Tunglið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
TungliðMoon symbol decrescent.svg
Tunglið séð frá jörðu

Tunglið séð frá jörðu (Mynd: Frode Steen)
Upplýsingar um tunglið[1]
Meðalfjarlægð frá jörðu 384.400 km
Mesta fjarlægð frá jörðu 405.500 km
Minnsta fjarlægð frá jörðu 363.300 km
Brautarhraði 1,2 km/s
Tunglmánuður 29,531 dagar
Möndulhalli 6,68°
Þvermál 3476 km
Ummál 10 921 km
Flatarmál 3,793 × 107 km2 (0,074 x Jörðin)
Rúmtak 2,1958 × 1010 km3 (0,020 x Jörðin)
Eðlismassi 3,34 g/cm³
Lausnarhraði 2,4 km/s
Þyngdarhröðun 1,67 m/s²
Meðalhiti dags 130 °C
Meðalhiti nætur -180 °C

Tunglið[2] eða máninn[2] er eini fylgihnöttur jarðar. Meðalfjarlægð tungls og jarðar er 384.400 km og þvermál þess er 3.476 km. Það hefur bundinn möndulsnúning, þ.e. tunglið snýr alltaf sömu hlið að jörðinni.

Tunglið fer einn hring umhverfis jörðina á u.þ.b. einum mánuði og á hverri klukkustund færist það miðað við fastastjörnunar, um 0,5° á himinhvelfingunni, eða um fjarlægð sem er u.þ.b. jöfn sýndarþvermáli þess. Tunglmyrkvi verður þegar tunglið fer inn í alskugga jarðar, þ.a jörðin skyggir á sólu frá tunglinu séð.

Uppruni[breyta | breyta frumkóða]

Ekki eru menn allir sammála um hvernig tunglið myndaðist. Ótal misgáfulegar hugmyndir eru til um uppruna þess og verður fjallað um þær fjórar sem taldar eru mest líklegar hér á eftir.[3]

Samansöfnunarkenningin[breyta | breyta frumkóða]

Einfaldasta kenningin er sú að tunglið og jörðin hafi myndast saman fyrir óralöngu, strax og sólkerfið tók að myndast og tunglið byrjað að snúast um jörðu strax frá upphafi. Hún verður reyndar að teljast í ólíklegri kantinum þar sem efnasamsetning hnattanna er svo ólík að þeir geta ekki hafa myndast úr sama efninu.

Hremmikenningin[breyta | breyta frumkóða]

Önnur kenningin gengur út á það að tunglið hafi myndast sjálfstætt, en komið of nálægt jörðu. Við það festist það á sporbraut um jörðina og hefur ekki losnað síðan. Þessi kenning er líka í ólíklegra lagi, því ef hún stæðist, ætti jörðin að bera merki um að jarðskorpan hefði rifnað í sundur og gríðarleg eldgos hefðu geysað um alla jörðina. Þau ummerki hafa ekki fundist, allavega ekki ennþá og er mjög ólíklegt að þau finnist nokkurn tíman. Það er þó ekki hægt að útiloka þennan möguleika því við getum ekki afsannað slík eldsumbrot vegna flekahreyfinganna. Jarðskorpan endurnýjar sig sem gerir það að verkum að gömul jarðlög, ekki síst jarðlög frá þeim tíma er tunglið myndaðist, hafa annað hvort eyðst eða eru undir nýrri jarðlögum og er því nánast ógerlegt að rannsaka þau.

Klofningskenningin[breyta | breyta frumkóða]

Klofningskenningin gerir ráð fyrir að jörðin hafi upphaflega verið án fylgihnatta, svo hafi hún skyndilega byrjað að snúast svo hratt að hluti jarðar hafi losnað og myndað tunglið. Þetta þykir þó óhugsandi. Ef hnöttur færi að snúast það hratt að hann klofnaði er útilokað að annar hlutinn færi á braut um hinn, heldur myndu þeir báðir losna úr þyngdarsviði hvors annars. Ein útgáfan af þessari kenningu gerir ráð fyrir að annað brotið sé tunglið og hitt mars.

Árekstrarkenningin[breyta | breyta frumkóða]

Sú kenning er tiltölulega ung en hún kom fyrst fram árið 1975 og segir að fyrirbæri á stærð við Mars hafi rekist á jörðina af gríðarlegu afli með þeim afleiðingum að kjarnar þeirra runnu saman, en bráðinn möttull aðkomuhnattarins hafi lekið út í geiminn og storknað á braut um jörðu. Stærð hnattarins sem keyrði inn í jörðina hefur haft mikil áhrif á hana og talið er að möndulhalli hennar hafi að einhverju leiti ráðist af því. Í dag er árekstrarkenningin sú kenning sem mönnum finnst líklegust.

Gerð tunglsins[breyta | breyta frumkóða]

Innri gerð tunglsins

Ytri gerð[breyta | breyta frumkóða]

Þegar fyrstu stjörnufræðingarnir fóru að pæla í tunglinu, tóku þeir eftir að yfirborð þess skiptist í ljós og dökk svæði og töldu vera lönd og höf. Enn í dag er talað um höf þegar talað er um dökku svæðin, þrátt fyrir að þau séu það ekki í orðsins fyllstu merkingu.

Höfin mynduðust þegar stórir loftsteinar rákust á tunglið með það miklum krafti að þeir náðu í gegnum jarðskorpuna og inn í möttul sem þá var fljótandi. Við það lak hraun úr gatinu og þakti hluta af hnettinum. Þetta þýðir að dökku svæðin hafa myndast fyrir meira en þremur milljörðum árum síðan, því samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið á sýnum sem geimfarar tóku með sér frá tunglinu, lauk eldvirkni á tunglinu þá. Ljósu svæðin (hálendi) á tunglinu eru fjöll og gígar. Þau eru um 4-4,3 milljarða ára gömul og þekja stærsta hluta yfirborðs tunglsins, eða 84%. Bergtegund sem kallast anortosít veldur hvíta litnum á hálendi tunglsins. Þessi bergtegund inniheldur frumefnin ál kalsíum og kísil. Fjöllin eru elsti hluti tunglsins, öfugt við jörðina. Þetta á sér þá útskýringu að þegar tunglið var nýmyndað gaus það eins og jörðin og við það mynduðust fjöll. Bakhlið tunglsins er nánast bara hálendi en það er vegna þess að aðdráttarafl jarðar er svo mikið að þegar tunglið var að myndast sigu öll þungu efnin inn í miðju sem er 2,5 km frá rúmfræðilegri miðju þess. Þetta kallast bundinn möndulsnúningur. Það er einnig ástæða þess að við sjáum aðeins aðra hlið tunglsins.

Listi yfir tunglhöf[breyta | breyta frumkóða]

Innri gerð[breyta | breyta frumkóða]

Tunglið hefur u.þ.b. 70 km þykka skorpu. Hún er samsett úr fjölmörgum frumefnum, t.d. úrani, þóríum, kalíum, súrefni, kísli, magnesíum, járni, títan, kalsíni, áli og vetni. Undir henni er svo möttull. Hann er gerður að mestu leyti úr sílíkati. Möttullinn er nánast allt rúmmál tunglsins, svo segja má að tunglið sé að mestu úr sílíkati. Ekki eru menn alveg vissir um hvort kjarninn er fljótandi eða fastur, en menn telja þó frekar að hann sé fljótandi. Ástæðan fyrir því er sú, að nokkrir “tunglskjálftamælar” sem var komið fyrir á tunglinu, sýndu að þegar loftsteinn rakst á það fóru P-bylgjurnar sem mynduðust við áreksturinn í gegnum tunglið en ekki S-bylgjurnar.

Kvartilaskipti[breyta | breyta frumkóða]

Kvartilaskipti tunglsins

Sólin skín ávallt á helming tunglsins (nema í tunglmyrkvum) og þess vegna sjáum við aðeins þann hluta tunglsins. Þegar talað er um fullt tungl þýðir það að sólin skín akkúrat á þann helming tunglsins sem við sjáum frá jörðinni. Þegar sólin skín á hina hliðina er talað um nýtt tungl.

Fyrsta kvartil er þegar tunglið er að vaxa, en er ekki orðið hálft. Á öðru kvartili er það einnig vaxandi, en þá er það meira en hálft. Ef tunglið er á þriðja kvartili þýðir það að það er byrjað að minnka, en komið niður í að verða hálft tungl og loks þegar tunglið er á fjórða kvartili er það orðið minna, en helmingurinn sem lýsir og minnkar..[4]

Heiðgult himinfé,
höfði kinkandi.
Alveg eins og C,
er þá minnkandi.
— Minniskvæði eftir Örn Snorrason (Aquila) til að muna að skarður máni er vaxandi, þegar broddarnir vísa í austur, en tungl er minnkandi, er til vesturs snýr.


Tunglferðir[breyta | breyta frumkóða]

Buzz Aldrin á tunglinu

Draumurinn um að maður kæmist á tunglið varð að veruleika þann 21. júlí 1969 þegar menn um borð í geimferjunni Apollo 11 stigu á tunglið. Fyrstur til þess að vinna þetta afrek var Bandaríkjamaðurinn Neil Armstrong og annar var Edwin Aldrin, sem einnig var um borð í Apollo 11. Þeir tóku margar myndir af tunglinu og útsýninu þaðan. Þeir söfnuðu líka ryki og bergi og komu með til jarðar til rannsókna.[5] Þetta átti eftir að vera mjög fróðlegt fyrir vísindamenn og aðra sem þyrstu í að vita meira um tunglið, upphaf þess, gerð og jafnvel endalok þess. Alls hafa 12 menn stigið fæti á tunglið, allir á árunum 1969-1972.[6] Þessir tólf menn voru um borð í 6 Apollo geimförum. Apollo geimförin samanstóðu af þremur hlutum: stýrieiningu, þjónustueiningu og tunglfari.

Áður en Apollo geimförin hófu sig á loft höfðu menn þó náð að koma mannlausum geimförum til tunglsins og safnað sýnum. Þetta voru sovésk geimför sem kölluðust Luna-geimför, og það fyrsta lenti á tunglinu árið 1959. Ári síðar lenti bandarísk geimferja þar og svo aftur árið 1966 með Lunar-Orbiter verkefninu. Lunar-Orbiter hjálpaði til við val á lendingarstað Apollo geimfaranna með því að taka fyrstu hágæða myndir af yfirborði tunglsins..[7]

Eitt og annað[breyta | breyta frumkóða]

  • Fullt tungl rís við sólsetur, nýtt tungl rís við dögun.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/tunglid ; Tunglið í tölum
  2. 2,0 2,1 Ritað með litlum staf, samanber Sérnöfn skal rita með stórum staf: Undantekning 2
  3. http://www.visindavefur.is/svar.asp?id=1652
  4. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/tunglid; Kvartilaskipti tunglsins
  5. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/geimferdir/apollo-geimaaetlunin/; Tunglferðir
  6. Ridpath, Ian. 2001. Encyclopedia of the universe. Collins, UK. Bls 213
  7. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/tunglid; Risastór og forvitnilegur steingerfingur

Netheimildir sóttar 8.11.2006

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu
Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist


Sólkerfið
Sólin | Merkúr | Venus | Jörðin (Tunglið) | Mars | Smástirnabeltið
Júpíter | Satúrnus | Úranus | Neptúnus | Plútó | Kuiper-beltið | Oort-skýið
Sjá einnig stjarnfræðileg fyrirbæri, og fyrirbæri í sólkerfinu, eftir radíus og massa