Fara í innihald

Mýri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mýri í Japan

Mýri er landsvæði þar sem grunnvatnsstaða er há og jafnvel uppi í yfirborði jarðvegsins. Gróður í mýrum er oft grófari og harðgerðari en í þurrara landi, þar vaxa einkum starir og mosi. Allt að helmingur gróins lands á Íslandi er mýrlendi.[1]

Flokkun[breyta | breyta frumkóða]

Mýrar skiptast í þrjá flokka; hallamýrar, flóa og flæðimýrar.

Hallamýrar[breyta | breyta frumkóða]

Hallamýrar myndast í halla við fjallshlíðar eða brekkurætur þar sem berggrunnurinn er þéttur. Hallamýrar geta verið í nokkuð miklum halla og er því mun auðveldara að ræsa þær fram heldur en flóa og flæðimýrar. Grunnvatnsstaða í hallamýrum getur verið breytileg enda er mikið flæði á vatninu í slíkum mýrum. Gróðurfar þeirra er fjölbreytt og þær geta gefið mikla uppskeru.

Flói[breyta | breyta frumkóða]

Flóar eru algengir á milli berghafta þar sem frárennsli er tregt. Landið er hallalítið og dæmi um flóa eru Mýrasýsla og Flóinn í Árnessýslu. Dýpt jarðvegsins getur verið breytileg og allt að 10 metrar. Flóar eru ekki eins frjósamir og hallamýrar vegna þess að vatnið ber næringarefni ekki eins ört til gróðursins. Gosefni og önnur efni í flóum geta virkað sem dren en fínna set s.s. kísilset hefur litla vatnsleiðni og minnkar því framræslu.

Flæðimýrar[breyta | breyta frumkóða]

Flæðimýrar eða flæðiengjar eru meðfram ám og stöðuvötnum með ójafna vatnshæð. Flæðimýrar eru rakar og auðugar af steinefnum en erfitt getur reynst að ræsa þær fram. Þær geta verið gott beitiland. Dæmi um slíkar flæðimýrar eru engjarnar á Hvanneyri meðfram Hvítá.

Jarðvegsgerð[breyta | breyta frumkóða]

Í mýrum, sérstaklega óframræstum, er mikil holurýmd í jarðveginum og geymir sú holurýmd mikið af því vatni sem í mýrinni er. Vegna þess hve illa jarðvegurinn er brotinn niður getur hann verið nokkuð súr (súrefni kemst ekki að til að flýta fyrir rotnun). Þannig heldur mýrin í sér næringarefnum sem hægt er að losa með framræslu. Við það kemst einnig súrefni að svo lífræn efni grotna hraðar niður.

Sveppir og gerlar éta upp súrefni úr plöntuleifum í mýrum og þannig þjappast jarðvegurinn saman. Við þetta eykst kolefnisinnihald hans. Við slíkar aðstæður myndast mór sem hefur verið notaður til brennslu.

Ef mýrar eru eða hafa verið þar sem jarðvegssnið eru tekin sjást þeirra greinileg merki. Jarðvegurinn er að jafnaði þykkari og oft sjást mýrarauðablettir. Mýrar hlýna seinna á vorin og kólna seinna á haustin en þurrara land á sama svæði. Þetta leiðir til þess að gróður í mýrum er lengur að taka við sér á vorin en helst á móti lengur fram eftir hausti.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Guðbjartur Kristóffersson (20033). Jarðfræði. Guðbjartur Kristóffersson, Reykjavík.
  • Þorsteinn Guðmundsson (jarðvegsfræðingur) (1994). Jarðvegsfræði. BÍ.