Fara í innihald

Fimmta ráðuneyti Hermanns Jónassonar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hræðslubandalagið (Upphaflega nefnt Umbótabandalagið eða Bandalag umbótaflokkanna af stofnendum sínum) var kosningabandalag Alþýðuflokks og Framsóknarflokks í Alþingiskosningunum 24. júní 1956. Flokkarnir gerðu með sér samkomulag um að stilla ekki fram frambjóðendum gegn hvor öðrum í sömu kjördæmum. Nýta átti kjördæmaskipunina til að ná meirihluta þingmanna án þess að hafa meirihluta kjósenda á bak við sig. Það mistókst naumlega því að Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur fengu 25 þingmenn af 52 en hefðu þurft 27 til að fá hreinan meirihluta. Þennan fjölda þingmanna fengu flokkarnir tveir út á 33,9% atkvæða en höfðu fengið samanlagt 37,5% atkvæða og 22 þingmenn í kosningunum árið 1953.

Ástæður stofnunar Bandalags umbótaflokkanna, sem andstæðingarnir voru fljótir að gefa nafnið Hræðslubandalagið, voru þessar helstar:

a) Í Alþingiskosningunum 1953 munaði litlu að Sjálfstæðisflokkurinn næði hreinum meirihluta þingmanna, þrátt fyrir að fá einungis 37,1% atkvæða. Í nokkrum fámennum landsbyggðarkjördæmum þurfti Sjálfstæðisflokkurinn aðeins samtals örfá hundruð atkvæða til viðbótar við það fylgi sem hann fékk, til að vinna 6 þingmenn, sem hefði gefið honum 27 þingmenn og þar með hreinan meirihluta þingmanna í heildina.

b) Í Alþingiskosningunum 1953 fékk Alþýðuflokkurinn, í fyrsta skipti í meira en 20 ár, einungis einn kjördæmakjörinn þingmann. Ef kjör þessa eina þingmanns í Reykjavík hefði brugðist, hefði flokkurinn heldur ekki fengið þá 5 uppbótarþingmenn sem hann fékk samhliða kjördæmakjörna þingmanninum og þar með þurrkast út af Alþingi, þrátt fyrir að hafa fengið 15,6% atkvæða.

c) Það sem rak Alþýðuflokkinn og Framsóknarflokkinn til að mynda Bandalag umbótaflokkanna / Hræðslubandalagið, var viljinn til að halda Sjálfstæðisflokknum utan ríkisstjórnar og einnig (aðallega frá Alþýðuflokknum komið) að geta útilokað Sósíalistaflokkinn eða Alþýðubandalagið frá stjórnarþáttöku, en Sósíalistar höfðu fyrr á árinu 1956 tekið höndum saman með forseta Alþýðusambands Íslands og fyrrum formanni Alþýðuflokksins, Hannibal Valdimarssyni og öðrum í málfundafélagi jafnaðarmanna og myndað Alþýðubandalag sem kosningabandalag.

Hræðslubandalagið stefndi að uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin. Bandalagið var stofnað í kjölfar þess að Framsóknarflokkurinn rauf stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn 27. mars 1956.

Að loknum Alþingiskosningunum 1956 myndaði Hræðslubandalagið (þ.e. Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur) stjórn með Alþýðubandalaginu 24. júlí undir forystu Hermanns Jónassonar, formanns Framsóknarflokksins. Þrátt fyrir að formaður Alþýðuflokksins, Haraldur Guðmundsson, hefði lýst því yfir að stjórnarsamstarf við Alþýðubandalagið kæmi ekki til greina.

Ráðherrar í þriðja ráðuneyti Hermanns Jónassonar voru:

Þann 4. desember 1958 slitnaði upp úr samstarfi flokkanna í bandalaginu, eftir að hafa fært landhelgina út í 12 mílur 1. september 1958, án þess þó að hafa lokið málinu gagnvart Bretum. Alþýðuflokkurinn, undir forystu Emils Jónssonar myndaði stjórn með hlutleysi Sjálfstæðisflokks 23. desember 1958. Ekki var varnarsamningum sagt upp þó að því hefði verið stefnt.

  • „Hvað var kosningabandalag Alþýðuflokks og Framsóknarflokks árið 1956 kallað?“. Vísindavefurinn.