Fara í innihald

Fríiðnaðarsvæði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Fríiðnaðarsvæði (e. free trade zone eða export processing zone) eru afmörkuð landsvæði innan ríkja þar sem slakað er á höftum á viðskiptafrelsi eins og tollum, sköttum eða takmörkunum á innflutningi. Jafnframt er, í reynd, slakað á kröfum um öryggi á vinnustað, umhverfisvernd og réttindi vinnufólks. Tilgangurinn er að laða að erlenda fjárfesta og er stofnun fríiðnaðarsvæða réttlætt sem meðal sem mun á endanum stuðla að þróun. Þróunarríki eru langsamlega í meirihluta þeirra ríkja sem hafa stofnað fríiðnaðarsvæði.

Fríiðnaðarsvæði eru gjarnan þyrpingar af verksmiðjum þangað sem hráefni er flutt og það unnið áður en það er flutt út, jafn óðum og fullunnin varan er tilbúin. Vinnuveitendur á þessum svæðum eru oft verktakar alþjóðlegra stórfyrirtækja sem hafa fengið verkin í gegnum útvistun.

Fríiðnaðarsvæði á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Á Íslandi eru engin fríiðnaðarsvæði sem stendur. Þó hafa verið umræður um stofnun slíks svæðið við Keflavíkurflugvöll.

Þingsályktunartillögur um athugun á hagkvæmni þess að stofna slíkt svæði voru fluttar sex ár í röð á Alþingi, frá 1979-1984 án þess að vera samþykktar. Árið 1984 flutti þáverandi þingmaður Alþýðuflokksins, Karl Steinar Guðnason, tillöguna. Þetta var liður í alhliða uppbyggingarátaki í atvinnumálum á Suðurnesjum. Í þingsályktunartillögunni kom fram að aðstæður á Suðurnesjum væru hagstæðar, þar væri gott aðgengi að orku og hráefni en tækni- og verkkunnáttu væri ábótavant. Bent var á að í Shannon á Írlandi væri búið að koma á fót fríiðnaðarsvæði við sambærilegar aðstæður.

Byggðastofnun lauk skýrslu um fýsileika þess að koma á fót fríiðnaðarsvæði á Suðurnesjum árið 1987 en ekkert var aðhafst í framhaldinu. Talið var að Ísland væri ekki nægilega samkeppnishæft, vinnuafl væri of dýrt þannig að til þess að laða að fyrirtæki þyrfti að umbuna þeim of mikið með alls kyns skattafríðindi.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „714. skýrsla forsætisráðherra um fríiðnaðarsvæði [393. mál]“ (pdf). Alþingi. 1987.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]