Fara í innihald

Ólafur Thors

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Ólafur Tryggvason Thors)
Ólafur Thors
Forsætisráðherra Íslands
Í embætti
16. maí 1942 – 16. desember 1942
ÞjóðhöfðingiKristján 10.
RíkisstjóriSveinn Björnsson
ForveriHermann Jónasson
EftirmaðurBjörn Þórðarson
Í embætti
21. október 1944 – 4. febrúar 1947
ForsetiSveinn Björnsson
ForveriBjörn Þórðarson
EftirmaðurStefán Jóhann Stefánsson
Í embætti
6. desember 1949 – 14. mars 1950
ForsetiSveinn Björnsson
ForveriStefán Jóhann Stefánsson
EftirmaðurSteingrímur Steinþórsson
Í embætti
11. september 1953 – 24. júlí 1956
ForsetiÁsgeir Ásgeirsson
ForveriSteingrímur Steinþórsson
EftirmaðurHermann Jónasson
Í embætti
20. nóvember 1959 – 14. nóvember 1963
ForsetiÁsgeir Ásgeirsson
ForveriEmil Jónsson
EftirmaðurBjarni Benediktsson
Formaður Sjálfstæðisflokksins
Í embætti
1934–1961
ForveriJón Þorláksson
EftirmaðurBjarni Benediktsson
Alþingismaður
frá til  kjördæmi    þingflokkur
1926 1929  Gullbringu- og Kjósarsýsla  Íhald
1929 1959  Gullbringu- og Kjósarsýsla  Sjálfstæðisfl.
1959 1964  Reykjanes  Sjálfstæðisfl.
Persónulegar upplýsingar
Fæddur19. janúar 1892
Borgarnesi, Íslandi
Látinn31. desember 1964 (72 ára) Reykjavík, Íslandi
StjórnmálaflokkurSjálfstæðisflokkurinn
MakiIngibjörg Indriðadóttir
BörnThor, Marta, Thor, Ingibjörg og Margrét Þorbjörg
ForeldrarThor Jensen og Margrét Þorbjörg Kristjánsdóttir
HáskóliKaupmannahafnarháskóli
StarfViðskiptamaður, stjórnmálamaður
Æviágrip á vef Alþingis

Ólafur Tryggvason Thors (19. janúar 1892 í Borgarnesi, 31. desember 1964 í Reykjavík), var forsætisráðherra Íslands samanlagt í um það bil áratug og formaður Sjálfstæðisflokksins lengur en nokkur annar, í 27 ár. Ólafur var sonur danska athafnamannsins Thors Jensens og bróðir Thor Thors, sendiherra og fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Fjölskyldufyrirtækið var Kveldúlfur hf., eitt það stærsta á Íslandi og var Ólafur framkvæmdastjóri þess í 25 ár frá 1914–39.

Ólafur var sonur athafnamannsins Thors Jensens og konu hans Margrétar Þorbjargar Kristjánsdóttur. Ólafur lauk stúdentsprófi árið 1912 frá Menntaskólanum í Reykjavík. Hann las lögfræði við Hafnarháskóla og Háskóla Íslands, en lauk ekki námi.[1] en varð einn framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Kveldúlfs 1914. Árið 1915 kvæntist Ólafur Ingibjörgu Indriðadóttur. Fyrsta barn þeirra hét Thor en hann dó fimm ára gamall, og hafði það mikil áhrif á Ólaf. Ólafur og Ingibjörg eignuðust fjögur börn sem komust upp, Mörtu, Thor, Ingibjörgu og Margréti Þorbjörgu.

Ólafur var á lista Jóns Þorlákssonar og annarra heimastjórnarmanna í þingkosningum í Reykjavík 1921 en fyrst kosinn á þing fyrir Íhaldsflokkinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu í aukakosningum 1926. Í útreiðartúr í júlí 1923 til Haffjarðarár hrasaði hesturinn sem Ólafur reið og hlaut hann höfuðhögg. Hann var snöggur á fætur á ný en þegar komið var á leiðarenda lagðist hann til hvílu og svaf þungan svefn. Er hann vaknaði mundi hann ekki hvað hann hét. Minnið sneri þó aftur smám saman. Þrem vikum síðar í Reykjavík fékk hann mikinn höfuðverk og gerðist þetta nokkrum sinnum næstu tvö árin. Þessi bylta varð einnig til þess að Ólafur tók ekki fyrsta sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins af Jóni Þorlákssyni og hefur því verið fleygt að hestur Ólafs hafi sett mark sitt á sögu landsins.[2] Hann var þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu til 1959 en eftir það til dauðadags fyrir Reykjaneskjördæmi. Tók Ólafur við formennsku í Sjálfstæðisflokknum með fullum stuðningi Jóns Þorlákssonar 2. október 1934 og gegndi henni til 1961.

Ólafur var formaður Félags íslenskra botnvörpuskipaeigenda, forvera Landsambands íslenskra útvegsmanna, 1918—35. Ólafur var í bankaráði Landsbanka Íslands 1936-44 og 1948-64. Þá sat hann á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1947 og 1948.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Ólafur var dómsmálaráðherra í tæpa tvo mánuði í forföllum Magnúsar Guðmundssonar árið 1932 (frá 11. nóvember til þorláksmessu, 23. desember) en var atvinnumálaráðherra í þjóðstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks; 17. apríl 1939 - 16. maí 1942.

Ólafur myndaði fyrstu ríkisstjórn sína 16. maí 1942, minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins, og var sjálfur forsætis og utanríkisráðherra. Ríkistjórnin sat á meðan verið var að breyta kjördæmaskipan. Ólafur baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt 14. nóvember en sat uns Sveinn Björnsson ríkisstjóri skipaði utanþingsstjórn undir forsæti Björns Þórðarsonar 16. desember sama ár. Ólafur kaus ekki Svein Björnsson forseta þegar Alþingi kaus forseta lýðveldisins í fyrsta skiptið árið 1944 vegna óánægju með að Sveinn skyldi skipa utanþingsstjórn.

Ólafur myndaði nýsköpunarstjórnina 21. október 1944, með Sósíalistaflokknum og Alþýðuflokknum. Í Nýsköpunarstjórninni var Ólafur líkt og í fyrri stjórn hvorttveggja forsætis- og utanríkisráðherra. Stjórnin fékk lausn frá störfum 21. október en sat fram til 4. febrúar 1947 er Sjálfstæðismenn höfðu samið við Framsóknarflokk og Alþýðuflokk um myndun nýrrar ríkisstjórnar undir forsæti Alþýðuflokksmannsins Stefáns Jóhanns Stefánssonar. Í þeirri stjórn fór Bjarni Benediktsson fyrir Sjálfstæðismönnum.

Þriðja stjórn Ólafs var minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins, sem leysti stjórn Stefáns Jóhanns af hólmi 6. desember 1949 og sat fram til 14. mars 1950. Þá tók Ólafur sæti í ríkisstjórn Steingríms Steinþórssonar sem samkomulag hafði náðst um milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna. Hvorki Ólafur né Hermann Jónasson formaður Framsóknarflokksins sættu sig við að sitja í ríkisstjórn undir forsæti hins og því varð Steingrímur forsætisráðherra.

Ólafur myndaði þó að lokum sjálfur nýja ríkistjórn með framsóknarmönnum og stýrði henni frá 11. september 1953 til 24. júlí 1956 er Hermanni Jónassyni hafði tekist að mynda stjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, eftir að upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafði slitnað 27. mars.

Sjálfstæðisflokkurinn varði stjórn Emils Jónssonar vantrausti meðan nýrri kjördæmaskipan var komið á. Að því loknu myndaði Ólafur fimmtu ríkisstjórn sína 1959, viðreisnarstjórnina, með Alþýðuflokknum og var forsætisráðherra frá 20. nóvember 1959 til 14. nóvember 1963, er hann sagði af sér af heilsufarsástæðum. Tók dr. Bjarni Benediktsson við forsætisráðherrastöðunni. Ólafur sat áfram á þingi en lést á gamlársdag 1964.

Samband ungra sjálfstæðismanna gaf út geisladisk með völdum hlutum úr ræðum Ólafs í tilefni þess að öld var liðin frá fæðingu hans árið 1992.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Ólafur Thors“. Alþingi. Sótt 20. september 2023.
  2. Guðmundur Magnússon. Thorsararnir. bls 149-50, 169
  • Guðmundur Magnússon (2006). Thorsararnir: auður - völd - örlög. Almenna bókafélagið. ISBN 9979219912.
  • Hannes Hólmsteinn Gissurarson (1989). Sjálfstæðisflokkurinn í sextíu ár. Sjálfstæðisflokkurinn.


Fyrirrennari:
Hermann Jónasson
Forsætisráðherra
(16. maí 194216. desember 1942)
Eftirmaður:
Björn Þórðarson
Fyrirrennari:
Björn Þórðarson
Forsætisráðherra
(21. október 19444. febrúar 1947)
Eftirmaður:
Stefán Jóhann Stefánsson
Fyrirrennari:
Stefán Jóhann Stefánsson
Forsætisráðherra
(6. desember 194914. mars 1950)
Eftirmaður:
Steingrímur Steinþórsson
Fyrirrennari:
Steingrímur Steinþórsson
Forsætisráðherra
(11. september 195324. júlí 1956)
Eftirmaður:
Hermann Jónasson
Fyrirrennari:
Emil Jónsson
Forsætisráðherra
(20. nóvember 195914. nóvember 1963)
Eftirmaður:
Bjarni Benediktsson
Fyrirrennari:
Jón Þorláksson
Formaður Sjálfstæðisflokksins
(2. október 193422. október 1961)
Eftirmaður:
Bjarni Benediktsson
Fyrirrennari:
Magnús Guðmundsson
Varaformaður Sjálfstæðisflokksins
(3. júní 19322. október 1934)
Eftirmaður:
Magnús Guðmundsson