Stjórnmálastefnur á Íslandi
Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipediu. Aðalvandamál þessarar greinar: Það vantar inngang að greininni og svo nokkrar stjórnmálastefnur eins og íhaldsstefnu og frjálshyggju og kafla um miðjumoðið. |
Jafnaðarstefna á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Þorsteinn Erlingsson skáld var einn fyrsti yfirlýsti jafnaðarmaðurinn á Íslandi, og sýndi Jón Trausti litla spádómsgáfu, þegar hann kvað jafnaðarstefnuna hérlendis sennilega fara í gröfina með Þorsteini 1914. Ólafur Friðriksson hafði kynnst hugsjónum jafnaðarmanna í Kaupmannahöfn og kynnti þær, eftir að hann sneri heim til Íslands. Hann var lengi ritstjóri Alþýðublaðsins og í forystu hinna róttækari manna Alþýðuflokksins. Hann skrifaði ritgerðina „Jafnaðarstefnuna“ í Eimreiðina 1926. Rithöfundarnir Þórbergur Þórðarson og Halldór Kiljan Laxness sneru þó sennilega fleiri til jafnaðarstefnu en nokkrir blaða- eða stjórnmálamenn í tveimur vel skrifuðum bókum, Þórbergur í Bréfi til Láru (1924) og Laxness í Alþýðubókinni (1929), sem hann færði sérstaklega jafnaðarmönnum á Íslandi að gjöf. Eftir klofning Alþýðuflokksins 1930 létu kommúnistar meira að sér kveða í fræðilegri kynningu en lýðræðisjafnaðarmenn, en sú venja myndaðist smám saman að nota orðið „jafnaðarstefnu“ aðallega um lýðræðisjafnaðarstefnu, en „félagshyggju“ um sósíalisma í víðari skilningi. Var Gylfi Þ. Gíslason ötulastur við að setja sjónarmið jafnaðarmanna á blað, til dæmis í ritinu Jafnaðarstefnunni 1949 og í endurskoðaðri útgáfu þess 1977. Brynjólfur Bjarnason skrifaði hins vegar margt um sameignarstefnu í anda þeirra Marx og Leníns. Þegar talað er um jafnaðarstefnu á Íslandi í byrjun 21. aldar, er nær alltaf átt við frjálslynda lýðræðisjafnaðarstefnu, sem hefur fyrir löngu sagt skilið við kenningar Marx. Raunar horfa íslenskir jafnaðarmenn sérstaklega til bandaríska heimspekingsins Johns Rawls, sem getur alls ekki talist sósíalisti í hefðbundnum skilningi orðsins, en hann setti fram hugmyndir um réttláta skipan mála, þar sem reynt vær að búa svo í haginn fyrir lítilmagnann sem auðið væri án þess að skerða frelsi annarra, í A Theory of Justice (1971).
Kommúnismi á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Kreppan mikla hvatti kommúnista hvarvetna til dáða. Þeir gátu bent á augljósa bresti í efnahagskerfi Vesturlanda og vísað á Sovétríkin sem fyrirmynd. Alþjóðasamband kommúnista, Komintern, laut forræði valdamanna í Moskvu og lagði línur fyrir starf kommúnista um allan heim. Eftir að Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður varð hann deild í Komintern og grundvallaratriði stefnu hans voru mótuð af leiðtogum þess og sóvéska kommúnistaflokksins. Þaðan kom fjárstuðnigur til styrktar flokksstarfinu hér á landi. Sovétmenn styrktu einnig blaða- og bókaútgáfu og ýmsa aðra menningarstarfsemi íslenskra sósíalista fram eftir 20. öldinni.
Kommúnistaflokkur Íslands var íslenskur stjórnmálaflokkur sem starfaði á árunum 1930–1938 eftir að hafa klofið sig úr Alþýðuflokknum. Brynjólfur Bjarnason var eini formaður flokksins. Kommúnistarnir stofnuðu ásamt Héðni Valdimarssyni og öðrum fylgismönnum hans úr Alþýðuflokknum Sameiningarflokk alþýðu Sósíalistaflokkinn 1938.
Kommúnistaflokkurinn var formlega hluti af alþjóðasamtökum kommúnista, Komintern.
Nasismi á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Nasisminn féll ekki í frjóan jarðveg á Íslandi. Hér starfaði Þjóðernishreyfing Íslendinga en hún klofnaði og nokkrir félagar hennar gengu til liðs við Sjálfstæðisflokkinn sem margir þeirra höfðu stutt áður. Hinir yngri og ákafari, margir ekki enn komnir með kosnigarétt, stofnuðu Flokk þjóðernissinna sem var hreinræktaður nasistaflokkur. Þeim tókst stundum að vekja á sér athygli með fánaburði og áflogum við kommúnista. Í blaði íslenskra nasista var Hitler kallaður mikilhæfasti núlifandi stjórnmálamaðurinn, sem hefði unnið slík þrekvirki að ekki þekkjast þess dæmi. Fylgi flokksins varð mest í bæjarstjórnarkosnigum í Reykjavík árið 1934, 2,8% en það voru 399 atkvæði.
Íslensk stjórnvöld voru varkár gagnvart þýsku nasistasjórninni. Líkt og víða annars staðar var gyðingum, sem hröktust undan ofsóknum í Þýskalandi, ekki tekið opnum örmum hér á landi og mörgum var neitað um landvistaleyfi.