Bjór á Íslandi
Bjór á Íslandi er bjór sem er framleiddur af íslenskum brugghúsum. Stærstu framleiðendurnir eru Ölgerðin Egill Skallagrímsson í Reykjavík og Coca-Cola European Partners Ísland (Viking) á Akureyri. Langmest af þeim bjór sem framleiddur er á Íslandi er ljós lagerbjór með 4,5-5,5% áfengismagn. Af 18 milljónum lítra af áfengum bjór sem seldust hjá ÁTVR á Íslandi árið 2022, voru 17 milljón lítrar lagerbjór og aðeins 1 milljón lítra aðrar tegundir af bjór.[1]
Sala á áfengu öli var bönnuð á Íslandi frá upphafi bannáranna 1915 til 1. mars 1989 sem var kallaður „bjórdagurinn“ eða „B-dagurinn“ og þykir sumum við hæfi að gera sér dagamun á þeim degi. Íslenska ríkið hefur einkarétt á smásölu áfengis og er salan í höndum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR), þó með þeirri undantekningu að lítil brugghús mega selja bjór beint frá framleiðslustað. Áfengisgjald sem er lagt á bjór á Íslandi er það fjórða hæsta í Evrópu, á eftir Tyrklandi, Svíþjóð og Noregi (miðað við 2022); en Finnland og Bretland eru með lítið eitt lægra gjald.[2]
Á 21. öld hefur uppgangur örbrugghúsa einkennt bjórframleiðslu á Íslandi. Tugir minni brugghúsa starfa um allt land og framleiða mjög fjölbreyttar tegundir bjórs. Dæmi um það eru tékkneskir pilsnerar frá Kalda, mikið humlaðir bjórar eins og Bríó frá Borg brugghúsi, eða sterkir og bragðmiklir imperial stout-bjórar eins og Lava frá Ölvisholti eða Skeggi frá Litla brugghúsinu. Örbrugghús hafa líka sett á markað óhefðbundna áfenga drykki eins og mjöð (frá Öldur), eplavín (frá Húsavík Öl) eða villigerjaðan bjór (frá Grugg & Makk). Brugghús eins og Brothers Brewery í Vestmannaeyjum og Bryggjan brugghús í Reykjavík hafa gert tilraunir með rekstur bruggkráa þar sem bjórinn er bruggaður á staðnum. Árið 2022 fékk Smiðjan brugghús í Vík í Mýrdal, fyrst örbrugghúsa, leyfi til að selja bjór beint frá framleiðslustað, óháð einkarétti Vínbúðarinnar til smásölu áfengis.
Saga bjórs á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Öl, mungát og bjór
[breyta | breyta frumkóða]Öl var helsti áfengi drykkurinn á Íslandi fram eftir öldum og ölhitun þekktist á landinu frá landnámi. Öl var ýmist kallað öl eða mungát. Hluti innihaldsefna fyrir ölgerðina, eins og malt og mjaðarlyng (pors), var innfluttur, en hugsanlega hafa innlendar jurtir á borð við vallhumal, mjaðjurt og augnfró verið notaðar til að krydda ölið í stað mjaðarlyngs.[3] Þetta óhumlaða öl gat skemmst vegna skjaðaks. Ölgögn til að gera öl voru til víða og jafnvel sérstök hituhús þar sem bruggunin fór fram. Heimildir eru til um bruggun öls á biskupsstólunum og í klaustrunum. Malt virðist hafa verið álitin nauðsynjavara.[4]
Á miðöldum var farið að nota orðið „bjór“ yfir innflutt öl kryddað með humlum fremur en mjaðarlyngi eða öðrum jurtum. Þetta innflutta öl hafði mun meira geymsluþol en hið innlenda.[5] Innflutta ölið var kallað Prýssing, Hamborgaraöl, Rostokkaröl og Lýbikuöl eftir uppruna þess, en hefðbundna mjaðarlyngsölið porsöl eða porsmungát til aðgreiningar. Íslendingar keyptu öl bæði af verslunarskipum og duggurum (sem drukku það nær eingöngu þar sem það skemmdist síður en vatn í tunnum). Heimildir geta þess að Íslendingar hafi verið svo sólgnir í innflutt öl, að þegar kaupstefnur voru hafi þeir sest að hjá skipum kaupmanna og drukkið þar til birgðirnar voru uppurnar. Eftir að hert var á einokunarversluninni undir lok 17. aldar varð brennivín algengari drykkur þar sem hagkvæmara var fyrir kaupmanninn að flytja það inn.
Um miðja 18. öld ritaði Eggert Ólafsson að öldrykkja og ölbruggun væru að mestu aflögð á Íslandi þar sem brennivínið hefði alveg tekið yfir. Eggert skrifaði bókina Potologia meðal annars til að kenna Íslendingum ölbruggun, svo þeir hættu að drekka brennd vín, en skaðsemi þeirra rekur hann í löngu máli í bókinni.
... en ógæfa landsmanna vaknaði er framandi farmenn færðu þeim fyrst brennuvín og hældu því. Létum vér ginna oss til að ljá vist slíkum voðadrykki en á dyr reka hinn saklausa og nytsama. Ég sýnda fyrir skömmu hættu og skaðsemi brennuvínsins; en ætla nú að sýna þvers að móti dygðir og gagnsemdir ölsins, ef ske mætti það nokkrir vildu sig af skynseminni vinnast láta til að gjöra aftur umskipti þessara tveggja drykkja. “
— Potologia Islandorum, 1761 .
19. öldin
[breyta | breyta frumkóða]Á 19. öldinni jukust vinsældir bjórs aftur, einkum innflutts bjórs frá Þýskalandi og Danmörku, en líka enskra tegunda. Mikið hefur verið framleitt af bjór í heimahúsum ef miðað er við magn innflutts maltextrakts á þessum tíma. Bakarar brugguðu öl til að viðhalda geri sem þeir notuðu til brauðgerðar og gátu þá selt aukaafurðina, ölið, sérstaklega á stöðum utan Reykjavíkur þar sem innfluttur bjór var sjaldséðari.[6] Einhverjar tilraunir voru til ölgerðar í atvinnuskyni í Reykjavík, meðal annars í húsi Ísafoldarprentsmiðju af Guðmundi Lambertsen kaupmanni sem rak þar litla verslun eftir miðja öldina. Fram að áfengisbanninu var bjór seldur í almennum verslunum.
Árið 1891 var fyrsti ölskatturinn settur á í Danaveldi og miðaðist við allt öl með meira en 2,25% vínandamagn. Léttöl var þá auglýst sem „skattefri“. Árið 1917 var nýtt skattþrep tekið upp fyrir lager léttöl en undanþegið var þá aðeins yfirgerjað öl, hvítöl og svokallað skipsöl. Ölgerðir sem auglýstar voru í íslenskum dagblöðum um og eftir aldamótin 1900 voru lageröl eða „bajerskt öl“, porter, maltextrakt (maltöl), Vínaröl, hvítöl, pilsner og export (sterkt öl) frá dönsku brugghúsunum Carlsberg, Tuborg, Marstrands bryggerier og De forenede bryggerier.
Bjórbannið
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1915 gekk algjört áfengisbann í gildi á Íslandi, en árið 1922 var leyft að selja léttvín vegna viðskiptasamninga við Spán. Þann 1. febrúar 1935 var bannið afnumið alveg fyrir flestar tegundir áfengis í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu nema áfengt öl. Ástæður þess eru flóknar: Í upphaflegum drögum að fremur ströngum áfengislögum árið 1934 var gert ráð fyrir því að hægt yrði að heimila framleiðslu á áfengu öli í landinu, en annars var í lögunum lagt bann við framleiðslu alls áfengis. Pétur Ottesen, sem mælti fyrir málstað bindindismanna, setti sig mjög upp á móti þessu ákvæði. Hermann Jónasson forsætisráðherra sagðist þá vera mótfallinn innflutningi á áfengu öli þar sem það myndi kosta landið gjaldeyri sem að mestu rynni til Danmerkur. Ákvæðinu var þá breytt í bann við innflutningi á áfengu öli. Rökin sem ýmsir ræðumenn færðu fyrir þessu eftir á voru þau að bjórdrykkja leiddi til áfengisfíknar meðal unglinga, að ölið sem er ódýrara en sterka vínið yki áfengisdrykkju meðal verkafólks, og að auðvelt myndi reynast að stemma stigu við smygli á öli, en meginröksemd stuðningsmanna laganna var sú að þau myndu uppræta heimabrugg og smygl á áfengi. Eftir stóð að þegar lögin voru samþykkt var í þeim lagt bann við innflutningi og sölu á áfengu öli.
Ljóst léttöl (oft kallað „pilsner“), óáfengur mjöður, maltöl og dökkt öl sem er kallað ýmist hvítöl eða jólaöl, var framleitt á bannárunum og framleiðslan hélt áfram eftir 1935. Mörkin voru dregin við 2,25% vínandamagn. Ölgerðin Egill Skallagrímsson var stofnuð árið 1913 þegar fyrir lá að af áfengisbanninu yrði þannig að hún framleiddi til að byrja með aðeins óáfengt öl. Ölgerðin Þór var stofnuð í Reykjavík 1930 og keppti við Egil um sölu á léttum bjór og lageröli þangað til Egill eignaðist Þór árið 1932. Árið 1966 hóf Sana hf á Akureyri framleiðslu á léttöli. Árið 1978 sameinaðist það reykvíska dreifingarfyrirtækinu Sanitas.
Á stríðsárunum fékk Ölgerðin undanþágu til þess að framleiða áfengan bjór, Polar Ale, fyrir breska setuliðið, og þegar Varnarliðið tók við Keflavíkurstöðinni var íslenskur bjór framleiddur til sölu þar með sérstakri undanþágu.[7] Þessi bjór var 4,5% að styrkleika og nefndist einfaldlega Export Beer, en landsmenn nefndu hann Egil sterka til 1960 þegar hann var nefndur Polar Beer. Árið 1966 hóf Sana hf. á Akureyri einnig framleiðslu áfengs öls til útflutnings sem nefndist Thule Export. Árið 1984 kom síðan Viking Beer á markað. Þessi bjór var mest fluttur út auk þess sem erlend sendiráð höfðu undanþágu frá bjórbanninu og hægt var að kaupa hann í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli til neyslu á staðnum.
Árið 1965 var áhöfnum flugvéla og flutningaskipa leyft að taka með sér takmarkað magn bjórs inn í landið. Þann 15. desember 1979 keypti Davíð Scheving Thorsteinsson kassa af bjór í fríhöfninni á leið sinni til landsins og bar fyrir sig jafnræðisreglu þegar hann var stöðvaður í tollinum.[8] Eftir það var öllum ferðamönnum til landsins leyft að taka með sér ákveðið magn bjórs, en það ár (1980) fengust þar einungis þrjár tegundir af innfluttum bjór: Löwenbräu, Beck's og Carlsberg. Íslenskur bjór hafði ekki fengist þar um nokkurt skeið.
Oft var deilt um bjórbannið og lagafrumvörpum var stefnt gegn því nokkrum sinnum, en þau fengust aldrei samþykkt. Árið 1961 lagði Pétur Sigurðsson alþingismaður fram frumvarp um það að leyft yrði að brugga áfengt öl til sölu innanlands. Flutningsmenn voru Pétur og nokkrir aðrir þingmenn. Það náði ekki fram að ganga. Árið 1965 lagði hann aftur fram frumvarp þess efnis, en það fór sömu leið.[9] Eftir 1970 voru stofnuð fyrirtæki um innflutning og sölu vín- og ölgerðarefna sérstaklega ætluðum fyrir heimabruggun. Þó nokkuð var deilt um þennan innflutning og rætt um að banna hann. Árið 1978 kom germálið upp þegar fjármálaráðuneytið lagði til að allt ger yrði tekið af svokölluðum „frílista“ yfir vörur sem hver sem er mátti flytja inn. Ríkið hafði raunar haft einkasölu á geri frá breytingu sem gerð var á áfengislögunum 1928 til 1970 eða þar um bil þegar innflutningur á geri var gefinn frjáls. „Gereyðingarfrumvarpið“ svokallaða dagaði samt uppi á þingi, rétt eins og bjórfrumvörpin.
Ein frægust verksmiðja á Akureyri er bjórgerðin, ekki þó vegna þess að hún selji drykkhæfan bjór heldur af því hún er af yfirvöldunum látin hella niður drykkhæfum bjór. Þetta iðnfyrirtæki starfar undir löggjöf sem skyldar það til að framleiða svikna vöru, svokallað :„pissuvatn“ í stað öls handa íslendíngum. Sem sjá má er nafngiftin frá dönum nokkrum sem urðu fyrir þeirri reynslu að smakka þennan vökva. Á dögunum varð af misgáníngi úr þessu eitthvað sem líktist drykkhæfum bjór. Lögreglan á Akureyri sat fyrir hjá ljósmyndara, einkennisklædd, meðan hún var látin vera að hella niður þessu voðalega eitri í tonnatali; því bjór er sú eina tegund eiturs sem bannað er með lögum að hafa um hönd á Íslandi - að arseniki ekki undanskildu. “
— Hernaðurinn gegn landinu, eftir Halldór Laxness, 1970. .
Árið 1983 var kráin Gaukur á Stöng opnuð í Reykjavík. Þetta var ölkrá að þýskri fyrirmynd. Þar sem ekki var heimil sala bjórs tóku eigendur staðarins upp á því að selja svokallað bjórlíki, blandaðan drykk sem minnti á bjór en flestum bar saman um að stæðist ekki samanburð við fyrirmyndina. Bjórlíkið varð þó svo vinsælt að ástæða þótti til að banna sölu þess árið 1985.
Eftir bjórbannið
[breyta | breyta frumkóða]Banni við sölu bjórs var aflétt 1. mars 1989. Fyrsta daginn fengust fimm bjórtegundir í Vínbúðum í Reykjavík: Egils Gull frá Ölgerðinni, Löwenbräu, Sanitas Pilsner og Sanitas Lageröl frá Sanitas, og Budweiser frá Bandaríkjunum; en fljótlega bættust við innfluttu tegundirnar Kaiser Premium frá Austurríki, og Tuborg og seinna Pripps frá Danmörku.[10] Fljótlega eftir það varð bjór aftur vinsælasti áfengi drykkur landsins, einkum lagerbjór. Síðasta áratug hafa vinsældir annarra bjórtegunda aukist með tilkomu nýrra innlendra tegunda.
Á 10. áratugnum var samkeppni milli ölgerðana hörð og allt kapp lagt á að tryggja markaðshlutdeild vörumerkja þeirra (Egils Gull, Viking og Thule) í ljósum lagerbjór. Oft tók samkeppnin á sig skrýtnar myndir þar sem ekki var leyfilegt að auglýsa með hefðbundnum hætti. Árið 1994 breytti Sanitas nafni sínu í Víking hf (eftir vinsælustu bjórtegund fyrirtækisins) og 1997 sameinaðist það Sól hf. Árið 2001 sameinaðist þetta fyrirtæki Vífilfelli. Bruggverksmiðja fyrirtækisins var áfram rekin á Akureyri.
Árið 2006 var fyrsta örbrugghús landsins, Bruggsmiðjan, opnað á Árskógssandi við Eyjafjörð. Tvö örbrugghús bættust síðan við árið 2007: Mjöður ehf. í Stykkishólmi og Ölvisholt brugghús í Flóahreppi. Stóru bruggverksmiðjurnar brugðust við uppgangi handverksbrugghúsa hvor með sínum hætti. Árið 2010 hóf örbrugghúsið Borg brugghús starfsemi innan vébanda Ölgerðarinnar og árið eftir hóf verksmiðja Vífilfells á Akureyri framleiðslu á handverksbjórnum Einstök fyrir bandarískt flökkubrugghús. Árið 2018 voru Samtök handverksbrugghúsa stofnuð á Íslandi og árið 2023 voru félagar í samtökunum 26 talsins. Þessi minni brugghús hafa litla framleiðslugetu miðað við stóru bruggverksmiðjurnar tvær en geta nýtt sér sveigjanlegri framleiðslulínu til að bregðast hraðar við þróun markaðarins. Þau stunda einnig útflutning í litlum mæli.
Einkaréttur á sölu
[breyta | breyta frumkóða]Sem fyrr segir hefur íslenska ríkið einkarétt á smásölu áfengra drykkja í smásöluverslunum og rekur í þeim tilgangi Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR). Samkvæmt áfengislögum sem sett voru 1998 þarf leyfi til innflutnings til endursölu, heildsölu, smásölu eða framleiðslu áfengis á Íslandi.[11] Undantekning er að öllum er frjálst að flytja inn áfengi til eigin nota svo fremi að ekki sé verslað af innlendum seljanda. Samkvæmt 10. grein þeirra laga hefur ÁTVR einkarétt á smásölu áfengis. Skilningur flestra á þessu er sá að að einkaaðilar geta einvörðungu stundað endursölu á sviði heildsölu áfengis eða áfengisútsölu en það þýðir að áfengisins sé neytt á staðnum. Hins vegar hefur oftar en einu sinni verið sett fram frumvarp til laga um sölu léttvíns og bjórs í almennum verslunum en það hefur ekki náð að ganga fram.[12]
Sumarið 2022 tók gildi lagabreyting þar sem örbrugghúsum með innan við hálfrar milljón lítra framleiðslugetu er heimilt að selja bjór beint frá framleiðslustað. Fyrsta brugghúsið sem fékk leyfi til smásölu bjórs samkvæmt þessum lögum var Smiðjan brugghús á Vík í Mýrdal sem hóf sölu 14. júlí 2022.[13]
Deilt hefur verið um leyfi til að kaupa áfengi í gegnum vefverslanir sem eru staðsettar erlendis í krafti reglna sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Ýmsir innlendir aðilar hafa farið þá leið að selja áfengi með vefverslunum sem eru skráðar erlendis, en eru með lager á Íslandi og geta afhent vöruna nánast samdægurs. Þetta skapar misræmi í reglum sem hefur verið túlkað ýmist að um sé að ræða lögbrot eða að þetta sé lögmæt starfsemi. Tilraun til lagasetningar um þessa verslun árið 2023 náði ekki í gegn á Alþingi.[14] Árið 2021 kærði ÁTVR tvær vefverslanir fyrir að brjóta gegn einkaleyfi ríkisins á smásölu áfengis[15] en málinu var vísað frá í héraði og fjármálaráðuneytið ákvað að áfrýja dómnum ekki.[16]
Neysla
[breyta | breyta frumkóða]Í könnunum sem gerðar voru árið 2002 sagðist 62% svarenda á aldrinum 15-80 ára hafa drukkið bjór einu sinni eða oftar á síðastliðnum þremur mánuðum.[17] Eftir að sala bjórs var lögleidd hefur seldum alkóhóllítrum sterks áfengis fækkað um meira en helming en heildarsala alkóhóllítra aukist um 50%. Samkvæmt Lýðheilsustöð er „meiri áfengisneysla síðustu ára […] að stórum hluta vegna aukinnar neyslu á bjór. Íslenskir karlmenn eru að jafnaði að drekka áfengi mun oftar en áður og stærri hluti kvenna drekka nú áfengi en áður.“[18]
Bjórneysla á mann á Íslandi var árið 2007 meiri en í Noregi og Svíþjóð en minni en í flestum öðrum Evrópulöndum.[19] Erfitt er að aðgreina neyslu erlendra ferðamanna á Íslandi, en heildarneysla áfengis dróst þó ekki verulega saman í COVID-faraldrinum 2020 og jókst raunar 2021.[20] Frá 2007 dróst áfengisneysla tímabundið saman samkvæmt tölum OECD [21] og var árið 2010 lítið meiri en áfengisneysla á Ítalíu og nokkuð minni en neysla í Noregi og Svíþjóð. Eftir 2013 jókst hún aftur og var árið 2022 svipuð og á Ítalíu og í Serbíu, meiri en í Noregi, en minni en í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi.[22] Ef bjórneysla er skoðuð sérstaklega kemur þó í ljós að Íslendingar drekka meiri bjór en Norðurlandaþjóðirnar, og eru þar í hópi með Írum, Spánverjum, Búlgörum og Belgum (miðað við 2022).
Auglýsingar
[breyta | breyta frumkóða]Vegna banns við áfengisauglýsingum hafa sum brugghús á Íslandi farið þá leið að framleiða léttöl með minna en 2,25% áfengismagn sem heita sama nafni og nota sama merki og sterkari tegundin. Orðið „léttöl“ eða áfengisprósenta koma þá fyrir með smáu letri einhversstaðar á auglýsingunni. Oft er síðan nánast ómögulegt að finna léttölið í búðum vegna þess hve lítið er framleitt af því, ef nokkuð, enda megintilgangurinn aðeins að auglýsa hina eiginlegu bjórtegund.
Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum voru stofnuð árið 2008. Samtökin berjast gegn ólöglegum áfengisauglýsingum, meðal annars aðferðum bjórframleiðenda til að fara á svig við lögin og birtingu áfengisauglýsinga frá íslenskum aðilum á samfélagsmiðlum.
Íslensk brugghús
[breyta | breyta frumkóða]- 6a Kraftöl á Akureyri (stofnað 2021)
- Austri brugghús á Egilsstöðum (stofnaður 2017)
- Álfur brugghús í Garðabæ (stofnað 2018)
- Beljandi brugghús á Breiðdalsvík (stofnaður 2017)
- Bjórsetur Íslands á Hólum í Hjaltadal (stofnað 2007)
- Borg brugghús í Reykjavík (stofnað 2010 innan Ölgerðarinnar)
- Brothers Brewery í Vestmannaeyjum (stofnað 2013 sem heimabruggarar í kjallara, fengu framleiðsluleyfi í byrjun árs 2016)
- Bruggsmiðjan á Árskógsströnd í Eyjafirði (stofnuð 2006)
- Bryggjan brugghús bruggkrá í Reykjavík (stofnuð 2015, gjaldþrota 2020, endurreist 2021)
- Böl brugghús í Reykjavík (stofnað 2019 sem flökkubrugghús, hætti 2024)
- Coca Cola European Partners Ísland í Reykjavík (stofnað sem Vífilfell 1942, sameinaðist Sól-Víking undir merkjum Vífilfells og hóf þá fyrst ölframleiðslu)
- Dokkan Brugghús á Ísafirði (stofnuð 2017)
- Einstök Ölgerð á Akureyri (stofnað 2010 innan Vifilfells)
- Galdur brugghús á Hólmavík (stofnað 2022 með tækjum frá Steðja)
- Grugg & Makk (villibjórgerð með örverum úr íslenskri náttúru stofnað 2022)
- Gæðingur Öl (stofnað 2011 í Skagafirði, flutti í Kópavog 2018)
- Húsavík Öl á Húsavík (stofnað 2017)
- Lady Brewery í Reykjavík (stofnað 2017 sem flökkubrugghús)
- Litla brugghúsið í Garði (stofnað 2020)
- Malbygg í Reykjavík (stofnað 2017)
- Mjöður ehf. í Stykkishólmi (stofnaður 2007, hætti starfsemi 2011 og tækin keypt af Steðja)
- Múli craft brew á Egilsstöðum (flökkubrugghús stofnað 2020)
- RVK Bruggfélag í Reykjavík en. RVK Brewing Co. (stofnað 2017)
- Sanitas (stofnað í Reykjavík 1905, sameinaðist Sana og flutti til Akureyrar 1978 og hóf þá fyrst ölframleiðslu)
- Segull 67 á Siglufirði (stofnaður 2015)
- Smiðjan Brugghús í Vík (stofnuð 2018)
- Steðji Brugghús í Borgarfirði (stofnað 2012 með tækjum frá Miði, lagði niður starfsemi 2022 og tækin keypt af Galdri)
- Víking hf á Akureyri (stofnað 1939 sem Efnagerð Siglufjarðar, varð Efnagerð Akureyrar 1962 og hóf ölframleiðslu sem Sana hf 1966, sameinaðist Sanitas undir merkjum þess 1978, varð Víking hf árið 1994, sameinaðist Sól hf 1997 og varð Sól-Víking, sameinaðist Vífilfelli undir merkjum þess 2001)
- Ægir Brugghús í Reykjavík (örbrugghús í Reykjavík stofnað 2015)
- Öldur í Mosfellsbæ (mjaðargerð stofnuð 2017)
- Ölgerðarhús Reykjavíkur (1912-1915)
- Ölgerðin Egill Skallagrímsson í Reykjavík (stofnuð 1913)
- Ölgerðin Óðinn í Reykjavík (stofnuð 1944)
- Ölgerðin Þór í Reykjavík (stofnuð 1930, sameinaðist Agli 1932)
- Ölverk Pizza og brugghús (stofnað í Hveragerði 2017)[23]
- Ölvisholt brugghús (stofnað á bænum Ölvisholti í Flóahreppi 2007, flutti í Hafnarfjörð 2023)
Bjórmenning og félagsstarf
[breyta | breyta frumkóða]Á Íslandi eru ýmis félög og klúbbar starfandi í kringum bjórframleiðslu og bjórneyslu. Eitt það fyrsta var Bjórmenningarfélagið Kiddi sem var stofnað 2005. FÁGUN - Félag áhugafólks um gerjun var stofnað 2009 sem vettvangur fyrir heimabruggara og annað áhugafólk um bjór.[24] Nýjasta bjórfélagið er Bjórmenningarfélag Íslands stofnað 2021.[25] Samtök íslenskra handverksbrugghúsa voru stofnuð 2018 og stóðu fyrir bjórhátíð sama ár. Samtök kvenna í bruggi voru stofnuð 2020. Til eru margar bloggsíður og hlaðvörp helguð bjór. Milli 2010 og 2020 starfaði Bjórskólinn innan Ölgerðarinnar, þar sem meðal annars var hægt að smakka bjórlíki meðan farið var yfir sögu bjórs á Íslandi.
Helstu árlegu bjórhátíðir á Íslandi eru Bjórhátíðin á Hólum, Bjórhátíð Brothers Brewery í Vestmannaeyjum, og Bjórhátíð Ölverks í Hveragerði. Í Reykjavík hafa verið haldnar óreglulega ýmsar bjórhátíðir, meðal annars undir nafninu „Íslenska bjórhátíðin“ eða „The Annual Icelandic Beer Festival“.
Bjórtegundir
[breyta | breyta frumkóða]Íslenskar bjórtegundir skipta hundruðum. Meðal þeirra þekktustu eru Egils Gull og Boli frá Ölgerðinni, Víking Gylltur og Thule frá CCEP, Bríó frá Borg (Ölgerðinni) og Einstök White Ale frá Einstök (CCEP). Kaldi frá Bruggsmiðjunni á Árskógsströnd er dæmi um þekktan bjór frá örbrugghúsi, og Lava Stout frá Ölvisholti vakti mikla athygli fyrir sérstakt bragð. Dæmi eru um að þekktar erlendar bjórtegundir, eins og til dæmis Carlsberg og Löwenbräu, hafi verið framleiddar á Íslandi með sérleyfi. Síðustu ár hefur tegundum áfengislausra bjóra fjölgað.
Uppgangur örbrugghúsa á Íslandi síðustu ár hefur getið af sér mikla fjölbreytni í vöruúrvali. Færst hefur í vöxt að þau framleiði sérmerktar bjórtegundir til sölu á vegum tiltekinna fyrirtækja.
Auk reglulegra tegunda hefur um margra ára skeið verið hefð fyrir því hjá brugghúsunum að framleiða jólabjóra sem eru ólíkir frá ári til árs. Sum þeirra framleiða líka páskabjóra og jafnvel þorrabjóra. Oft eru þessir árstíðabundnu bjórar sterkari, bragðmeiri og/eða tilraunakenndari en venjulegu bjórarnir.
Hvítöl eða jólaöl er sætt, óáfengt öl sem algengt er að drekka á jólum á Íslandi. Í Reykjavík fæst þetta öl frá Ölgerðinni Egill Skallagrímsson, en áður fyrr var því tappað á brúsa sem fólk kom með sjálft. Maltöl er óáfengt öl sem á sér langa sögu á Íslandi. Egils pilsner er ljóst léttöl sem á sér líka langa sögu.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Ársskýrsla 2022: Sundurliðanir“. ÁTVR. 2023.
- ↑ „Tax: Excise taxes on alcoholic beverages“. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin.
- ↑ Behre, Karl-Ernst, „The history of beer additives in Europe — A review“, Vegetation History and Archaeobotany, vol. 8 nr. 1-2: júní 1999, Springer Verlag: Heidelberg, s. 35-48 (Springer[óvirkur tengill]).
- ↑ Guðbrandur Jónsson, „Ölgerð“, Iðnsaga Íslands II, ritstj. Guðmundur Finnbogason, Reykjavík: Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík, 1943, s. 94-103.
- ↑ Sv.G., „Áfengt øl á Íslandi - um ölgerð og öl neyslu Íslendinga fyrr og nú“, Morgunblaðið, 273 tbl. 70. árg. 27. nóvember 1983, s. 20-22 (Tímarit.is[óvirkur tengill]).
- ↑ Guðbrandur Jónsson, op. cit., s. 105-106.
- ↑ PLE, „Öl bætir, öl kætir: Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf. 75 ára“, Morgunblaðið blað B, 87. tbl. 76. árg., 17. apríl 1988, s. 10-12 (Tímarit.is[óvirkur tengill]).
- ↑ „Davíð vill fá ölið sem hann keypti í fríhöfninni - með dómi ef þörf krefur“, Morgunblaðið, 11. tbl. 67. árg., 15. janúar 1980, s. 48 (Tímarit.is[óvirkur tengill]).
- ↑ Sterka ölið verði leyft; frétt í Vísi 1965
- ↑ Valþór Hlöðversson, „Bjórinn kemur!“, Frjáls verslun, 2. tbl. 48. árg., 1. febrúar 1989, s. 54-60 (Tímarit.is Geymt 12 ágúst 2013 í Wayback Machine).
- ↑ Áfengislög. nr. 75 15. júní 1998
- ↑ Frumvarp til laga um breytingu ýmissa lagaákvæða sem varða sölu áfengis og tóbaks., 2. nóvember 2004
- ↑ Heimir Hannesson (13. júlí 2022). „Tímamót á morgun: Fyrsti áfengi drykkurinn seldur frá einkaaðila til einkaaðila síðan 1912“. DV.
- ↑ Viðar Guðjónsson (14.6.2023). „„Vefverslun með áfengi er lögmæt"“. Mbl.is.
- ↑ „Leiði af sér afnám einkaleyfis ÁTVR“. 9.5.2022.
- ↑ Brynjólfur Þór Guðmundsson (7.3.2023). „Málaferli sem var vísað frá dómi kostuðu ÁTVR ellefu milljónir“. RÚV.
- ↑ Áfengisneysla eftir kyni 2002, af vef Hagstofu Íslands
- ↑ Fækkar í hópi þeirra sem aldrei drekka áfengi - einkum á meðal kvenna[óvirkur tengill], Lýðheilsustöð 4. september 2009
- ↑ „Áfengisneysla 2007“, Hagtíðindi: Verðlag og neysla, 2008:3, 27. mars 2008 Geymt 11 ágúst 2013 í Wayback Machine
- ↑ „Áfengisneysla 1980-2022“. Hagstofan.
- ↑ „Non-medical determinants of health“. Sótt 16. október 2015.
- ↑ „Alcohol, total per capita (15+) consumption (in litres of pure alcohol)“. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin.
- ↑ „ABOUT US“. Ölverk (enska). Sótt 6. desember 2020.
- ↑ „Fágun“.
- ↑ „Bórmenningarfélag Íslands“.