Fara í innihald

Heimastjórnarflokkurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Heimastjórnarmenn)

Heimastjórnarflokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur sem var myndaður utan um ákveðna stefnu í stjórnarskrármálinu rétt fyrir aldamótin 1900. Heimastjórnarflokkinn skipuðu andstæðingar Valtýskunnar á Alþingi og börðust fyrir því að komið yrði á heimastjórn með því að Íslandsráðgjafi væri staðsettur á Íslandi en ekki í Kaupmannahöfn líkt og áður.

Heimastjórnarflokkurinn fékk helming atkvæða í Alþingiskosningum 1900 en naut ekki meirihluta á þingi fyrr en eftir kosningarnar 1902. Heimastjórn var svo samþykkt með breytingu á stjórnarskránni 1902. Hannes Hafstein, einn aðalforystumaður flokksins, var skipaður fyrsti ráðherra Íslands 1. febrúar 1904.

Flokkurinn missti meirihluta sinn á þingi þegar „uppkastið“ (drög að sambandslögum um samband Íslands og Danmerkur) var fellt eftir Alþingiskosningar 1908 þar sem andstæðingar þess úr Sjálfstæðisflokki (kosningabandalags Þjóðræðisflokksins og Landvarnarflokksins) fengu meirihluta. Hannes Hafstein sagði af sér ráðherraembætti eftir að vantrauststillaga hafði verið samþykkt.

Eftir Alþingiskosningar 1911 stofnuðu ýmsir fylgismenn Heimastjórnarflokksins, svo sem Hannes Hafstein og Stefán Baldvin Stefánsson, Sambandsflokkinn ásamt hluta Sjálfstæðisflokksins með það að augnamiði að koma með ný drög að sambandslögunum 1912 („bræðingurinn“). Hannes varð aftur ráðherra fyrir þennan flokk sama ár. Þegar Sambandsflokkurinn leið undir lok 1914 gengu flestir fylgismenn hans aftur í Heimastjórnarflokkinn.

Í borgarstjórnarkosningum 1918 buðu ýmsir úr Heimastjórnarflokki og Sjálfstæðisflokki fram sameiginlegan lista undir nafni Sjálfstjórnarflokksins. Síðast bauð Heimastjórnarflokkurinn fram í Alþingiskosningum 1919 og fékk þá 13 þingmenn en hafði að auki stuðning fjögurra þingmanna utan flokka. 1920 gengu ýmsir þingmenn flokksins í Utanflokkabandalag hægri manna á þingi. Sama ár varð Lögrétta, málgagn Heimastjórnarflokksins, að vikublaði Morgunblaðsins. 1922 varð Utanflokkabandalagið að Sparnaðarbandalaginu og við kosningarnar 1923 gengu leifar Heimastjórnarflokksins inn í kosningabandalag með Sparnaðarbandalaginu og Sjálfstæðisflokki sem nefndist Borgaraflokkurinn sem síðar varð Íhaldsflokkurinn 1924.

Útgáfumál

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1905 einkenndist af hatrömmum átökum á sviði stjórnmálanna, sem náðu hámarki í deilunum um símamálið. Hafði Björn Jónsson beitt blaði sínu Ísafold ákaft í þessu orðaskaki.

Komust Heimastjórnarmenn að þeirri niðurstöðu að hreyfing þeirra þyrfti á öflugum málgögnum að halda. Voru í því skyni stofnsett tvö ný blöð sem hófu útgáfu í ársbyrjun 1906. Annars vegar vikublaðið Lögrétta í ritstjórn Þorsteins Gíslasonar. Þorsteinn hafði áður fylgt Valtýingum, andstæðingum Heimastjórnarflokksins að málum. Lögrétta kom út til ársins 1936, en hafði þá um alllangt skeið verið gefin út í nánum tengslum við Morgunblaðið.

Á Akureyri stofnuðu Heimastjórnarmenn blaðið Norðra, sem gefið var út til ársins 1916.