Litáen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Litháen)
Lýðveldið Litáen
Lietuvos Respublika
Fáni Litáens Skjaldarmerki Litáens
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Tautiška giesmė
Staðsetning Litáens
Höfuðborg Vilníus
Opinbert tungumál litáíska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Gitanas Nausėda
Forsætisráðherra Ingrida Šimonytė
Evrópusambandsaðild 2004
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
121. sæti
65.300 km²
1,98
Mannfjöldi
 • Samtals (2022)
 • Þéttleiki byggðar
137. sæti
2.840.758[1]
43/km²
VLF (KMJ) áætl. 2022
 • Samtals 131 millj. dala (88. sæti)
 • Á mann 46.158 dalir (38. sæti)
VÞL (2021) 0.875 (35. sæti)
Gjaldmiðill Evra (EUR)
Tímabelti UTC+2 (+3 á sumrin)
Þjóðarlén .lt
Landsnúmer +370

Litáen (áður oftast ritað „Litháen“, í eldra máli „Lithaugaland“; litáíska: Lietuva), formlega Lýðveldið Litáen (Lietuvos Respublika) er land í Norður-Evrópu, eitt Eystrasaltslandanna. Það á landamæri að Lettlandi í norðri, Hvíta-Rússlandi í austri og Póllandi og Kalíníngrad (Rússlandi) í suðri. Í vestri liggur landið að Eystrasalti. Opinbert tungumál landsins, litáíska, er annað tveggja baltneskra mála sem enn eru töluð. Hitt er lettneska.

Um aldir bjuggu nokkrar baltneskar þjóðir í landinu þar til Mindaugas sameinaði þær á 4. áratug 13. aldar. Hann var fyrsti stórhertogi Litáen og síðan konungur. Stórhertogadæmið gekk í Lúblínsambandið árið 1569 og Pólsk-litáíska samveldið varð til. Þessu ríki skiptu nærliggjandi stórveldi, Rússland, Prússland og Austurríki, á milli sín á árunum 1772 til 1795 og stærstur hluti Litáens féll Rússneska keisaradæminu í skaut. Undir lok fyrri heimsstyrjaldar 1918 lýsti Litáen yfir sjálfstæði. Árið 1940, í síðari heimsstyrjöld, lögðu Sovétmenn og síðan Þjóðverjar landið undir sig. Þegar Þjóðverjar hörfuðu 1944 lögðu Sovétmenn landið undir sig á ný og Sovétlýðveldið Litáen var stofnað árið 1945. Árið 1990 lýsti Litáen yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum, fyrst allra sovétlýðvelda.

Litáen gerðist aðili að Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu árið 2004. Það er þátttakandi í Schengen-samstarfinu og tekur þátt í norrænu samstarfi eins og Norræna fjárfestingarbankanum. Hagvöxtur í Litáen hefur verið mjög mikill frá aldamótum og landið er því stundum kallað baltneski tígurinn. Við þróun iðnaðar í Litáen hefur verið lögð áhersla á líftækni og vélaframleiðslu. Árið 2002 var þáverandi gjaldmiðill landsins, litasið, fest við evru, en evran er nú gjaldmiðill landsins.

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Elsta þekkta heimildin um nafnið Litáen er úr Quedlinburg-annálnum þar sem færsla fyrir 9. mars 1009 segir frá því hvernig trúboðinn Bruno frá Querfurt var hálshöggvinn af heiðingjum við landamæri Rússlands og Litáen.[2] Þar kemur nafnið fram í latneskri útgáfu, Lituæ (af Litua).[3] Ekki eru til heimildir um það af hverju nafnið var dregið, svo merking þess er óþekkt og fræðimenn deila um uppruna orðsins.[4]

Vegna þess að Lietuva er með viðskeyti (-uva) er talið að upprunalega orðið hafi ekki haft viðskeyti.[4] Það gæti því hafa verið Lietā. Úr því að mörg baltnesk þjóðaheiti eru dregin af vatnaheitum, hafa málfræðingar leitað að uppruna orðsins í vatnaheitum.[5] Lietava er lækur sem rennur skammt frá Kernavė, á kjarnasvæði þess sem síðar varð hertogadæmið Litáen og var líklega fyrsta höfuðborg stórfurstadæmisins. Hann er því talinn líklegur uppruni heitisins.[5] Lækurinn er hins vegar svo lítill að mörgum þykir ólíklegt að landið geti hafa dregið nafn sitt af honum, þótt slíkt sé ekki einstakt í veraldarsögunni.[6]

Litáíski sagnfræðingurinn Artūras Dubonis hefur stungið upp á annarri tilgátu,[7] að heitið Lietuva tengist orðinu leičiai (fleirtala af leitis). Frá miðri 13. öld voru leičiai stríðsmenn í litáísku samfélagi sem heyrðu undir þjóðhöfðingjann eða ríkið sjálft. Orðið leičiai er notað í heimildum frá 14. til 16. aldar sem þjóðarheiti yfir Litáa (en ekki Semgalla) og er enn notað í sögulegu samhengi, í lettnesku, sem er náskyld litáísku.[8][9][10]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Forsaga[breyta | breyta frumkóða]

Talið er að fólk hafi fyrst sest að á svæðinu sem nú er Litáen eftir síðustu ísöld fyrir um 10.000 árum. Næstu árþúsund blönduðust indó-evrópskar þjóðir heimamönnum og mynduðu ýmis þjóðerni Eystrasaltslandanna. Fyrstu skriflegu heimildir þar sem minnst er á Litáen eru í þýska miðaldahandritinu Annálar Quedlinborgar, frá 9. mars 1009.

Miðaldir[breyta | breyta frumkóða]

Í lok 14. aldar var Litáen eitt af stærstu ríkjum Evrópu. Aðdragandi þess var að árið 1385 samþykkti Jogaila stórhertogi tilboð Pólverja um að verða konungur þeirra. Jogaila byrjaði að kristna Litáa, en Litáen var eitt af síðustu svæðum í Evrópu til að taka kristni.

Eftir tvær borgarastyrjaldir varð Vytautas stórhertogi af Litháen árið 1392. Á valdatíma hans náði Litáen hámarki útþenslu sinnar. Ríkið varð sífellt miðstýrðara og litáískir aðalsmenn urðu sífellt meira áberandi í stjórnmálum ríkisins.

Eftir dauða Jogaila og Vytautas reyndu litáískir aðalsmenn að brjóta upp sambandið milli Póllands og Litáen. Þeir völdu stórhertoga af Jagiellon-ættinni, en í lok 15. aldar neyddist Litáen til að taka upp nánara samband við Pólland þar sem þeim stóð ógn af hinu vaxandi stórhertogadæmi Moskvu.

Nýöld[breyta | breyta frumkóða]

Samveldið Pólland – Litháen  var stofnað árið 1569. Litáen hélt sjálfstæðum stofnunum sínum, þar á meðal eigin her og gjaldmiðli, og litáísk lög héldu gildi.  Með tímanum varð Litháen fyrir pólskum áhrifum á nær öllum sviðum, bæði í stjórnmálum, tungumáli og menningu, og sjálfsmynd íbúanna breyttist. Frá miðri 16. öld fram á miðja 17. öld blómstruðu menning, listir og menntun. Var það ekki síst vegna áhrifa frá endurreisninni og mótmælendatrú. Frá 1573 var konungur Póllands og stórhertogi af Litáen kjörinn af aðalsmönnum, sem fengu sífellt meiri völd. Þessi völd, sérstaklega neitunarvald aðalsmanna, leiddu af sér stjórnleysi og urðu hugsanlega til þess að samveldið leystist upp.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Hæðakort af Litáen.

Litáen er við Eystrasalt í Norður-Evrópu og nær yfir 65.300 km2 svæði.[11] Landið er að mestu á milli 53. og 57. breiddargráðu norður og 21. og 27. lengdargráðu austur (hluti af Kúrlandseiði liggur vestan við 21. gráðu). Sendin strandlengjan er um 99 km löng, en aðeins 38 km liggja að Eystrasalti, sem er minna en hjá hinum Eystrasaltslöndunum. Afgangurinn af ströndinni liggur að Kúrlandslóni innan við Kúrlandseiði. Helsta hafnarborg Litáens, Klaipeda, liggur við norðurenda Kúrlandseiðis þar sem er siglingaleið inn á lónið. Lónið skiptist milli Litáens og Rússlands (Kaliníngrad). Stærsta fljót Litáens, Nemunasfljót, rennur út í lónið og ber skipaumferð.

Litáen liggur á brún Norður-Evrópusléttunnar. Landslagið er mótað af jöklum við síðustu ísöld þar sem hæðardrög og láglendi skiptast á. Hæsti tindur Litáens er Aukštojas-hæð, 294 metrar á hæð, í austurhluta landsins. Fjölmörg stöðuvötn eru í Litáen (til dæmis Vištytis-vatn) og mikið um votlendi. Blandaður skógur þekur yfir þriðjung landsins. Stærsta stöðuvatn Litáens er Drūkšiai, það dýpsta er Tauragnas og það lengsta er Asveja.

Eftir endurskoðun á landamærum heimsálfunnar Evrópu árið 1989, komst franski landfræðingurinn Jean-George Affholder að þeirri niðurstöðu að landfræðileg miðja Evrópu væri í Litáen, við 54°54′N 25°19′A / 54.900°N 25.317°A / 54.900; 25.317 (Purnuškės), um 26 km norðan við höfuðborgina Vilnius.[12]

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Núverandi skiptingu í stjórnsýslueiningar var komið á 1994 og breytt árið 2000 til að mæta kröfum Evrópusambandsins. Landið skiptist í 10 sýslur (litáíska: apskritis (et.), apskritys (ft.)), sem aftur skiptast í 60 sveitarfélög (litáíska: savivaldybė (et.), savivaldybės (ft.)), sem aftur skiptast í 500 öldungsdæmi (litáíska: seniūnija (et.), seniūnijos (ft.)).

Sveitarfélögin hafa verið helsta neðra stjórnsýslustigið síðan embætti sýslumanna voru lögð niður árið 2010.[13] Sum sveitarfélög hafa verið nefnd „héraðssveitarfélög“ meðan önnur eru nefnd „borgarsveitarfélög“. Hvert sveitarfélag hefur kjörna stjórn. Kosið er til sveitarstjórna á fjögurra ára fresti (en var áður á þriggja ára fresti). Sveitarstjórn skipar öldunga yfir öldungaumdæmin. Sveitarstjórar hafa verið kosnir í beinum kosningum síðan 2015. Áður voru þeir skipaðir af sveitarstjórn.[14]

Öldungsdæmin, sem eru yfir 500 talsins, eru minnstu einingarnar og gegna engu formlegu hlutverki í stjórnmálum. Þau sjá um að veita opinbera þjónustu á staðnum, eins og skráningu fæddra og látinna í dreifbýli. Helsta hlutverk þeirra er félagsþjónusta, að skipuleggja fátækraþjónustu og aðstoða fjölskyldur og einstaklinga í vanda.[15] Sumum þykir að öldungsdæmin hafi engin raunveruleg völd og hljóti of litla athygli, meðan þau gætu verið vettvangur til að takast á við staðbundin vandamál.[16]

Sýsla Stærð (km2) Íbúar (þúsund) (2019)[17] VLF (milljarðar EUR)[17] VLF á mann (EUR)[17]
Alytus-sýsla 5.425 134 1,6 11.500
Kaunas-sýsla 8.089 562 11,6 20.400
Klaipėda-sýsla 5.209 319 6,0 18.400
Marijampolė-sýsla 4.463 136 1,6 11.800
Panevėžys-sýsla 7.881 221 3,0 14.100
Šiauliai-sýsla 8.540 261 3,9 15.000
Tauragė-sýsla 4.411 91 1,1 10.900
Telšiai-sýsla 4.350 130 1,8 13.500
Utena-sýsla 7.201 124 1,4 11.200
Vilnius-sýsla 9.731 820 24,2 29.800
Litáen 65.300 2.828 56,2 20.000

Íbúar[breyta | breyta frumkóða]

Borgir[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Pradžia – Oficialiosios statistikos portalas“. osp.stat.gov.lt.
  2. Baranauskas, Tomas (Fall 2009). „On the Origin of the Name of Lithuania“. Lithuanian Quarterly Journal of Arts and Sciences. 55 (3). ISSN 0024-5089.
  3. Vilnius. Key dates Geymt 17 janúar 2007 í Wayback Machine. Sótt 18. janúar 2007.
  4. 4,0 4,1 Zinkevičius, Zigmas. „Lietuvos vardas“. Vle.lt (litháíska). Sótt 12. júlí 2021.
  5. 5,0 5,1 Zigmas Zinkevičius. Kelios mintys, kurios kyla skaitant Alfredo Bumblausko Senosios Lietuvos istoriją 1009-1795m. Voruta, 2005.
  6. Zinkevičius, Zigmas (30. nóvember 1999). „Lietuvos vardo kilmė“. Voruta (litháíska). 3 (669). ISSN 1392-0677. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. maí 2022.
  7. Dubonis, Artūras (1998). Lietuvos didžiojo kunigaikščio leičiai: iš Lietuvos ankstyvųjų valstybinių struktūrų praeities Leičiai of Grand Duke of Lithuania: from the past of Lithuanian stative structures (litháíska). Vilnius: Lietuvos istorijos instituto leidykla.
  8. Dubonis, Artūras. „Leičiai | Orbis Lituaniae“. LDKistorija.lt (litháíska). Vilnius University. Sótt 13. júlí 2021.
  9. Čeponis, Tomas; Sakalauskas, Mindaugas. Leičiai (PDF). Vilnius: Ministry of National Defence of Lithuania. ISBN 978-609-412-143-2. Sótt 13. júlí 2021.[óvirkur tengill][óvirkur tengill]
  10. Patackas, Algirdas. „Lietuva, Lieta, Leitis, arba ką reiškia žodis "Lietuva". Lrytas.lt (litháíska). Afrit af upprunalegu geymt þann 2. júlí 2021. Sótt 11. ágúst 2009.
  11. „Lithuania“. Canada.ca. Sótt 18. júní 2020.
  12. Jan S. Krogh. „Other Places of Interest: Central Europe“. Sótt 31. desember 2011.
  13. Snið:In lang (Republic of Lithuania Annul Law on County Governing), Seimas-lagasafnið, 7. júlí 2009, Lög nr. XI-318.
  14. Snið:In lang Justinas Vanagas, Seimo Seimas įteisino tiesioginius merų rinkimus Geymt 14 október 2017 í Wayback Machine, Delfi.lt, 26. júní 2014. Sótt 26. mars 2015.
  15. Snið:In lang Lietuvos Respublikos vietos savivaldos įstatymo pakeitimo įstatymas, Seimas-lagasafnið, 12. október 2000, Lög nr. VIII-2018. Sótt 3. júní 2006.
  16. Snið:In lang Indrė Makaraitytė, Europos Sąjungos pinigai kaimo neišgelbės, Atgimimas, Delfi.lt, 16. desember 2004. Sótt 4. júní 2006.
  17. 17,0 17,1 17,2 „BENDRASIS VIDAUS PRODUKTAS PAGAL APSKRITIS 2021 M.“ (litháíska). Statistics Lithuania. 25. nóvember 2016. Sótt 22. nóvember 2018.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu