Charles de Gaulle

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Charles de Gaulle
Charles de Gaulle í kringum árið 1942.
Forseti Frakklands
Í embætti
8. janúar 1959 – 28. apríl 1969
ForsætisráðherraMichel Debré
Georges Pompidou
Maurice Couve de Murville
ForveriRené Coty
EftirmaðurGeorges Pompidou
Forsætisráðherra Frakklands
Í embætti
1. júní 1958 – 8. janúar 1959
ForsetiRené Coty
ForveriPierre Pflimlin
EftirmaðurMichel Debré
Formaður bráðabirgðastjórnar Frakklands
Í embætti
20. ágúst 1944 – 3. júlí 1946
ForveriPhilippe Pétain
(sem þjóðhöfðingi)
Pierre Laval
(sem forsætisráðherra)
EftirmaðurFélix Gouin
Persónulegar upplýsingar
Fæddur22. nóvember 1890
Lille, Frakklandi
Látinn9. nóvember 1970 (79 ára) Colombey-les-Deux-Églises, Frakklandi
StjórnmálaflokkurUnion des démocrates pour la République
MakiYvonne Vendroux
TrúarbrögðKaþólskur
BörnPhilippe de Gaulle, Élisabeth de Boissieu, Anne de Gaulle
HáskóliÉcole spéciale militaire de Saint-Cyr
Undirskrift

Charles André Joseph Marie de Gaulle (22. nóvember 18909. nóvember 1970), sem í heimalandi sínu, Frakklandi, var iðulega kallaður général de Gaulle, var hershöfðingi og stjórnmálamaður. Hann leiddi hið frjálsa Frakkland í seinni heimsstyrjöldinni og var í forystu frönsku ríkistjórnarinnar frá 1944 til 1946. Leitað var til hans um myndun ríkisstjórnar árið 1958. Hann vann að gerð nýrrar stjórnarskrár, stjórnarskrá fimmta lýðveldisins, og varð fyrsti forseti þess frá 1958 til 1969. Stjórnmálaleg hugmyndafræði hans er þekkt sem gaullismi og hefur verið áberandi í frönskum stjórnmálum.

Fyrstu sporin[breyta | breyta frumkóða]

De Gaulle fæddist í Lille í frönskum hluta Flæmingjalands. Faðir hans, Henri De Gaulle, sem var háskólaprófessor í heimspeki og bókmenntum var af góðum ættum. Fjölskylda hans voru trúaðir kaþólikkar. Á yngri árum menntaðist Charles í París og Belgíu en hann útskrifaðist frá þekktum frönskum herskóla Saint-Cyr árið 1912.[1]

Hann særðist alvarlega í orrustunni við Verdun 1916, var skilinn eftir meðal fallinna félaga og var tekinn höndum af Þjóðverjum. Hann gerði fimm misheppnaðar tilraunir til að flýja úr fangabúðunum.[1] Að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni gerðist hann sjálfboðaliði í franskri herdeild sem fór til Póllands til að berjast við Sovétmenn í stríði ríkjanna frá 1919 til 1920. Honum hlotnaðist virðingarmesta viðurkenning pólska hersins, Virtuti Militari og gerðist major í pólska hernum. De Gaulle bauðst frekari frami innan pólska hersins en hann ákvað heldur að snúa heim, hugfanginn af notkun skriðdreka í hernaði. Hann skrifaði um hugmyndir sínar um heri framtíðarinnar en skoðanir hans féllu ekki í kramið hjá yfirmönnum franska hersins.

Seinni heimsstyrjöldin[breyta | breyta frumkóða]

De Gaulle ásamt Winston Churchill í Marrakess árið 1944.

Þegar Þjóðverjar sóttu fram í seinni heimsstyrjöldinni og höfðu komist hjá Sedan þann 15. maí 1940 fram hjá helstu varnarlínu Frakka, var de Gaulle gerður að yfirmanni innan hersins. Þann 28. maí hindraði de Gaulle framrás Þjóðverja og þáverandi forsætisráðherra Frakklands Paul Reynaud gerði de Gaulle að hershöfðingja. Þann 16. júní kom hann til Bordeaux frá London eftir að hafa reynt að semja við Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands, og bresk stjórnvöld um samstarf í baráttunni gegn Þjóðverjum. Þar frétti hann að Philippe Pétain leiddi nú stjórn Frakka og leitaði eftir því við Þjóðverja að koma á vopnahléi. Samdægurs ákvað hann að hann myndi ekki líða þá niðurlægingu Frakka að gefast upp fyrir Þjóðverjum. Hann sneri því aftur til London stofnaði og stýrði hreyfingunni Frjálst Frakkland á meðan á stríðinu stóð frá London fram í maí 1943 þegar hann flutti aðsetur sitt til Alsír. Við frelsun Parísar 25. ágúst 1944 kom hann sér fyrir á nýjan leik í skrifstofu stríðsráðuneytisins til að framlengja sögu þriðja lýðveldisins og lýsa yfir ólögmæti Vichy-stjórnarinnar. Frá því starfaði hann sem forseti en sagði af sér 20. janúar 1946 vegna ósættis um drög að stjórnarskrá fyrir fjórða lýðveldið.

Fjórða lýðveldið[breyta | breyta frumkóða]

Í apríl 1947 stofnaði de Gaulle Rassemblement du Peuple Français (RPF) til að hafa áhrif á frönsk stjórnmál en án árangurs. De Gaulle lét af afskiptum sínum af stjórnmálum 1953 en RPF starfaði áfram til 1955.

Stjórnmálaástandið í Frakklandi var óstöðugt á tíma fjórða lýðveldisins. Ófarir í fyrri Indókínastyrjöldinni og vanhæfni til að leysa vandamál sem komu upp vegna Alsírstríðsins hristu upp í stjórnmálum Frakklands. Í óeirðum í Alsír í maí 1958 hrópaði Raoul Salan „Lifi de Gaulle“ af svölum stjórnarbyggingarinnar í Alsír, tveimur dögum síðar 17. maí sagðist de Gaulle reiðubúinn til að taka við stjórnartaumunum í lýðveldinu. Óttast var að í yfirlýsingu de Gaulle fælist aðkoma hersins; de Gaulle leiðrétti þann misskilning.

Að kommúnistum og François Mitterrand slepptum sættust stjórnmálaleiðtogar á að styðja endurkomu de Gaulle í stjórnmálin. De Gaulle sagði stjórnarskrá fjórða lýðveldisins ástæðu veikrar stöðu Frakklands. Frá 1. júní 1958 varð de Gaulle leiðtogi og fékk neyðarvald til hálfs árs frá franska þinginu að eigin beiðni. Í þjóðaratkvæðagreiðslu 28. september 1958 samþykktu 79,2% kjósenda nýja stjórnarskrá fimmta lýðveldisins. Nýlendur Frakka að Gíneu undanskilinni samþykktu stjórnarskránna fremur en að þiggja sjálfstæði samstundis. Gínea varð því fyrsta fransk-afríska nýlendan til að hljóta sjálfstæði. Hins vegar var Alsír ekki nýlenda heldur hluti Frakklands.

Fimmta lýðveldið[breyta | breyta frumkóða]

De Gaulle ásamt Konrad Adenauer kanslara Vestur-Þýskalands árið 1958.

Í nóvember 1958 hlutu de Gaulle og stuðningsmenn hans (upphaflega sem Union pour la Nouvelle République-Union Démocratique du Travail, síðan sem Union des Démocrates pour la Vème République og loks Union des Démocrates pour la République (Samband lýðræðissinna í lýðveldinu)) rúman meirihluta þingsæta og 78% þingmanna kusu de Gaulle forseta. Hann sór embættiseið í janúar 1959.

Hann tók á efnahagsmálum með myntbreytingu, þar sem nýi frankinn jafngilti 100 gömlum. Hann stóð andspænis bæði Bandaríkjunum og Sovétríkjunum í viðleitni sinni til að styrkja stöðu frjáls Frakklands með eigin kjarnorkuvopnum. Hann var stuðningsmaður frjálsrar Evrópu og kom á fót fransk-þýsku samstarfi sem hornstein Efnahagsbandalagi Evrópu (síðar Evrópusambandið) með fyrstu opinberu heimsókn fransks þjóðhöfðingja til Þýskalands frá tímum Napóleons.

Í janúar 1963 beitti hann neitunarvaldi til að koma í veg fyrir aðild Bretlands að Efnahagsbandalagi Evrópu með tilvísun til trúar sinnar á því að Bretar sættu sig ekki við reglur bandalagsins og að Bretar kysu heldur að starfa með bandamönnum sínum í vestri, Bandaríkjunum og Samveldislöndunum. De Gaulle sættist á hugmyndina um sjálfstæði Alsír þar sem hann taldi að, þótt stríðið í Alsír væri sigranlegt þá væri það ekki verjandi á alþjóðavettvangi. Hann kom á vopnahléi í Alsír í mars 1962 og þjóðaratkvæðagreiðsla þar leiddi til sjálfstæðis í júlí sama ár.

De Gaulle reyndi í september 1962 að breyta stjórnarskrá Frakklands á þá lund að forseti væri kjörinn í beinni kosningu en þingið hafnaði því. Við svo búið leysti de Gaulle þingið upp og boðaði til kosninga þar sem Gaullistar juku meirihluta sinn á þingi. Georges Pompidou tók við embætti forsætisráðherra við afsögn Michel Debré vegna loka Alsírs-málsins.

Að Alsír-málinu loknu einbeitti de Gaulle sér að umbótum og þróun fransks efnahags og að styrkja sjálfstæða utanríkisstefnu og stöðu Frakklands í alþjóðasamfélaginu. Í janúar 1964 viðurkenndi de Gaulle opinberlega Alþýðulýðveldið Kína í andstöðu við vilja bandarískra stjórnvalda. Frá 1964 fram yfir 1990 var landsframleiðsla Frakka meiri en landsframleiðsla Breta. Árið 1965 sendu Frakkar gervitungl á sporbraut umhverfis jörðina og voru þeir þriðja þjóðin til þess á eftir Sovétmönnum og Bandaríkjamönnum. Í desember sigraði de Gaulle François Mitterrand í seinni umferð forsetakosninga. Í febrúar 1966 drógu Frakkar sig út úr sameiginlegri herstjórn NATO. Í september 1966 mótmælti de Gaulle þátttöku Bandaríkjamanna í Víetnamstríðinu. Hann sagði heimkvaðningu Bandaríkjamanna einu leiðina til friðar. Í júní 1967 fordæmdi hann hernám Ísraelsmanna á Vesturbakkanum og á Gazaströndinni. Frá 1967 til 1970 studdi de Gaulle stjórnvöld í Biafra í baráttu þeirra við að fá sjálfstæði frá Nigeríu. Í desember 1967 neitaði hann Bretum um aðild að Efnahagsbandalaginu öðru sinni. 1968 sprengdu Frakkar kjarnorkusprengju í eyðimörkinni í Alsír og urðu þar með fjórða kjarnorkuveldið.

Námsmenn risu upp og mótmæltu kröftuglega í maí 1968. De Gaulle bauðst til þess að mæta einhverjum af þeim kröfum sem mótmælendurnir settu fram. Hann leysti upp þingið og Gaullistar unnu 358 af 487 þingsætum, í júní kosningum 1968 þar sem Gaullistar sögðu hinn möguleikann vera byltingu, jafnvel borgarastríð. Í júlí 1967 setti de Gaulle Maurice Couve de Murville í embætti forsætisráðherra.[2]

Árið 1969 féllu hugmyndir hans um endurskipulagningu Öldungadeildar franska þingsins í grýttan jarðveg. Því sagði de Gaulle af sér 28. apríl 1969 og Georges Pompidou tók við forsetaembættinu.

Einkalíf og andlát[breyta | breyta frumkóða]

7. apríl 1921 kvæntist de Gaulle Yvonne Vendroux og átti hann með henni þrjú börn: Philippe f. 1921, Elísabetu f. 1924 og Önnu f. 1928. Hann lést skyndilega á Colombey-les-deux-Églises þar sem hann ritaði minningar sínar. Síðasta ósk hans var sú að verða grafinn í Colombey, og að engir stjórnmálamenn myndu fylgja honum til grafar, einungis félagar hans úr seinna stríði. Þjóðhöfðingjar sóttu minningarathöfn í Notre Dame á meðan útförinni stóð. Hann var það fátækur við andlátið að fjölskyldan neyddist til að selja sveitasetrið, sem nú hýsir Charles de Gaulle-Safnið.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 „Menn sem settu svip á öldina: Charles de Gaulle“. Samvinnan. 1. júní 1968. bls. 12-18.
  2. „De Gaulle: Hann var Frakkland“. Morgunblaðið. 11. nóvember 1970. bls. 1-4.


Fyrirrennari:
Philippe Pétain
(sem þjóðhöfðingi)
Pierre Laval
(sem forsætisráðherra)
Forseti bráðabirgðastjórnar Frakklands
(20. ágúst 19443. júlí 1946)
Eftirmaður:
Félix Gouin
Fyrirrennari:
Pierre Pflimlin
Forsætisráðherra Frakklands
(1. júní 19588. janúar 1959)
Eftirmaður:
Michel Debré
Fyrirrennari:
René Coty
Forseti Frakklands
(8. janúar 195928. apríl 1969)
Eftirmaður:
Georges Pompidou