Fara í innihald

Írska fríríkið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Írska fríríkið
Irish Free State
Saorstát Éireann
Fáni Írska fríríkisins Skjaldarmerki Írska fríríkisins
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Amhrán na bhFiann
Staðsetning Írska fríríkisins
Höfuðborg Dyflinn
Opinbert tungumál Írska og enska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Georg 5. (1922–1936)
Játvarður 8. (1936)
Georg 6. (1936-1946)[ath 1]
Landstjóri Timothy Michael Healy (1922–1927)
James McNeill (1928–1932)
Domhnall Ua Buachalla (1932–1936)
Forsætisráðherra W. T. Cosgrave (1922–1932)
Éamon de Valera (1932–1937)
Nýtt ríki
 • Ensk-írski sáttmálinn 6. desember 1921 
 • Stjórnarskrá írska fríríkisins 6. desember 1922 
 • Stjórnarskrá Írlands 29. desember 1937 
 • Lýðveldi stofnað 18. apríl 1949 
Flatarmál
 • Samtals

70.000 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (1937)
 • Þéttleiki byggðar

2.948.000
42,11/km²
Gjaldmiðill Sterlingspund (1922–27)
Saorstát-pund (1928–1937)
Tímabelti UTC+0 (UTC+1 á sumrin)
Ekið er Vinstra megin
  1. Stofnað var til írsks forsetaembættis árið 1936 og lagaleg staða Bretlandskonungs á Írlandi var óljós þar til lýðveldi var formlega stofnað 1949.

Írska fríríkið (enska: Irish Free State; írska: Saorstát Éireann) var stjórnskipulag Írlands (að undanskildu Norður-Írlandi) frá 1921 til 1937.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Írska fríríkið var stofnsett með ensk-írska sáttmálanum sem leiðtogar írsku sjálfstæðishreyfingarinnar sömdu um við bresk stjórnvöld árið 1921 við lok írska sjálfstæðisstríðsins. Með sáttmálanum fékk Írland, sem hafði verið bresk hjálenda sem hluti af hinu sameinaða konungsríki Stóra-Bretlands og Írlands, aukið sjálfræði sem sjálfstjórnarumdæmi í sambandi við bresku krúnuna.

Ensk-írski sáttmálinn fól í sér að Norður-Írland var klofið frá fríríkinu og var áfram hluti af breska konungdæminu.[1] Skilmálar sáttmálans kváðu jafnframt á um að írskir þingmenn og aðrir embættismenn yrðu áfram að sverja Bretakonungi hollustueið við embættistöku sína.[2] Róttækir sjálfstæðissinnar, sem höfðu viljað stefna að stofnun lýðveldis á Írlandi, voru afar ósáttir við þessa skilmála. Deilur um ensk-írska sáttmálann leiddu til írsku borgarastyrjaldarinnar sem háð var á milli fríríkisins og lýðveldissinna árin 1922 til 1923. Lýðveldissinnar báðu ósigur í borgarastríðinu og fríríkið var því staðfest sem fyrsta stjórnskipan hins nýsjálfstæða Írlands.

Í fyrstu héldu lýðveldissinnar innan gamla írska sjálfstæðisflokksins Sinn Féin þá stefnu að taka ekki við þingsætum sem þeir unnu á írska þinginu til að forðast að þurfa að sverja Bretakonungi hollustueið. Árið 1926 ákvað lýðveldissinninn Éamon de Valera hins vegar að kljúfa sig úr Sinn Féin og stofna nýjan flokk, Fianna Fáil, með það að markmiði að taka sæti á þingi og vinna innan vébanda fríríkisins við að slíta smám saman tengslum við bresku krúnuna og breyta Írlandi í lýðveldi.[3]

Fianna Fáil vann sigur í þingkosningum fríríkisins árið 1932 og de Valera varð forsætisráðherra. Ríkisstjórn Fianna Fáil hófst handa við að fella smám saman úr gildi öll lagaákvæði sem tengdu Írland við bresku krúnuna, þar á meðal ákvæðin sem skylduðu þingmenn til að sverja konungi hollustueið.

Árið 1936, á meðan stjórnarkreppa ríkti í Bretlandi vegna afsagnar Játvarðar 8. Bretlandskonungs, greip de Valera tækifærið og kynnti nýja stjórnarskrá þar sem allar vísanir til konungsins voru þurrkaðar út og innlendur forseti kom í stað landstjóra sem æðsti maður ríkisins.

Lagaleg staða konungsins var þó óskýr á næstu árum og ekki var með öllu ljóst hvort konungur eða forseti væri eiginlegur þjóðhöfðingi Írlands. Samkvæmt lögum gegndi konungur Bretlands enn mikilvægu hlutverki í írskum utanríkismálum næstu árin, en þó aðeins samkvæmt ráðleggingu írsku ríkisstjórnarinnar. Þótt fríríkið væri þar með í reynd liðið undir lok var það ekki fyrr en árið 1949 sem stjórn Írlands lýsti formlega yfir stofnun lýðveldis og sagði upp utanríkissamningi sínum við Bretakonung. Þar með var síðustu ítökum Bretlands í suðurhluta Írlands slitið.[4]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Morgan, Austen (2000). The Belfast Agreement: A Practical Legal Analysis (PDF). The Belfast Press. bls. 66, 68. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 26. september 2015. Sótt 10. febrúar 2019.
  2. Coogan, Tim Pat. Michael Collins: The Man Who Made Ireland, bls. 267. (Boulder: Roberts Rinehart Publishers, 1996).
  3. Gunnar Pálsson (23. mars 1978). „„Mikill örn með ylblíða klóglófa". Morgunblaðið. Sótt 15. maí 2019.
  4. Mary E. Daly (janúar 2007). „The Irish Free State/Éire/Republic of Ireland/Ireland: "A Country by Any Other Name"?“. Journal of British Studies. 46 (1): 72–90. doi:10.1086/508399. JSTOR 10.1086/508399.
  Þessi sagnfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.