Kristín Ástgeirsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Kristín Ástgeirsdóttir (fædd 3. maí 1951) er íslenskur sagnfræðingur, fyrrum þingkona Kvennalistans og fyrrverandi framkvæmdastýra Jafnréttisstofu.

Kristín var kjörin á þing fyrir Samtök um kvennalista í Reykjavíkurkjördæmi árið 1991. Hún sat á þingi til ársins 1999 en var utan þingflokka frá 1997 eftir að hluti þingflokks Kvennalista gekk í sameiginlegan þingflokk jafnaðarmanna ásamt þingflokkum Alþýðuflokks og Alþýðubandalags[1] sem varð svo undanfari Samfylkingarinnar.

Kristín fæddist í Vestmannaeyjum og voru foreldrar hennar hjónin Ástgeir Ólafsson (Ási í Bæ) rithöfundur og Friðmey Eyjólfsdóttir hjúkrunarfræðingur.

Nám og störf[breyta | breyta frumkóða]

Kristín lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1971, stundaði háskólanám í Svíþjóð frá 1971-1972 og lauk BA-prófi í sagnfræði og bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 1977. Hún stundaði framhaldsnám í sagnfræði við Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla um tíma en lauk síðar meistaraprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands eftir að þingferlinum lauk.

Frá 1980-1981 var Kristín blaðamaður á Þjóðviljanum, hún var starfskona Samtaka um kvennalista frá 1982-1985, kennari í sögu við Kvennaskólann í Reykjavík frá 1985-1991 og stundaði einnig kvennarannsóknir frá 1985-1982. Hún var alþingismaður frá 1991-1999 og starfaði fyrir Sameinuðu þjóðirnar í Kosovo frá 2000-2001, var forstöðumaður Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) frá 2005-2007 og var framkvæmdastýra Jafnréttisstofu frá 2007-2017.[2][3]

Kristín starfaði innan Rauðsokkahreyfingarinnar frá 1976-1981 og var meðal stofnenda Kvennaframboðsins í Reykjavík árið 1982 og Samtaka um kvennalista ári síðar.

Ritstörf[breyta | breyta frumkóða]

Kristín hefur í gegnum árin stundað rannsóknir á sviði kvenna- og kynjasögu og ritað fjölmargar fræðigreinar á því sviði. Meðal annars ritstýrði hún ásamt Arnfríði Guðmundsdóttur bókinni Kvennabarátta og kristin trú sem kom út árið 2009.[4]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Alþingi, „Tilkynning um úrsögn úr þingflokki“ (skoðað 29. júní 2019)
  2. Alþingi, Æviágrip - Kristín Ástgeirsdóttir (skoðað 29. júní 2019)
  3. „Jafnréttið er fjölbreytt og spennandi“ Fréttablaðið, 9. desember 2007 (skoðað 29. júní 2019)
  4. Jafnretti.is, „Kvennabarátta og kristin trú“ (skoða 29. júní 2019)