsæti í kosningum. Á Írlandi er hefð fyrir samsteypustjórnum þar sem enginn einn flokkur hefur hlotið meirihluta frá 1989.[41]

Í fulltrúadeildinni, Dáil, sitja 160 þingmenn (Teachta Dála) kjörnir fyrir kjördæmi samkvæmt hlutfallskosningu með forgangsröðunaraðferðinni. Í öldungadeildinni, Seanad, sitja 60 þingmenn. Þar af eru 11 skipaðir af Taoiseach, sex kjörnir af tveimur háskólakjördæmum og 43 kosnir af fulltrúum almennings.

Ríkisstjórn Írlands getur ekki haft fleiri en 15 ráðherra samkvæmt stjórnarskrá. Í mesta lagi tveir þeirra geta komið frá öldungadeildinni, og Taoiseach, Tánaiste (aðstoðarforsætisráðherra) og fjármálaráðherra Írlands verða að koma frá fulltrúadeildinni. Dáil verður að leysa upp innan fimm ára frá fyrsta fundi þess í kjölfar kosninga og almenn kosning til fulltrúaþings verður að eiga sér stað innan 30 daga frá upplausn þess. Samkvæmt stjórnarskrá Írlands verður að halda þingkosningar á minnst sjö ára fresti og hægt er að lækka þau mörk með lögum. Núverandi ríkisstjórn er samsteypustjórn flokkanna Fianna Fáil, Fine Gael og Græningja. Simon Harris úr Fine Gael er Taoiseach og Micheál Martin úr Fianna Fáil er Tánaiste. Stjórnarandstöðuflokkar sem nú sitja á þingi eru Sinn Féin, Írski verkamannaflokkurinn, People Before Profit–Solidarity, Sósíaldemókratar, Aontú, auk nokkurra óháðra þingmanna.

Írland hefur verið aðili að Evrópusambandinu frá 1973. Breskir ríkisborgarar mega ferðast til landsins án vegabréfs vegna samninga um sameiginlega ferðasvæðið (CTA) sem nær yfir Bretlandseyjar, en persónuskilríkja er þó krafist á flugvöllum og í ferjuhöfnum.

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Írska lýðveldið skiptist frá alda öðli í 26 sýslur sem fólk notar almennt til að vísa til landshluta. Tipperary-sýslu var skipt í Suður-Tipperary og Norður-Tipperary árið 1898 og Dublin-sýslu var skipt í Dún Laoghaire–Rathdown, Fingal og Suður-Dublin árið 1994. Frá 2014 skiptist landið í 26 sveitasýslur, tvær borgar-sveitasýslur og þrjár borgarsýslur.

Í Írska lýðveldinu er neðra stjórnsýslustigið fimm hverfaráð og 75 bæjarráð.

Efnahagslíf

[breyta | breyta frumkóða]

Írland býr við opið hagkerfi (3. sæti vísitölu um viðskiptafrelsi) og er í efsta sæti yfir lönd eftir verðmætri beinni erlendri fjárfestingu.[42] Írland er í 5. sæti af 187 (AGS) og 6. af 175 (Heimsbankinn) á lista yfir lönd eftir vergri landsframleiðslu á mann og er á topp 10 listanum yfir lönd eftir vergum þjóðartekjum. Hagstofa Írlands hefur búið til hliðarmælingu á þjóðartekjum þar sem starfsemi erlendra stórfyrirtækja er dregin frá til að gefa betri mynd af innanlandshagkerfinu.[43][44] Bandarísk fjölþjóðafyrirtæki hafa verið helsti drifkrafturinn í efnahagslífi Írlands síðasta áratug. Þau standa undir fjórðungi starfa í einkageiranum,[45] og greiða 80% af viðskiptasköttum landsins.[46][47][48] 14 af 20 stærstu fyrirtækjum Írlands (miðað við veltu árið 2017) eru bandarísk fjölþjóðafyrirtæki[49] og 80% af erlendum fjölþjóðafyrirtækjum á Írlandi eru bandarísk.[50][51] [49]

Hlutfallsleg skipting útflutnings frá Írlandi árið 2019.

Írland tók upp evruna árið 2002 ásamt ellefu öðrum Evrópusambandsríkjum.[52] Í janúar árið 2023 náði evrusvæðið til 20 landa eftir að Króatía tók gjaldmiðilinn upp 1. janúar 2023.[53]

Eftir fjármálakreppuna miklu og hrun írsku eignabólunnar náði landið að komast út úr niðursveiflu árið 2010 eftir vöxt í útflutningi bandarískra stórfyrirtækja frá Írlandi.[54] Vegna aukins kostnaðar við opinbera lántöku vegna ábyrgða írska ríkisins á skuldum einkarekinna banka, samþykkti stjórn Írlands 85 milljarða evra björgunarpakka frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og tvíhliða lánasamninga við Bretland, Svíþjóð og Danmörku.[55] Eftir þriggja ára samdrátt varð hagvöxtur upp á 0,7% árið 2011 og 0,9% árið 2012.[56] Atvinnuleysi var 14,7% árið 2012, en 18,5% hjá nýlega aðfluttum.[57] Í mars 2016 gaf Hagstofa Írlands út að atvinnuleysið væri 8,6%, en hafði náð hápunktinum 15,1% í febrúar 2012.[58] Auk atvinnuleysis varð nettóbrottflutningur fólks frá Írlandi 120.100 milli 2008 og 2013,[59] eða 2,6% af heildarmannfjölda samkvæmt manntalinu 2011. Þriðjungur þeirra sem fluttu burt voru á aldrinum milli 15 og 24 ára.[59] Í nóvember 2022 hafði atvinnuleysið aftur minnkað niður í 4,4%.[60]

Írland losnaði við björgunarpakka Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þann 15. desember 2013.[61] Eftir niðurskurð, fjármálaumbætur og eignasölu fékk landið aftur aðgang að lánamörkuðum. Síðan þá hefur Írland getað selt langtímaskuldabréf á hagstæðu gengi.[62] Til að vinda ofan af írsku lánakreppunni þurfti að flytja stórar skuldir af efnahagsreikningi einkageirans til opinbera geirans (sem var nær skuldlaus) með björgun írskra banka og opinberum útgjöldum umfram tekjur.[63][64] Við þessa yfirfærslu skulda varð Írland árið 2017 eitt af þeim löndum innan Evrópusambandsins og OECD sem var skuldsettast bæði hjá opinbera geiranum og einkageiranum.[65][66][67][68][69][70]

Írland varð eitt af helstu löndum sem bandarísk lyfjafyrirtæki notuðu fyrir skattavíxlun frá 2009 til 2016[71][72] og hefur líka orðið eitt helsta gistiríki bandarískra tæknirisa eins og Apple, Google, Microsoft og Facebook.

Íbúaþróun á Írlandi frá 1951.

Erfðafræðilegar rannsóknir benda til þess að fyrstu íbúar Írlands hafi flust þangað frá Íberíuskaga eftir síðustu ísöld.[73] Eftir bronsöld barst keltnesk menning og mál til Írlands.[74][75] Gelísk menning varð ríkjandi með tímanum. Uppruni Íra er blanda af gelískum, norðurgermönskum, normönnskum, frönskum og breskum uppruna.

Íbúafjöldi Írlands var tæplega 4,8 milljónir árið 2016, sem var 12,3% aukning frá 2006.[76] Árið 2011 var fæðingartíðni á Írlandi sú hæsta í Evrópusambandinu, með 16 fæðingar á 1000 íbúa.[77] Árið 2014 fæddust 36,3% barna utan hjónabands.[78] Árleg fjölgun íbúa var 2% milli manntalanna 2002 og 2006, sem var rakið til bæði mikillar náttúrulegrar fjölgunar og aðflutnings.[79] Þessi fjölgun minnkaði aðeins milli manntalanna 2006 og 2011 og fór niður í 1,6%. Heildarfrjósemishlutfall árið 2017 var áætlað 1,8 börn á konu, undir jafnvægishlutfallinu 2,1 og töluvert undir methlutfallinu 4,2 frá árinu 1850.[80] Árið 2018 var miðaldur Íra 37,1 ár.[81]

Þegar manntalið 2016 var tekið var fjöldi erlendra íbúa 535.475, sem var 2% fækkun frá manntalinu 2011. Fimm helstu upprunalönd aðfluttra íbúa eru Pólland, Bretland, Litháen, Rúmenía og Lettland. Árið 2016 bættust Brasilía, Spánn, Ítalía og Frakkland á topp 10-listann yfir upprunalönd.[82]


Dublin

Cork

Limerick

Galway
Heiti Fjöldi # Heiti Fjöldi
1 Dublin 1.173.179[83] 11 Kilkenny 26.512
2 Cork 208.669[84] 12 Ennis 25.276
3 Limerick 94.192[85] 13 Carlow 24.272
4 Galway 79.934[86] 14 Tralee 23.691
5 Waterford 53.504[87] 15 Newbridge 22.742
6 Drogheda 40.956[88] 16 Portlaoise 22.050
7 Swords 39.248[89] 17 Balbriggan 21.722
8 Dundalk 39.004[90] 18 Naas 21.393
9 Bray 32.600[91] 19 Athlone 21.349
10 Navan 30.173[92] 20 Mullingar 20.928
Götuleikhús á degi heilags Patreks í Dublin 2012.

Írsk menning snýst meðal annars um írska tungumálið, írskar bókmenntir, írska tónlist, írska myndlist, írska goðafræði og alþýðumenningu, írska matargerð og íþróttir sem tengjast Írlandi og Írum. Megnið af sögu Írlands hefur írsk menning byggst á gelískum hefðum, undir áhrifum frá normönnskum, enskum og skoskum landnemum. Innrás Normanna í Írland á 12. öld og hernám Írlands á 16. og 17. öld með írsku plantekrunum, höfðu mikil áhrif á þróun írskrar menningar. Ulster-plantekran varð til þess að skosk áhrif urðu áberandi á Norður-Írlandi. Síðan þá hefur írsk menning átt margt sameiginlegt með menningu annarra enskumælandi landa, kaþólskra Evrópulanda og keltnesku þjóðanna.

Í dag er oft mikill menningarmunur á milli samfélaga kaþólikka og mótmælenda, og milli förufólks og landseta. Vegna mikilla fólksflutninga frá Írlandi á 19. og 20. öld hefur írsk menning breiðst út um heiminn, og írskar hátíðir, eins og dagur heilags Patreks og hrekkjavaka, orðið að alþjóðlegum hátíðum.[93] Dagur heilags Patreks er þjóðhátíðardagur Írlands, haldinn hátíðlegur á messudegi verndardýrlings Írlands, heilags Patreks, 17. mars. Músasmári er oft borinn á degi heilags Patreks sem er sagður hafa notað hann til að útskýra heilaga þrenningu.

Írland er þekkt fyrir litríkar alþýðuhefðir, eins og írska þjóðlagatónlist, írska dansa. Írskar þjóðsögur snúast oft um þjóðtrúarverur á borð við búálfa, vofur og álagabletti. Írski leikstjórinn lafði Gregory og skáldið W. B. Yeats áttu þátt í að gera írskar þjóðtrúarverur og írskar goðsögur þekktar um allan heim.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Human Development Report 2020“ (PDF). HDRO (Human Development Report Office) United Nations Development Programme. bls. 343. Sótt 29. janúar 2022.
  2. Henry, Mark (2021). In Fact An Optimist's Guide to Ireland at 100. Dublin: Gill Books. ISBN 978-0-7171-9039-3. OCLC 1276861968.
  3. „NATO – Member countries“. NATO. Afrit af uppruna á 24. september 2011. Sótt 29. desember 2014.
  4. Coleman, Marie (2013). The Irish Revolution, 1916–1923. Routledge. bls. 230. ISBN 978-1317801467. Sótt 12. febrúar 2015.
  5. Gallagher, Michael, "The changing constitution", in Gallagher, Michael; Coakley, John, ritstjórar (2010). Politics in the Republic of Ireland. 0415476712. ISBN 978-0415476713. Sótt 12. febrúar 2015.
  6. Oliver, J.D.B., What's in a Name, in Tiley, John, ritstjóri (2004). Studies in the History of Tax Law. Hart Publishing. bls. 181–3. ISBN 1841134732. Sótt 12. febrúar 2015. Athugið að höfundur notar „Éire“ með kommunni.
  7. Oliver (2004), p. 178; Daly (2007), p. 80
  8. Acciano, Reuben (2005). Western Europe. Lonely Planet. bls. 616. ISBN 1740599276. Sótt 12. febrúar 2015.
  9. Smith, M.L.R (2002). Fighting for Ireland?: The Military Strategy of the Irish Republican Movement. Routledge. bls. 2. ISBN 1134713975. Sótt 12. febrúar 2015.
  10. Roseingrave, Louise (18. apríl 2021). „Reindeer bone found in north Cork to alter understanding of Irish human history“. Irish Examiner (enska). Sótt 23. apríl 2021.
  11. Mokyr, Joel (1984). „New Developments in Irish Population History 1700–1850“ (PDF). Irish Economic and Social History. XI: 101–121. hdl:10197/1406. Afrit (PDF) af uppruna á 24. september 2019. Sótt 19. september 2019.
  12. „Population of Ireland 1841–2011“. CSO. Afrit af uppruna á 6. september 2018. Sótt 6. september 2018.
  13. Johnston, Wesley; Abbot, Patrick. „Prelude to the Irish Famine – Demographics“. Wesleyjohnston.com. Afrit af uppruna á 7. júlí 2019. Sótt 6. september 2018.
  14. „Population Change and Historical Perspective“ (PDF). CSO. Afrit (PDF) af uppruna á 17. apríl 2019. Sótt 6. september 2018.
  15. Coogan, Tim Pat (2009). Ireland in the 20th Century. Random House. bls. 127–128. ISBN 9781407097213. Afrit af uppruna á 5. júlí 2021. Sótt 19. nóvember 2020.
  16. „Irish Soldiers in the First World War“. 1916 Commemorations. Department of the Taoiseach. 2010. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. ágúst 2011. Sótt 29. ágúst 2011.
  17. Hennessy, Dave. „The Hay Plan & Conscription in Ireland During WW1“. Waterford County Museum. Afrit af uppruna á 25. desember 2018. Sótt 6. september 2018.
  18. „Dáil Éireann debates, 7 January 1922: Debate on Treaty“. Oireachtas. Afrit af uppruna á 28. september 2019. Sótt 28. september 2019.
  19. „Northern Ireland Parliamentary Report, 7 December 1922“. Stormontpapers.ahds.ac.uk. 7. desember 1922. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. apríl 2016. Sótt 9. júlí 2009.
  20. Ward, Brian (25. október 2018). „Literature of the Irish Civil War“. oxfordbibliographies. Oxford University Press. doi:10.1093/OBO/9780199846719-0149. Afrit af uppruna á 27. apríl 2021. Sótt 27. apríl 2021.
  21. Coogan, Tim Pat (1993). „21 de Valera Stands Tall“. De Valera: Long Fellow, Long Shadow. ISBN 9781784975371. Afrit af uppruna á 20. mars 2021. Sótt 19. nóvember 2020.
  22. „Dáil Éireann – Volume T – 19 December, 1921 (Debate on Treaty)“. Dáil Éireann. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. júlí 2011.
  23. „Constitution of Ireland, 1 July, 1937“. Irish Statute Book. Afrit af uppruna á 3. maí 2019. Sótt 6. september 2018.
  24. T. Garvin, 1922: the birth of Irish democracy, Gill & Macmillan: Dublin, 2005.
  25. Cottrell, Peter (2008). The Irish Civil War 1922–23. Osprey Publishing. bls. 85. ISBN 978-1-84603-270-7. „Irish voters approved a new constitution, Bunreacht na hÉireann, in 1937 renaming the country Éire or simply Ireland.“
  26. Whelan, Darius (júní 2005). „Guide to Irish Law“. Afrit af uppruna á 5. september 2009. Sótt 11. september 2009. „This Constitution, which remains in force today, renamed the state Ireland (Article 4) and established four main institutions – the President, the Oireachtas (Parliament), the Government and the Courts.“
  27. John T. Koch, Celtic culture: a historical encyclopedia, ABC-CLIO: Santa Barbara, 2006.
  28. Daly, Mary E. (janúar 2007). „The Irish Free State/Éire/Republic of Ireland/Ireland: "A Country by Any Other Name"?“. Journal of British Studies. 46 (1): 72–90. doi:10.1086/508399. JSTOR 10.1086/508399. „After the enactment of the 1936 External Relations Act and the 1937 Constitution, Ireland's only remaining link with the crown had been the accreditation of diplomats. The president of Ireland was the head of state. When opposition deputies asked de Valera whether Ireland was a republic—a favorite pastime in the mid-1940s—he tended to resort to dictionary definitions showing that Ireland had all the attributes of a republic.“
  29. Girvin, Brian (2007). The Emergency: Neutral Ireland 1939–45. Pan. ISBN 9780330493291.
  30. Whyte, J. H. (2010). „Economic crisis and political cold war, 1949-57“. Í Hill, J. R. (ritstjóri). A New History of Ireland. VII: Ireland, 1921–84. árgangur. Oxford University Press. bls. 277 (footnote 20). ISBN 978-0191615597. Afrit af uppruna á 15. nóvember 2019. Sótt 6. ágúst 2019. „The Republic of Ireland Act, 1948...repealed the external relations act, and provided for the declaration of a republic, which came into force on 18 Apr. 1949, when Ireland left the commonwealth.“
  31. „Statute Law Revision (Pre-Union Irish Statutes) Act, 1962“. Irish Statute Book. Afrit af uppruna á 5. september 2018. Sótt 6. september 2018.
  32. „Ireland at the UN“. The Irish Independent. 22. ágúst 2010. Afrit af uppruna á 16. júlí 2014. Sótt 12. nóvember 2010.
  33. „Ireland's UN affairs“. The Irish Independent. 26. júní 2010. Afrit af uppruna á 16. júlí 2014. Sótt 12. nóvember 2010.
  34. „National Archives – Ireland and European Unity“. Nationalarchives.ie. Afrit af uppruna á 1. janúar 2011. Sótt 12. nóvember 2010.
  35. „Joining the European Community“. European Commission. 31. júlí 1961. Afrit af uppruna á 6. júní 2016. Sótt 12. nóvember 2010.
  36. O'Toole, Francis; Warrington. „Taxations And savings in Ireland“ (PDF). Trinity Economic Papers Series. Trinity College, Dublin. bls. 19. Afrit (PDF) af uppruna á 24. júní 2008. Sótt 17. júní 2008.
  37. „National Income and Expenditure 2017 (Figure 1.1 Growth Rates)“. CSO. Afrit af uppruna á 6. september 2018. Sótt 6. september 2018.
  38. The United Kingdom's exit from and new partnership with the European Union. Cm 9417 (Report). HM Government. febrúar 2017.
  39. „Office of the President – Powers and Functions“. Afrit af uppruna á 7. apríl 2015. Sótt 4. janúar 2011.
  40. „President Michael D promises seven years of new ideas“. Irish Independent. 11. nóvember 2011. Afrit af uppruna á 9. mars 2013. Sótt 11. nóvember 2011.
  41. McGrath, Conor; O'Malley, Eoin (2007). Conor McGrath, Eoin O'Malley (ritstjóri). Irish political studies reader: key contributions. Routledge. bls. 54. ISBN 978-0-415-44648-8. Afrit af uppruna á 5. júlí 2021. Sótt 15. mars 2011.
  42. „Ireland named best country for high-value FDI for sixth year in a row“. The Irish Times. 31. ágúst 2017. Afrit af uppruna á 1. apríl 2019. Sótt 11. apríl 2018.
  43. „Press Statement Macroeconomic Releases Year 2016 and Quarter 1 2017 – CSO – Central Statistics Office“. cso.ie (enska). Afrit af uppruna á 21. ágúst 2018. Sótt 21. ágúst 2018.
  44. „Modified Gross National Income – CSO – Central Statistics Office“ (enska). Afrit af uppruna á 21. ágúst 2018. Sótt 21. ágúst 2018.
  45. „IRELAND Trade and Statistical Note 2017“ (PDF). OECD. 2017. Afrit (PDF) af uppruna á 10. apríl 2018. Sótt 11. apríl 2018.
  46. „20 multinationals paid half of all Corporation tax paid in 2016“. RTÉ News. 21. júní 2017. Afrit af uppruna á 21. júní 2017. Sótt 11. apríl 2018.
  47. „Most of Ireland's huge corporate tax haul last year came from foreign firms“. sunday Business Post FORA. 14. maí 2016. Afrit af uppruna á 17. maí 2017. Sótt 11. apríl 2018.
  48. „An Analysis of 2015 Corporation Tax Returns and 2016 Payments“ (PDF). Revenue Commissioners. apríl 2017. Afrit (PDF) af uppruna á 28. nóvember 2017. Sótt 14. apríl 2018.
  49. 49,0 49,1 „Ireland's Top 1000 Companies“. The Irish Times. 2018. Afrit af uppruna á 17. september 2019. Sótt 11. apríl 2018.
  50. „Winning FDI 2015–2019 Strategy“. IDA Ireland. mars 2015. Afrit af uppruna á 15. september 2017. Sótt 11. apríl 2018.
  51. „IDA Ireland Competitiveness“. IDA Ireland. mars 2018. Afrit af uppruna á 5. apríl 2018. Sótt 11. apríl 2018.
  52. „Ireland“. The World Factbook. Central Intelligence Agency. Afrit af uppruna á 9. janúar 2021. Sótt 28. ágúst 2011.
  53. „Croatia set to join the euro area on 1 January 2023: Council adopts final required legal acts“. www.consilium.europa.eu (enska). Afrit af uppruna á 25. júlí 2022. Sótt 31. desember 2022.
  54. Fottrell, Quentin (30. júní 2010). „Ireland Officially Exits Recession“. The Wall Street Journal. Afrit af uppruna á 5. apríl 2015. Sótt 30. júní 2011.
  55. „Ireland to receive €85 billion bailout at 5.8% interest rate“. The Irish Times. 28. nóvember 2010. Afrit af uppruna á 18. maí 2013. Sótt 30. júní 2011.
  56. „Irish economy grew by 0.9% in 2012 – CSO“. Raidió Teilifís Éireann. 21. mars 2013. Afrit af uppruna á 3. desember 2013. Sótt 30. maí 2013.
  57. Crosbie, Judith (26. júní 2013). „Irish anti-immigrant attitudes growing, report shows“. The Irish Times. Afrit af uppruna á 12. desember 2013. Sótt 6. desember 2013.
  58. „Monthly Unemployment March 2016 – CSO – Central Statistics Office“. cso.ie. Afrit af uppruna á 31. júlí 2017. Sótt 30. júlí 2017.
  59. 59,0 59,1 „One Irish person emigrates every six minutes“. Financial Times. 29. ágúst 2010. Afrit af uppruna á 14. apríl 2014. Sótt 2. maí 2015.
  60. „Monthly Unemployment November 2022 - CSO - Central Statistics Office“. www.cso.ie (enska). Afrit af uppruna á 8. desember 2022. Sótt 31. desember 2022.
  61. McDonald, Henry (13. desember 2013). „Ireland becomes first country to exit eurozone bailout programme“. The Guardian. Afrit af uppruna á 20. júlí 2017. Sótt 30. júlí 2017.
  62. „Republic of Ireland raises €3.75 billion from sale of new 10-year benchmark bond“. cbonds.com. Afrit af uppruna á 25. maí 2017. Sótt 2. febrúar 2017.
  63. Boland, Vincent (10. júlí 2017). „Irish government debt four times pre-crisis level, NTMA says“. Financial Times. Afrit af uppruna á 11. október 2017. Sótt 11. apríl 2018.
  64. „42% of Europe's banking crisis paid by Ireland“. 16. janúar 2013. Afrit af uppruna á 18. janúar 2013. Sótt 11. apríl 2018.
  65. „Who owes more money – the Irish or the Greeks?“. The Irish Times. 4. júní 2015. Afrit af uppruna á 31. júlí 2019. Sótt 11. apríl 2018.
  66. „Why do the Irish still owe more than the Greeks?“. The Irish Times. 7. mars 2017. Afrit af uppruna á 7. júlí 2019. Sótt 11. apríl 2018.
  67. „Ireland's colossal level of indebtedness leaves any new government with precious little room for manoeuvre“. Irish Independent. 16. apríl 2016. Afrit af uppruna á 16. nóvember 2018. Sótt 11. apríl 2018.
  68. „Irish public debt levels 4th highest in EU28 June 2017 FAR Slide 7“ (PDF). Irish Fiscal Advisory Council. júní 2017. Afrit (PDF) af uppruna á 23. október 2017. Sótt 11. apríl 2018.
  69. „Irish household debt still amongst the highest in Europe“. The Irish Times. 11. september 2017. Afrit af uppruna á 16. nóvember 2018. Sótt 11. apríl 2018.
  70. „Net National debt now €44000 per head, 2nd highest in the World“. Irish Independent. 7. júlí 2017. Afrit af uppruna á 14. nóvember 2019. Sótt 11. apríl 2018.
  71. „Tracking Tax Runaways“. Bloomberg News. 1. mars 2017. Afrit af uppruna á 17. júní 2020. Sótt 11. apríl 2018.
  72. „Pfizer pulls out of €140bn Irish Allergan merger“. Irish Independent. 6. apríl 2016. Afrit af uppruna á 8. júlí 2018. Sótt 11. apríl 2018.
  73. "Myths of British ancestry" Geymt 30 október 2019 í Wayback Machine Prospect magazine
  74. Origins of the British, Stephen Oppenheimer, 2006
  75. McEvoy, B; Richards, M; Forster, P; Bradley, DG (október 2004). „The Longue Durée of genetic ancestry: multiple genetic marker systems and Celtic origins on the Atlantic facade of Europe“. Am. J. Hum. Genet. 75 (4): 693–702. doi:10.1086/424697. PMC 1182057. PMID 15309688.
  76. „Census 2016 Summary Results - Part 1“ (PDF). Central Statistics Office Ireland. apríl 2017. Sótt 30. janúar 2022.
  77. Ireland continues to have highest birth rate in the European Union Geymt 13 febrúar 2019 í Wayback Machine. BBC News. (20. desember 2012). Sótt 16. júlí 2013.
  78. „Vital Statistics Yearly Summary 2014 – CSO – Central Statistics Office“. cso.ie. Afrit af uppruna á 11. júlí 2017. Sótt 30. júlí 2017.
  79. „Ireland's population still fastest-growing in EU“. Thomas Crosbie Media. 18. desember 2007. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. desember 2008. Sótt 9. júlí 2009.
  80. Roser, Max (2014), „Total Fertility Rate around the world over the last centuries“, Our World in Data, Gapminder Foundation, afrit af uppruna á 17. júlí 2020, sótt 7. maí 2019
  81. „World Factbook EUROPE : IRELAND“, The World Factbook, 12. júlí 2018, afrit af uppruna á 18. janúar 2021, sótt 23. janúar 2021
  82. „Census 2016. Non-Irish Nationalities Living in Ireland“. Central Statistics Office. Afrit af uppruna á 13. október 2018. Sótt 13. október 2018.
  83. „Settlement Dublin City And Suburbs“. Central Statistics Office. 2016. Afrit af uppruna á 13. nóvember 2018. Sótt 21. júlí 2017.
  84. „Settlement Cork City And Suburbs“. Central Statistics Office. 2016. Afrit af uppruna á 30. júlí 2017. Sótt 21. júlí 2017.
  85. „Settlement Limerick City And Suburbs“. Central Statistics Office. 2016. Afrit af uppruna á 11. desember 2018. Sótt 21. júlí 2017.
  86. „Settlement Galway City And Suburbs“. Central Statistics Office. 2016. Afrit af uppruna á 30. júlí 2017. Sótt 21. júlí 2017.
  87. „Settlement Waterford City And Suburbs“. Central Statistics Office. 2016. Afrit af uppruna á 30. júlí 2017. Sótt 21. júlí 2017.
  88. „Settlement Drogheda“. Central Statistics Office. 2016. Afrit af uppruna á 30. júlí 2017. Sótt 29. júlí 2017.
  89. „Settlement Swords“. Central Statistics Office. 2016. Afrit af uppruna á 30. júlí 2017. Sótt 29. júlí 2017.
  90. „Settlement Dundalk“. Central Statistics Office. 2016. Afrit af uppruna á 30. júlí 2017. Sótt 29. júlí 2017.
  91. „Settlement Bray“. Central Statistics Office. 2016. Afrit af uppruna á 30. júlí 2017. Sótt 29. júlí 2017.
  92. „Settlement Navan (An Uaimh)“. Central Statistics Office. 2016. Afrit af uppruna á 30. júlí 2017. Sótt 29. júlí 2017.
  93. "The origin of Halloween lies in Celtic Ireland" Geymt 8 júní 2017 í Wayback Machine