Fara í innihald

Norður-Kýpur

Hnit: 35°10′00″N 33°30′00″A / 35.16667°N 33.50000°A / 35.16667; 33.50000
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Kuzey Kıbrıs)

35°10′00″N 33°30′00″A / 35.16667°N 33.50000°A / 35.16667; 33.50000

Kuzey Kıbrıs Türk Cumhuriyeti
Fáni Norður-Kýpur Skjaldarmerki Norður-Kýpur
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
İstiklal Marşı
Staðsetning Norður-Kýpur
Höfuðborg Norður-Nikósía
Opinbert tungumál Tyrkneska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Ersin Tatar
Forsætisráðherra Faiz Sucuoğlu
Sjálfstæði frá Kýpur
 • Innrás Tyrkja á Kýpur 20. júlí 1974 
 • Tyrkneska sambandslýðveldið á Kýpur 13. október 1975 
 • Sjálfstæði 15. nóvember 1983 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

3.355 km²
2,7
Mannfjöldi
 • Samtals (2017)
 • Þéttleiki byggðar

326.000
93/km²
Gjaldmiðill tyrknesk líra (TRY)
Tímabelti UTC+2 (+3 á sumrin)
Þjóðarlén .nc.tr
Landsnúmer ++90 392

Norður-Kýpur (tyrkneska: Kuzey Kıbrıs eða Kuzey Kıbrıs Türk Cumhuriyeti), formlega Tyrkneska lýðveldið á Norður-Kýpur, er de facto ríki á norðausturhluta eyjunnar Kýpur í Miðjarðarhafi. Stofnun þess var lýst yfir 1983, níu árum eftir valdarán gríska hersins á eyjunni og innrás Tyrkja í norðurhluta hennar. Lýðveldið nýtur einungis viðurkenningar Tyrklands á alþjóðavettvangi en öll önnur ríki sem og Sameinuðu þjóðirnar viðurkenna einungis Lýðveldið Kýpur á suðurhlutanum og líta svo á að það ráði (lögformlega) yfir allri eyjunni. Formlega séð er eyjan öll hluti Evrópusambandsins en norðurhlutinn er undanþeginn lögum sambandsins þangað til sátt næst í deilunni.

Norður-Kýpur nær frá Karpassskaga í austri að Morfúflóa og Kormakitishöfða. Vestasti hluti þess er útlendan Kokkina. Varnarbelti undir stjórn Sameinuðu þjóðanna skilur Norður-Kýpur frá Kýpur og klýfur borgina Nikósíu (sem er höfuðborg beggja hluta) í tvennt.

Innrás Tyrkja á Kýpur var gerð í kjölfar valdaráns kýpverska þjóðvarðarins með stuðningi grísku herforingjastjórnarinnar með það markmið að innlima Kýpur í Grikkland. Innrásin leiddi til skiptingar eyjarinnar og fjöldaflótta grískumælandi Kýpverja frá norðurhlutanum og tyrkneskumælandi Kýpverja frá suðurhlutanum. Stjórnin í norðurhlutanum lýsti einhliða yfir sjálfstæði árið 1983. Norður-Kýpur er mjög háð Tyrklandi um pólitískan, efnahagslegan og hernaðarlegan stuðning.[1][2][3] Allar tilraunir til að leysa Kýpurdeiluna hafa hingað til reynst árangurslausar. Tyrklandsher hefur stórt lið á Norður-Kýpur með samþykki stjórnarinnar þar. Stjórn Kýpur, Evrópusambandið og stærstur hluti alþjóðasamfélagsins, lítur formlega á það sem ólöglegt innrásarlið.

Stjórnkerfi Norður-Kýpur er forsetaþingræði með blandaðan menningararf og efnahagslíf þar sem þjónustugeirinn er ríkjandi. Hagvöxtur hefur verið í landinu eftir aldamótin 2000, en efnahagsþvinganir og hafnbönn hamla honum. Opinbert tungumál er tyrkneska og kýpurtyrkneska er sú mállýska sem flestir tala. Mikill meirihluti íbúa eru súnnítar, en afstaða til trúarinnar er að mestu hófsöm og samfélagslegar áherslur veraldlegar.[4] Norður-Kýpur er áheyrnarríki í Efnahagssamvinnustofnuninni og Samtökum um íslamska samvinnu sem „samfélag Kýpur-Tyrkja“.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Útsýni yfir Güzelyurt-umdæmi og Morfúflóa séð frá Troódosfjöllum.

Norður-Kýpur er 3.355 km2 að stærð, eða um þriðjungur eyjunnar. Strönd Tyrklands er 75 km norðan við Norður-Kýpur og strönd Sýrlands 97 km í austur. Norður-Kýpur er milli 34. og 36. breiddargráðu norður og 32. og 35. lengdargráðu austur.

Tveir flóar skerast inn í strönd Norður-Kýpur: Morfúflói og Famagústaflói. Þar eru líka fjórir höfðar: Apostolos Andreas-höfði, Kormakitishöfði, Zeytin-höfði og Kasahöfði. Apostolos Andreas-höfði er endinn á Karpasskaga. Kýreníufjöll eru mjór fjallgarður á norðurströndinni. Þar er hæsti tindur Norður-Kýpur, Selvilifjall, 1.024 metrar á hæð.[5] Sléttan Mesaoria sem nær frá Güzelyurt-umdæmi að austurströndinni er annar einkennandi landslagsþáttur. Austurhluti sléttunnar er þurrt ræktarland þar sem ræktað er hveiti og bygg. Þessi hluti er því grænn á veturna og vorin en verður gulbrúnn á sumrin.[6]

56,7% af landi Norður-Kýpur er ræktanlegt land.[7]

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]
Ersin Tatar er núverandi forseti Norður-Kýpur.

Stjórnkerfið á Norður-Kýpur er fulltrúalýðræði með fjölflokkakerfi og forsetaþingræði þar sem forsetinn er þjóðhöfðingi og forsætisráðherra er stjórnarleiðtogi. Ríkisstjórnin fer með framkvæmdavaldið en Þing Norður-Kýpur fer með löggjafarvaldið. Dómskerfið er sjálfstætt og fer með dómsvaldið.

Forsetinn er kosinn til fimm ára í senn. Núverandi forseti er Ersin Tatar. Þingmenn eru 50 talsins kosnir í sex kjördæmum með hlutfallskosningu. Í síðustu kosningum árið 2018 hlaut Einingarflokkur þjóðarinnar meirihluta þingsæta. Núverandi ríkisstjórn er samsteypustjórn Einingarflokksins og miðjuflokksins Alþýðuflokksins.

Vegna þess hve landið er háð stuðningi frá Tyrklandi hefur stjórn Tyrklands mikil áhrif á stjórnmál á Norður-Kýpur. Vegna þessa hafa sumir gengið svo langt að segja að Norður-Kýpur sé leppríki Tyrklands.[8][9][10] Aðrir benda á deilur milli ríkisstjórna landanna sem gefa til kynna að ekki sé rétt að kalla Norður-Kýpur „leppríki“.[11][12]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Norður-Kýpur skiptist í sex umdæmi: Lefkoşa, Gazimağusa, Girne, Güzelyurt, İskele og Lefke. Umdæmin skiptast svo í 28 undirumdæmi. Lefke var stofnað árið 2016 með því að kljúfa það frá Güzelyurt.[13]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Central Intelligence Agency (8. október 2013). „Northern Cyprus“. The CIA World Factbook 2014. Skyhorse Publishing. bls. 691. ISBN 978-1-62873-451-5. „The Turkish Cypriots are heavily dependent on transfers from the Turkish Government. Ankara directly finances about one-third of the Turkish Cypriot "administration's" budget.“
  2. Gideon Boas (1. janúar 2012). Public International Law: Contemporary Principles and Perspectives. Edward Elgar Publishing. bls. 177. ISBN 978-0-85793-956-2. Afrit af uppruna á 5. september 2015. Sótt 20. júní 2015. „For example, the Turkish Republic of Northern Cyprus, located in the northern portion of the island of Cyprus, came about through ... from only one state — Turkey, upon which it is entirely dependent for economic, political and military support.“
  3. Yael Navaro-Yashin (12. mars 2012). The Make-Believe Space: Affective Geography in a Postwar Polity. Duke University Press. bls. 8. ISBN 978-0-8223-5204-4. Afrit af uppruna á 5. september 2015. Sótt 20. júní 2015. „Economic embargoes have been imposed on the TRNC, making northern Cyprus almost completely dependent on Turkey.“
  4. Langfield, Michele; Logan, William; Craith, Mairead Nic, ritstjórar (2010). Cultural Diversity, Heritage and Human Rights: Intersections in Theory and Practice. New York: Routledge. bls. 231. ISBN 978-1-135-19070-5. „The tradition for Turkish Cypriots is one of secularism, not of mosque attendance.“
  5. Alptekin, Ünal; Ertaş, Aytekin. „Kuzey Kıbrıs Türk Cumhuriyeti'nde 1995 yılı orman yangını sonrasındaki ağaçlandırmalardan gözlemler“. Istanbul University. Afrit af uppruna á 9. júní 2010. Sótt 28. desember 2014.
  6. Doğu Mesarya Bölgesi Geymt 9 febrúar 2015 í Wayback Machine, EU Coordination Center, sótt 28. desember 2012.
  7. KUZEY KIBRIS TÜRK CUMHURİYETİ MESARYA OVASI TARIM İŞLETMELERİNDE YETER GELİRLİ İŞLETME BÜYÜKLÜĞÜ VE OPTİMAL ÜRETİM DESENİNİN DOĞRUSAL PROGRAMLAMA YÖNTEMİ İLE TESPİTİ Geymt 28 desember 2014 í Wayback Machine, Ankara University, sótt 28. desember 2014.
  8. Kurtulus, Ersun N. (27. nóvember 2005). State Sovereignty: Concept, Phenomenon and Ramifications. Palgrave Macmillan. bls. 136–. ISBN 978-1-4039-7708-3. Afrit af uppruna á 5. september 2015. Sótt 20. júní 2015. „It may be argued that the Turkish Republic of Northern Cyprus, which was declared in 1983 and which was only recognized as a state by Turkey and for a short period by Pakistan, is at the moment of writing the only existent puppet state in the world.“
  9. Focarelli, Carlo (24. maí 2012). International Law as Social Construct: The Struggle for Global Justice. Oxford University Press. bls. 161–. ISBN 978-0-19-958483-3. Afrit af uppruna á 5. september 2015. Sótt 20. júní 2015. „In the 1995 and 1996 Loizidou Judgments the ECtHR treated the Turkish Republic of Northern Cyprus (TRNC) as a sort of puppet government whose acts fall within the jurisdiction of (and are attributable to) Turkey as an (unlawful) occupier.“
  10. Panara, Carlo; Wilson, Gary (9. janúar 2013). The Arab Spring: New Patterns for Democracy and International Law. Martinus Nijhoff Publishers. bls. 59–. ISBN 978-90-04-24341-5. Afrit af uppruna á 6. september 2015. Sótt 20. júní 2015. „The situation with the South African homelands was similar and so was collective non-acceptance of the Turkish puppet-government in northern Cyprus which has resulted in the Turkish Republic of Northern Cyprus not being recognized as a state.“
  11. Bartmann, Barry (2004). Bahcheli, Tozun; Bartmann, Barry; Srebrnik, Henry (ritstjórar). De Facto States: The Quest for Sovereignty. Routledge. bls. 24. ISBN 978-1-135-77121-8.
  12. Dodd, Clement Henry (1993). The political, social and economic development of Northern Cyprus. Eothen Press. bls. 377. ISBN 9780906719183. „In short, the electorate of Northern Cyprus votes freely for its political leaders and gives them substantial support. Nor is Northern Cyprus a Turkish puppet state. Mr Denktaş and the Turkish-Cypriot case have a powerful following in Turkey...“
  13. „Lefke 6. ilçe oldu!“. Kıbrıs Postası. 27. desember 2016. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. desember 2016. Sótt 27. desember 2016.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.