Orkuveita Reykjavíkur
Orkuveita Reykjavíkur | |
Rekstrarform | Sameignarfyrirtæki |
---|---|
Stofnað | Reykjavík, Íslandi (1999) |
Staðsetning | Reykjavík, Íslandi |
Lykilpersónur | Sævar Freyr Þráinsson (forstjóri)
Gylfi Magnússon (stjórnarformaður) |
Starfsemi | Hitaveita, vatnsveita, raforka, fráveita og gagnaflutningar |
Starfsfólk | 533 (fastráðin í árslok 2022) |
Vefsíða | https://orkuveitan.is |
Orkuveita Reykjavíkur er íslenskt sameignarfyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar, Akranesbæjar og Borgarbyggðar. Orkuveitan var stofnuð með lögum nr. 139/2001 um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur og starfar nú á grundvelli laga nr. 136/2013[1] um Orkuveitu Reykjavíkur. Kjarnastarfsemi Orkuveitunnar felst í rekstri rafveitu, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu auk framleiðslu og sölu á rafmagni og heitu vatni og köldu[2].
Auk þess annast dótturfélög rekstur ljósleiðara (Ljósleiðarinn ehf.) og föngur og förgun koldioxíðs (Carbfix hf.)
Skipulag
[breyta | breyta frumkóða]OR er sameignarfyrirtæki í eigu þriggja sveitarfélaga; Reykjavíkurborgar (94%), Akraneskaupstaðar (5%) og Borgarbyggðar (1%). Framkvæmdastjórar sveitarfélaganna; borgarstjórinn í Reykjavík, bæjarstjórinn á Akranesi og sveitarstjóri Borgarbyggðar, fara með atkvæði þeirra á aðalfundi. Gylfi Magnússon er stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. Aðrir stjórnarmenn eru Vala Valtýsdóttir varaformaður, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Skúli Helgason, Þórður Gunnarsson og Valgarður Lyngdal Jónsson. Guðveig Lind Eyglóardóttir er áheyrnarfulltrúi Borgarbyggðar og Unnur Líndal Karlsdóttir áheyrnarfulltrúi starfsfólks.
Forstjóri Orkuveitunnar er Sævar Freyr Þráinsson og framkvæmdastjórar innan móðurfélagsins eru þrír: Benedikt K. Magnússon, framkvæmdastjóri fjármála, Ellen Ýr Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs og menningar, og Hera Grímsdóttir, framkvæmdastjóri rannsókna og nýsköpunar.
Forstjórar Orkuveitunnar frá upphafi:
[breyta | breyta frumkóða]- Guðmundur Þóroddsson, 1999-2008 (en í leyfi vegna starfa fyrir Reykjavík Energy Invest frá hausti 2007).
- Hjörleifur Kvaran 2008-2010 (og leysti áður Guðmund Þóroddsson af frá 2007).
- Helgi Þór Ingason, ágúst 2010-febrúar 2011 (ráðinn til bráðabirgða).
- Bjarni Bjarnason, febrúar 2011-apríl 2023.
- Sævar Freyr Þráinsson, frá apríl 2023.
Starfsemi
[breyta | breyta frumkóða]Hitaveita
[breyta | breyta frumkóða]Á höfuðborgarsvæðinu rekur Orkuveitan stærstu jarðhitaveitu í heimi auk smærri veitna á sunnan- og vestanverðu landinu. Stærsta uppspretta vatns í hitaveiturnar er Nesjavallavirkjun, sem hefur 300 MW varmaafl. Í fjölda lághitasvæða, þar sem Reykjadalur í Mosfellsbæ telur mest, eru sótt 600 MW afls og í Hellisheiðarvirkjun eru framleidd 133 MW af heitu vatni.
Rafveita
[breyta | breyta frumkóða]Raforkudreifing Orkuveitunnar nær til liðlega helmings landsmanna í fimm sveitarfélögum við Faxaflóa; Reykjavík, Kópavogi, Mosfellsbæ, Akranesi og Garðabæ.
Vatnsveita
[breyta | breyta frumkóða]Orkuveita Reykjavíkur rekur 13 vatnsveitur á starfssvæði sínu auk þess að selja neysluvatn í heildsölu til tveggja að auki, samtals til meira en helmings þjóðarinnar.
Fráveita
[breyta | breyta frumkóða]Orkuveitan á fráveitur í sex byggðarlögum og rekur dælustöðvar fyrir tvö sveitarfélög til viðbótar. Alls þjónar Orkuveitan liðlega helmingi þjóðarinnar í fráveitumálum.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Orkuveita Reykjavíkur var stofnuð 1. janúar 1999, með sameiningu Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Reykjavíkur. Rafmagnsveita Reykjavíkur var stofnuð árið 1921, en Hitaveita Reykjavíkur varð að sjálfstæðu fyrirtæki árið 1946. Árið 2000 sameinaðist Vatnsveita Reykjavíkur Orkuveitunni, en vatnsveitan tók til starfa 16. júní 1909. Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi vatnsveitustjóri, var ráðinn fyrsti forstjóri Orkuveitunnar.
Þann 1. maí 2000 tók Orkuveitan við rekstri Hitaveitu Þorlákshafnar. Um áramótin 2001-2002 sameinuðust veiturnar á Akranesi og hitaveiturnar í Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit Orkuveitu Reykjavíkur. Þá bættist hitaveitan á Bifröst við fyrirtækið. Jafnframt var Orkuveitunni breytt úr borgarfyrirtæki í sameignarfyrirtæki og voru eigendurnir Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður, Hafnarfjörður, Garðabær, Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit. Garðabær seldi sinn hlut í fyrirtækinu í árslok 2002.
Á árinu 2004 sameinuðust Austurveita, Hitaveita Hveragerðis og Ölfusveita Orkuveitunni. Í byrjun ársins 2006 sameinuðust fráveitur Reykjavíkur, Akraness, Borgarbyggðar og Borgarfjarðarsveitar Orkuveitu Reykjavíkur.
Deilur í október 2007
[breyta | breyta frumkóða]Í október 2007 spunnust miklar deilur um fyrirhugaða sölu á eignarhlut Orkuveitunnar í Reykjavik Energy Invest, og lyktaði þeim með því að borgarstjórnarmeirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins féll.
Dótturfélög
[breyta | breyta frumkóða]Dótturfélög Orkuveitunnar eru sjö: Veitur, OR-Vatns- og fráveita, Orka náttúrunnar, ON Power, Ljósleiðarinn, Carbfix og OR-Eignir. Í ársbyrjun 2014 komu til framkvæmda ákvæði raforkulaga nr. 65/2003 sem kveða á um fyrirtækjaaðskilnað sérleyfis- og samkeppnistarfsemi. Samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur var breytt í kjölfarið og stofnuð voru dótturfélög um einstaka starfsþætti Orkuveitunnar.
Veitur ohf.
[breyta | breyta frumkóða]Uppbygging og rekstur veitukerfa. Framkvæmdastjóri er Sólrún Kristjánsdóttir.
Orkuveita Reykjavíkur - Vatns- og fráveita sf.
[breyta | breyta frumkóða]Uppbygging og rekstur lögbundinnar veituþjónustu sveitarfélaga. Veitur sjá um alla starfsemi félagsins.
Orka náttúrunnar ohf.
[breyta | breyta frumkóða]Eignarhald og rekstur jarðvarmavirkjunar á Nesjavöllum og vatnsaflsvirkjunar í Andakílsá. Auk rafmagnsframleiðslu sjá jarðvarmavirkjanirnar höfuðborgarbúum fyrir heitu vatni. Framkvæmdastjóri er Árni Hrannar Haraldsson.
ON Power ohf.
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirtæki stofnað í áhættuvarnarskyni um starfsemi Hellisheiðarvirkjunar en starfsrækslugjaldmiðill þess er USD. Orka náttúrunnar sér um alla starfsemi.
Ljósleiðarinn ehf.
[breyta | breyta frumkóða]Uppbygging og rekstur Ljósleiðarans, háhraða gagnaflutningskerfis. Framkvæmdastjóri er Einar Þórarinsson.
Carbfix hf.
[breyta | breyta frumkóða]Rannsókna-, nýsköpunar- og ráðgjafarfyrirtæki á sviði kolefnisbindingar. Framkvæmdastýra er Edda Sif Pind Aradóttir.
Höfuðstöðvar
[breyta | breyta frumkóða]Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur eru að Bæjarhálsi 1 í Reykjavíki og fluttust þangað 23. apríl 2003 frá Suðurlandsbraut 34. Samkeppni var haldin um hönnun nýju höfuðstöðvanna og hlutu Hornsteinar og Teiknistofa Ingimundar Sveinssonar þar fyrstu verðlaun.
Kostnaður við byggingu höfuðstöðvanna fór talsvert fram úr áætlun og nam heildarkostnaður um 5.800 milljónum króna samkvæmt Morgunblaðinu, en 1.800 milljónir fengust fyrir sölu fyrri höfuðstöðva fyrirtækjanna sem voru sameinuð í Orkuveitunni.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „136/2013: Lög um Orkuveitu Reykjavíkur“. Alþingi. Sótt 4. apríl 2023.
- ↑ „Eigendastefna OR“. www.or.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. apríl 2023. Sótt 4. apríl 2023.
Tengill
[breyta | breyta frumkóða]- Vefur Orkuveitu Reykjarvíkur
- Lög nr. 136/2013 um Orkuveitu Reykjarvíkur
- Lög um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur
- Lög um hitaveitu Reykjavíkur. 1940 nr. 38 12. febrúar
- Hitaveita Reykjavíkur; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1936
- Heita vatninu hleypt í bæinn; frétt í Alþýðublaðinu 1943