Fara í innihald

Líbía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Líbía
دولة ليبيا
Dawlat Lībiyyā
Fáni Líbíu Skjaldarmerki Líbíu
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Libya, Libya, Libya
Staðsetning Líbíu
Höfuðborg Trípólí
Opinbert tungumál arabíska
Stjórnarfar Bráðabirgðastjórn

Formaður forsetaráðs Mohamed al-Menfi
Forsætisráðherra Abdul Hamid Dbeibeh
Sjálfstæði
 • frá Ítalíu 10. febrúar, 1947 
 • valdarán Gaddafis 1. september 1969 
 • líbíska byltingin 17. febrúar 2011 
Flatarmál
 • Samtals
16. sæti
1.759.541 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (2021)
 • Þéttleiki byggðar
108. sæti
6.959.000
3,74/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 31,531 millj. dala
 • Á mann 4.746 dalir
VÞL (2019) 0.724 (105. sæti)
Gjaldmiðill Dínar
Tímabelti UTC+2
Þjóðarlén .ly
Landsnúmer +218

Líbía (arabíska: ليبيا, umritað Lībiyyā) er land í Norður-Afríku með strandlengju við Miðjarðarhaf, á milli Egyptalands og Alsír og Túnis, með landamæri að Súdan, Tjad og Níger í suðri. Landið skiptist sögulega í þrjá landshluta, Tripolitana, Fezzan og Kýrenæku. Líbía er um 1,76 milljón ferkílómetrar að stærð og 17. stærsta land heims. Landinu stjórnar nú bráðabirgðastjórn eftir að einræðisstjórn Muammar Gaddafi var steypt af stóli árið 2011.

Höfuðborgin Trípólí er jafnframt stærsta borg landsins með 1,7 milljón íbúa. Langflestir íbúar landsins búa við ströndina í borgunum Trípólí, Benghazi og Misrata en suðurhluti landsins er mjög strjálbýll. Þar búa Túbúar í Tíbestífjöllum við landamærin að Tjad. Í vesturhlutanum búa einnig Berbar og Túaregar. 97% íbúa eru múslimar. Efnahagur landsins byggist fyrst og fremst á útflutningi jarðolíu og olíuafurða sem stendur undir 80% af vergri landsframleiðslu og er 97% útflutnings. Árið 2009 var Líbía með einn hæsta stuðul Afríku í vísitölu um þróun lífsgæða og fimmtu mestu landsframleiðslu í álfunni.

Líbía á sér mjög langa sögu. Berbar hófu að setjast þar að á síðbronsöld. Föníkumenn stofnuðu þar verslunarstaði við ströndina og á 5. öld f.Kr. ríkti sú stærsta þeirra, Karþagó, yfir stórum hluta Norður-Afríku. Forn-Grikkir stofnuðu aftur borgina Kýrene í austurhluta landsins. Svæðið þar í kring varð síðan þekkt sem Kýrenæka. Persaveldi náði Kýrenæku á sitt vald 525 f.Kr. og næstu ár var landið ýmist undir stjórn Persa eða Forn-Egypta. Eftir landvinninga Alexanders mikla varð Kýrenæka hluti af Ptólemajaríkinu. Eftir sigur Rómverja í orrustunni um Karþagó 146 f.Kr. varð Tripolitana upphaflega hluti af Númidíu en Rómverjar gerðu alla hluta landsins að skattlöndum á 1. öld f.Kr. Borgunum tók að hnigna um leið og Rómaveldi hnignaði. Um miðja 7. öld lagði her Rasjidunkalífadæmisins löndin undir sig. Berbar tóku þá upp íslam en börðust jafnframt gegn auknum yfirráðum Araba næstu aldirnar. Þeir stofnuðu ríki Hafsída 1229 sem ríkti yfir löndunum þar til Tyrkjaveldi lagði þau undir sig 1574. Upphaflega var pasja staðsettur í Trípólí en síðar dey. Á 19. öld tók Líbía þátt í Barbarístríðunum sem Bandaríkin háðu gegn Norður-Afríkuríkjunum til að stöðva sjórán á Miðjarðarhafi og Atlantshafi.

Í kjölfar stríðs Ítalíu og Tyrklands (1911-12) lagði Ítalía héruðin þrjú (Tripolitana, Fezzan og Kýrenæku) undir sig og kallaði þau upphaflega Ítölsku Norður-Afríku en síðan „Líbýu“ frá 1934. Það var upphaflega nafn sem Forn-Grikkir notuðu um alla Norður-Afríku. Andspyrna gegn yfirráðum Ítala var barin niður af mikilli hörku. Bandamenn náðu Líbýu af Ítölum árið 1943 og eftir að stríðinu lauk var landið áfram hernámssvæði. Árið 1951 lýsti Líbýa yfir sjálfstæði og konungsríki var stofnað undir stjórn Idriss konungs. Uppgötvun mikilla olíulinda árið 1959 varð til þess að landið auðgaðist mjög um leið og spenna milli ólíkra hagsmunahópa jókst. Þann 1. september 1969 framdi hópur ungra herforingja undir stjórn hins 27 ára gamla Muammar Gaddafi valdarán. Gaddafi stofnaði síðan alþýðulýðveldi í anda sósíalisma en stjórn hans var í reynd alræðisstjórn. Gaddafi var steypt af stóli og hann drepinn í líbísku borgarastyrjöldinni árið 2011. Fljótlega eftir það braust önnur borgarastyrjöldin í Líbíu út þar sem ríkisstjórnir í Trípólí og Tobruk, ásamt ýmsum herflokkum, tókust á um stjórn landsins. Vopnahlé var samþykkt árið 2020 og sameinuð ríkisstjórn tók við völdum.

Líbía hefur verið aðili að Sameinuðu þjóðunum frá 1955, og á aðild að Samtökum hlutlausra ríkja, Arabandalaginu, Samtökum um íslamska samvinnu og Samtökum olíuframleiðsluríkja. Íslam er opinber trúarbrögð í landinu og 96,6% íbúa eru súnnítar.

Nafnið „Líbía“ kemur fyrst fyrir í áletrun frá tímum Ramsesar 2. sem rbw. Þetta nafn var almennt heiti á stóru bandalagi Berba sem bjuggu á frjósömum landsvæðum í Kýrenæku og Marmaríku: „Konungurinn Meryey leiddi 40.000 manna her og bandalag ættbálka sem nefnist „höfðingjar Libua“ í stríði gegn Mernepta faraó árið 5 (1208 f.o.t.)“.[1] Þessi átök eru nefnd í Stóru Karnakáletruninni í vesturhluta Nílarósa á 5. og 6. ríkisári Mernepta og þeim lyktaði með ósigri Meryeys.

Nafnið Líbía er dregið af Libu eða Libúē (gríska: Λιβύη Libyē) sem vísaði almennt til íbúa Kýrenæku og Marmaríku. Það var endurvakið árið 1934 sem heiti á nýlendunni Ítölsku Líbíu[2] til að taka við af eldri heitum Trípólítönu sem áður heyrði undir Tyrkjaveldi. Upphaflega hafði ítalski landfræðingurinn Federico Minutilli stungið upp á þessu heiti árið 1903.[3]

Líbía fékk sjálfstæði árið 1951 sem „sameinaða konungsríkið Líbía“ (arabíska: المملكة الليبية المتحدة al-Mamlakah al-Lībiyyah al-Muttaḥidah), en breytti nafninu í „konungsríkið Líbía“ (المملكة الليبية al-Mamlakah al-Lībiyyah) árið 1963. Eftir að Muammar Gaddafi leiddi valdarán gegn konunginum árið 1969 var nafni landsins breytt í „arabíska lýðveldið Líbía“. (الجمهورية العربية الليبية al-Jumhūriyyah al-‘Arabiyyah al-Lībiyyah). Opinbert heiti landsins frá 1977 til 1986 var „sósíalíska arabíska alþýðulýðveldið Líbía“ (الجماهيرية العربية الليبية الشعبية الاشتراكية) og „hið mikla sósíalíska arabíska alþýðulýðveldi Líbía“[4] (الجماهيرية العربية الليبية الشعبية الاشتراكية العظمى,[5] al-Jamāhīriyyah al-‘Arabiyyah al-Lībiyyah ash-Sha‘biyyah al-Ishtirākiyyah al-‘Udmá) frá 1986 til 2011.

Líbíska þjóðarráðið sem var stofnað 2011 notaði einfaldlega nafnið „Líbía“ og Sameinuðu þjóðirnar viðurkenndu landið opinberlega sem „Líbíu“ árið 2011[6] eftir beiðni frá fastanefnd Líbíu sem vísaði í stjórnarskráryfirlýsingu Líbíu frá 3. ágúst 2011. Í nóvember 2011 var ISO 3166-1-staðlinum breytt þannig að nýtt nafn landsins varð „Libya“ á ensku og „Libye“ á frönsku.[7]

Í desember 2017 tilkynnti fastanefnd Líbíu Sameinuðu þjóðunum að opinbert heiti landsins yrði hér eftir „Líbíuríki“ en „Líbía“ yrði áfram styttri útgáfa nafnsins.[8]

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Sandöldur, klettar og fjöll í Tadrart Acacus, eyðimerkursvæði í suðvesturhluta Líbíu.

Líbía er 1.759.540 km² að stærð og er því 16. stærsta land heims. Landið á strönd að Miðjarðarhafi í norðri og landamæri að Túnis og Alsír í vestri, Níger í suðvestri, Tjadí suðri, Súdan í suðaustri og Egyptalandi í austri. Líbía er á milli 19. og 34. breiddargráðu norður og 9. og 26. lengdargráðu austur.

Strönd Líbíu er 1.770 km að lengd, sú lengsta af ströndum allra Afríkuríkja við Miðjarðarhaf.[9][10] Hafsvæðið við strönd Líbíu er stundum kallað Líbíuhaf. Loftslag er mjög þurrt eyðimerkurloftslag að mestu, en í norðurhéruðunum er mildara Miðjarðarhafsloftslag.[11]

Helsta náttúruváin í Líbíu eru þurr og heitur svækjuvindur (sem í Líbíu nefnist gibli) og blæs úr suðri í einn til fjóra daga í senn á vorin og haustin. Auk hans ganga stundum ryk- og sandstormar yfir landið. Vinjar finnast á víð og dreif í eyðimörkinni í Líbíu. Þær helstu eru Ghadames og Kufra.[12] Líbía er eitt af sólríkustu og þurrustu löndum heims út af ríkjandi eyðimerkurloftslagi.

Líbía var leiðandi í verndun villtra dýra í Afríku þegar El Kouf-náttúruverndarsvæðið var stofnað árið 1975. Eftir fall stjórnar Gaddafis hefur veiðþjófnaður aukist mikið. Dýrafræðingurinn Khaled Ettaieb hefur talað um að fyrir fall stjórnarinnar hafi jafnvel veiðirifflar verið bannaðir, en nú felli veiðiþjófar dýr með stríðstólum og allt að 200 gasellur hafi fundist í fórum hersveita sem drepa þær sér til skemmtunar.[13]

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]
Umdæmi Líbýu frá 2007

Sögulega skiptist Líbía milli þriggja héraða (eða fylkja), Tripolitana í norðvestri, Kýrenæku í austri og Fezzan í suðvestri. Þessi þrjú héruð mynduðu fyrst eitt ríki þegar Ítalía vann þau af Tyrkjaveldi árið 1912.

Frá 2007 hefur Líbýa skipst í 22 umdæmi (baladiyat):

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Roberts, Peter (2006). HSC Ancient History. Pascal Press. ISBN 9781741251784. Afrit af uppruna á 31. maí 2021. Sótt 26. maí 2020.
  2. „Preservation of the Libyan culture“. Tafsuit.com. 6. júní 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. maí 2013. Sótt 23. desember 2012.
  3. "Bibliografia della Libia"; Bertarelli, p. 177.
  4. „Great Socialist People's Libyan Arab Jamahiriya: Libya“. Geographical Names. Afrit af uppruna á 18. janúar 2012. Sótt 1. nóvember 2011.
  5. „الجماهيرية العربية الليبية الشعبية الاشتراكية: Libya“. Geographical Names. Afrit af uppruna á 24. júlí 2014. Sótt 26. febrúar 2014.
  6. „United Nations interoffice memorandum dated 16 September 2011 from Desmond Parker, Chief of Protocol, to Shaaban M. Shaaban, Under-Secretary-General for General Assembly and Conference Management, attaching memorandum from Stadler Trengove, Senior Legal Officer“. United Nations. 16. september 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. janúar 2013. Sótt 5. febrúar 2013.
  7. „ISO 3166-1 Newsletter VI-11: Name change for Libya“ (PDF). International Organization for Standardization. 8. nóvember 2011. Afrit (PDF) af uppruna á 17. janúar 2012. Sótt 13. desember 2011.
  8. "State of Libya" in UNTERM (United Nations terminology database)“. United Nations. Afrit af uppruna á 5. janúar 2018. Sótt 5. janúar 2018.
  9. „Libya Background“. Education Libya. 30. mars 2004. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. apríl 2004.
  10. „Field Listings – Coastlines“. The World Factbook. Afrit af uppruna á 16. júlí 2017. Sótt 5. febrúar 2013.
  11. „Weather and Climate in Libya“. Southtravels.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. júní 2013. Sótt 23. desember 2012.
  12. „Old Town of Ghadames (1986) Libyan Arab Jamahirya“. World Cultural Heritage. 20. júlí 2006. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. ágúst 2016. Sótt 10. ágúst 2016.
  13. „Le Maghreb prend conscience du déclin de sa biodiversité“. 4. ágúst 2020. Afrit af uppruna á 15. apríl 2021. Sótt 13. október 2020.
  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.