Fara í innihald

Stríðið í Tígraí

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stríðið í Tígraí

Maður gengur hjá ónýtum skriðdreka í bænum Edaga Hamus í Tígraí.
Dagsetning3. nóvember 2020 – 3. nóvember 2022
Staðsetning
Niðurstaða

Sigur eþíópísku ríkisstjórnarinnar

Stríðsaðilar

Fáni Eþíópíu Eþíópía
Fáni Eritreu Eritrea[1][2]

Vopnasalar:

Þjóðfrelsishreyfing Tígra
Leiðtogar
Fáni Eþíópíu Abiy Ahmed
Fáni Eritreu Isaias Afewerki
Debretsion Gebremichael
Fjöldi hermanna
Fáni EþíópíuFáni Eritreu ~500.000 (okt. 2022)[6] ~200.000 (okt. 2022)[6]
Mannfall og tjón
Fáni Eþíópíu 3.073 drepnir, 4.473 særðir, 8.000 teknir höndum (samkvæmt uppreisnarmönnum)[7][8]
2 MiG-23-herþotur eyðilagðar[9][10]
2 Mi-35-þyrlur eyðilagðar[11][12][13]
1 C-130-flugvél eyðilögð[14]
Fáni Eritreu Óþekkt
5.600 drepnir, 2.300 særðir, 2.000 teknir höndum (samkvæmt eþíópíska hernum)[15]

Deilt er um nákvæma tölu hinna látnu
3 verðir Sameinuðu þjóðanna og 23 hjálparstarfsmenn drepnir[16]
875.879+ manns hrakin á flótta[17] (20.000 horfin)[18]
2.750.000 á vergangi innanlands[17]
13.000.000 skortir mannúðarhjálp[19]

Dauðsföll alls:
385.000–600.000+ (samkvæmt Háskólanum í Ghent)[20]
700.000–800.000 (samkvæmt sérfræðingnum Abdurahman Sayed)[6]

Stríðið í Tígraí var borgarastyrjöld sem hófst í Eþíópíu árið 2020 og lauk árið 2022. Styrjöldin stóð annars vegar á milli alríkisstjórnar Eþíópíu, sem leidd er af Abiy Ahmed forsætisráðherra og Velmegunarflokknum, og hins vegar héraðsstjórnvalda í Tígraí-héraði, sem leidd eru af Þjóðfrelsishreyfingu Tígra (TPLF).

Aðdragandi

[breyta | breyta frumkóða]

Þjóðfrelsishreyfing Tígra (TPLF) réð að mestu yfir Eþíópíu frá árinu 1991 til ársins 2018. Hreyfingin hafði verið í forsvari Lýðræðis- og byltingarhreyfingar eþíópísku þjóðarinnar (EPRDF), hernaðarbandalags sem steypti af stóli kommúnískri einræðisstjórn Mengistu Haile Mariam árið 1991 undir lok borgarastyrjaldarinnar í Eþíópíu. Eftir fall kommúnistastjórnarinnar réð EPRDF að nafninu til yfir Eþíópíu en í reynd hafði TPLF tögl og hagldir innan bandalagsins og réði því flestu um stjórn landsins. Á stjórnartíð TPLF naut Eþíópía töluverðs friðar, stöðugleika og hagvaxtar, en aftur á móti var spilling víðtæk og þjóðernisflokki Tígra var hyglt nokkuð á kostnað annarra þjóðernisbrota landsins.

Á árunum 2015 til 2018 fóru fram fjöldamótmæli gegn eþíópískum stjórnvöldum, sem aðallega voru leidd af Orómóum og Amhörum, tveimur stærstu þjóðarbrotum Eþíópíu. Mótmælin leiddu til þess að forsætisráðherrann Hailemariam Desalegn sagði af sér og Abiy Ahmed, leiðtogi Orómó-lýðræðisflokksins (annars af aðildarflokkum EPRDF) tók við sem forsætisráðherra.

Abiy réðst fljótt í róttækar umbætur á stjórnkerfi Eþíópíu sem margar miðuðu að því að draga úr völdum TPLF. Hann lét jafnframt reka nokkra lykilmenn af Tígraí-þjóðerni úr stjórn sinni sem höfðu verið sakaðir um spillingu og valdníðslu.[21] Árið 2019 lét Abiy leggja niður Lýðræðis- og byltingarhreyfingu eþíópísku þjóðarinnar og steypa aðildarflokkum hennar saman í einn stjórnmálaflokk, Velmegunarflokkinn. TPLF var eini aðildarflokkurinn sem neitaði að taka þátt í samrunanum og hélt því áfram að starfa sem sjálfstæð hreyfing, en einungis á héraðsstjórninni í Tígraí-héraði.

Stefnt hafði verið að því að halda frjálsar þingkosningar eftir mótmælin 2018 en árið 2020 ákvað Abiy Ahmed að láta fresta kosningunum vegna COVID-19-faraldursins.[22] Þjóðfrelsishreyfing Tígra sætti sig ekki við frestun Abiy á þingkosningum vegna kórónaveirufaraldursins og hélt sínar eigin kosningar í Tígraí-héraði í september 2020 sem alríkisstjórnin mat ólöglegar.[23] Þetta skapaði spennuþrungið ástand þar sem alríkisstjórnin og héraðsstjórnin í Tígraí viðurkenndu ekki lengur lögmæti hvers annars.

Gangur stríðsins

[breyta | breyta frumkóða]
Loftárás á Mekelle í nóvember 2020.

Í nóvember árið 2020 sendi Abiy eþíópíska herinn inn í Tígraí-hérað eftir að vopnaðar sveitir Tígra réðust á eþíópíska herstöð. Debretsion Gebremichael, héraðsforseti Tígraí og leiðtogi TPLF, sagði að Tígrar skyldu búa sig undir átök gegn alríkisstjórninni og að stríðsástand ríkti nú í héraðinu.[24]

Þann 29. nóvember lýsti Abiy því yfir að stjórnarherinn hefði hertekið Mekelle, höfuðborg Tígraí-héraðs, og náð fullu valdi á héraðinu. Leiðtogar Tígraí sögðu engu að síður að þeir myndu berjast áfram til þess að verja sjálfsstjórn héraðsins.[25] Stjórnarherinn naut aðstoðar bandamanna Abiy frá nágrannaríkinu Eritreu í hernaðinum gegn Þjóðfrelsishreyfingunni. Starfsmenn Amnesty International telja að bæði eþíópíski og erítreski herinn hafi framið fjölda stríðsglæpa í átökunum og að erítreskir hermenn hafi meðal annars framið fjöldamorð á óbreyttum borgurum í borginni Aksum.[26]

Í lok júní 2020 tókst uppreisnarhreyfingum í Tígraí-héraði að endurheimta stjórn á Mekelle. Stjórn Abiy lýsti einhliða yfir vopnahléi vegna mannúðarsjónarmiða.[27]

Í byrjun nóvember 2021 lýsti Abiy yfir neyðarástandi í Eþíópíu þar sem sveitir TPLF höfðu þá hafið framrás inn í Amhara-hérað og voru farnar að ógna höfuðborginni Addis Ababa.[28] Í desember tókst Eþíópíuher hins vegar að stöðva sókn TPLF-liða og frelsa mikilvægar borgir og bæi undan hernámi þeirra.[29] Í júní 2022 skipaði Abiy nefnd til að undirbúa friðarviðræður við uppreisnarhópana.[30]

Friðarviðræður og vopnahlé

[breyta | breyta frumkóða]

Í nóvember árið 2022 komust sendinefndir ríkisstjórnar Eþíópíu og uppreisnarhópanna í Tígraí að samkomulagi um „var­an­lega stöðvun stríðsátaka“ eftir friðarviðræður í Pretoríu sem Afríkusambandið hafði milligöngu um.[31] Með samningnum var uppreisnarhreyfingum TPLF og bandamanna þeirra gert að leggja niður vopn. Byggt var á gagnkvæmu trausti til að leysa ágreiningsverkefni sem eftir stóðu og ýmis ákvæði voru háð túlkunum.[32]

Stríðsglæpir

[breyta | breyta frumkóða]
Fjöldagrafir og greftrunarathafnir eftir fjöldamorð sem framin voru í Mai Kadra árið 2020.

Báðir deiluaðilar í Tígraí-stríðinu hafa verið sakaðir um stríðsglæpi. Í september 2021 fór Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, fram á óháða rannsókn á fregnum af því að mörghundruð óbreyttra borgara hefðu verið myrt árás á bæinn Mai-Kadra í Tígraí-héraði. Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, og Debretsion Gebremichael, leiðtogi TPLF, sökuðu hvor annan um að standa fyrir ódæðinu en sjónarvottar sögðu liðssveitir hliðhollar TPLF hafa staðið fyrir morðunum.[33]

Í september 2021 birti Amnesty International skýrslu þar sem hersveitir sem studdu eþíópísk stjórnvöld voru sakaðar um að hafa beitt hundruðum kvenna og stúlkna nauðgunum og öðru kynferðislegu ofbeldi á átakasvæðunum í Tígraí-héraði.[34]

Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna birti skýrslu í nóvember 2021 þar sem herir TPLF, Eþíópíu og Eritreu voru allir sakaðir um ódæðisverk sem flokka mætti sem stríðsglæpi og glæpi gegn mannúð. Hermenn allra fylkinga voru sakaðir um árásir á byggingar eins og skóla, sjúkrahús og bænahús auk þess sem vísað var til fjölda hefndardrápa og hópnauðgana.[35]

Undir lok stríðsins, í nóvember 2022, skilaði rannsóknarnefnd á vegum Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna skýrslu þar sem báðir stríðsaðilar voru sakaðir um alvarlega glæpi á borð við aftökur án dóms og laga og nauðganir. Nefndin sagði fulla ástæðu til að ætla að brotin jafngiltu stríðsglæpum og glæpum gegn mannúð. Stjórnarherinn var jafnframt sakaður um að hafa hindrað aðgengi íbúa Tígraí að grundvallarnauðsynjum á borð við vatn, heilbrigðisþjónustu og neyðaraðstoð hjálparsamtaka.[36]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
 1. „Ethiopian PM confirms Eritrean troops entered Tigray during conflict“. Reuters. 23. mars 2021. Afrit af uppruna á 23. mars 2021. Sótt 24. mars 2021.
 2. „Eritrea confirms its troops are fighting in Ethiopia's Tigray“. Al Jazeera. 17. apríl 2021. Sótt 17. apríl 2021.
 3. „UAE air bridge provides military support to Ethiopia gov't“. Al Jazeera.
 4. 4,0 4,1 4,2 Walsh, Declan (20. desember 2021). „Foreign Drones Tip the Balance in Ethiopia's Civil War“. The New York Times (bandarísk enska). ISSN 0362-4331. Sótt 22. desember 2021.
 5. „Ethiopian prime minister in UAE as Tigray war rages on“. Toronto Star (enska). Associated Press. 30. janúar 2022. Sótt 27. október 2022.
 6. 6,0 6,1 6,2 Chothia, Farouk; Bekit, Teklemariam (19. október 2022). „Ethiopia civil war: Hyenas scavenge on corpses as Tigray forces retreat“. BBC News. Afrit af uppruna á 22. október 2022.
 7. „Ethiopia's Tigray conflict: Thousands reported killed in clashes“. BBC News. 6. september 2021. Sótt 6. september 2021.
 8. „After battlefield reversals, what next for Ethiopia's Tigray war?“. Al Jazeera. 10. júlí 2021. Sótt 14. október 2021.
 9. „Aviation Occurrence N 267277 Mig-23“. Aviation Safety Network. 6. desember 2020.
 10. Brhams, Jacob (30. nóvember 2020). „Tigray Rebels Down Jet, Capture Pilot, One Day After Ethiopian Prime Minister Declares Victory“. Overt Defense.
 11. „TDF downed A Mi-35 helicopter in central Tigray“. Global Defense Corp. 22. apríl 2021.
 12. Ranter, Harro. „Accident Mil Mi-35, 20 Apr 2021“. aviation-safety.net.
 13. „فيديو : قوات دفاع تجراى تسقط مروحية عسكرية اثيوبية وتفتح جبهة قتال جديدة فى محافظة "شرق كوجام". farajat. 12. nóvember 2021. Sótt 12. nóvember 2021.
 14. „Ethiopia: C-130 aircraft downed south of Tigray region“. monde24.com (arabíska). 6. júní 2021.
 15. „Ethiopia: Thousands of Tigray rebels killed, military claims“. BBC News. 4. september 2021. Sótt 5. september 2021.
 16. „HC a.i. statement on the killing of 23 aid workers in the Tigray region since the start of the crisis“. Relief Web. 1. september 2020. Sótt 1. september 2020.
 17. 17,0 17,1 „UNICEF Ethiopia Humanitarian Situation Report No. 9 - September 2022“. ReliefWeb. UNICEF. 29. október 2022. Afrit af uppruna á 30. október 2022.
 18. „Ethiopia: UN says 20,000 refugees missing in Tigray“. Al Jazeera. Afrit af uppruna á 4. febrúar 2021. Sótt 13. febrúar 2021.
 19. Paravicini, Giulia (20. ágúst 2022). „Nearly half the people in Ethiopia's Tigray in 'severe' need of food aid, World Food Programme says“. Reuters. Afrit af uppruna á 11. október 2022.
 20. York, Geoffrey (21. október 2022). „Surge of dehumanizing hate speech points to mounting risk of mass atrocities in northern Ethiopia, experts say“. The Globe and Mail. Afrit af uppruna á 22. október 2022. „Independent scholars, based at Ghent University in Belgium, suggest that the death toll in Tigray is now between 385,000 and 600,000.“
 21. Sunna Ósk Logadóttir (27. mars 2022). „„Þeir drápu, hópnauðguðu og rændu". Kjarninn. Sótt 6. nóvember 2022.
 22. Kristján Róbert Kristjánsson (1. apríl 2020). „Kosningum frestað vegna kórónuveirufaraldursins“. RÚV. Sótt 28. september 2020.
 23. Desta Gebremedhin (5. nóvember 2020). „Tigray crisis: Why there are fears of civil war in Ethiopia“ (enska). BBC. Sótt 10. nóvember 2020.
 24. Atli Ísleifsson (6. nóvember 2020). „Óttast að Eþíópía sé á barmi borgara­styrj­aldar“. Vísir. Sótt 6. nóvember 2020.
 25. „Abiy seg­ir stjórn­ar­her­inn með fullt vald í Tigray“. mbl.is. 29. nóvember 2020. Sótt 30. nóvember 2020.
 26. Róbert Jóhannsson (26. febrúar 2021). „Segja Erítreu seka um glæpi gegn mannkyninu“. RÚV. Sótt 3. mars 2021.
 27. „Andspyrnuhreyfingar náðu Mekelle aftur á sitt vald“. mbl.is. 29. júní 2021. Sótt 30. júní 2021.
 28. „Neyðarástand í Eþíópíu vegna uppreisnarsveitar“. mbl.is. 3. nóvember 2021. Sótt 4. nóvember 2021.
 29. „Eþíópíuher snýr vörn í sókn“. Fréttablaðið. 12. desember 2021. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. nóvember 2022. Sótt 25. júní 2022.
 30. „Vilja semja um frið í Eþíópíu“. Fréttablaðið. 18. júní 2022. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. nóvember 2022. Sótt 25. júní 2022.
 31. „Borgarastyrjöldinni í Eþíópíu lokið“. mbl.is. 2. nóvember 2022. Sótt 6. nóvember 2022.
 32. Róbert Jóhannsson (4. nóvember 2022). „Líkir friðarsamningi við bréf til jólasveinsins“. RÚV. Sótt 6. nóvember 2022.
 33. Samúel Karl Ólason (3. nóvember 2021). „Eymd í Eþíópíu: Sam­einuðu þjóðirnar saka allar stríðandi fylkingar um morð og nauðganir“. Vísir. Sótt 16. desember 2022.
 34. „Eþíópía: Nauðganir notaðar sem stríðsvopn“. Amnesty International. 2. september 2021. Sótt 16. desember 2022.
 35. Samúel Karl Ólason (13. nóvember 2021). „Óttast að stríðsglæpir hafi verið framdir“. mbl.is. Sótt 16. desember 2022.
 36. Ævar Örn Jósepsson (20. september 2022). „Stríðsglæpir og glæpir gegn mannkyni í Tigray-héraði“. RÚV. Sótt 16. desember 2022.