Byltingin í Túnis
Byltingin í Túnis, einnig kölluð jasmínbyltingin, átti sér stað á árunum 2010 og 2011. Hún batt enda á áratugalanga einræðisstjórn forsetans Zine El Abidine Ben Ali og leiddi til stofnunar lýðræðisstjórnar í Túnis. Byltingin breiddist út til margra nágrannalanda Túnis og varð upphafspunktur arabíska vorsins, hrinu byltinga gegn einræðisstjórnum í Arabaríkjum Norður-Afríku og Mið-Austurlanda sem stóð sem hæst á árunum 2011 til 2012. Byltingin í Túnis hefur síðar fengið það orð á sig að vera eina bylting arabíska vorsins sem hlaut farsælan endi þar sem öll hin Arabaríkin sem fóru í gegnum byltingu á þessum tíma hafa síðan þá ýmist snúið aftur til einræðis eða liðið mannskæðar borgarastyrjaldir. Vaxandi óánægja með túnisk stjórnvöld á síðari árum hefur þó varpað skugga á langtímaárangur byltingarinnar, sérstaklega frá árinu 2021.
Söguágrip
[breyta | breyta frumkóða]Zine El Abidine Ben Ali hafði komist til valda árið 1987. Stjórn hans hafði leyft takmarkaða stjórnarandstöðu en í reynd hafði lýðræði í Túnis verið lítið sem ekkert frá sjálfstæði landsins og stjórnin sætti ásökunum um bæði einræðistilburði og spillingu. Í aðdraganda byltingarinnar hafði óánægja með atvinnuleysi, hækkun matvælaverðs og skort á grundvallarmannréttindum farið sívaxandi.[1]
Upphaf byltingarinnar varð þann 17. desember árið 2010 þegar 26 ára götusölumaður að nafni Mohamed Bouazizi brenndi sjálfan sig til dauða til þess að mótmæla eigin lífskjörum, stjórnvöldum og samfélagsþróun í Túnis. Túniska lögreglan hafði þá nýlega bannað honum að afla sér lífviðurværis með því að selja ávexti á götum úti. Í augum margra Túnisa sem deildu óánægju Bouazizi með stjórnina var dauði hans kornið sem fyllti mælinn. Sjálfsíkveikjan leiddi til fjöldamótmæla sem breiddust fljótt út frá smábænum Sidi Bouzid um allt landið, meðal annars til höfuðborgarinnar Túnis. Í mótmælum þar sem Túnisar kröfðust afsagnar stjórnvalda og aukins lýðræðis kom til átaka þar sem hundruðir féllu í valinn.[2]
Ben Ali brást fyrst við mótmælunum með því að lýsa yfir neyðarástandi í landinu. Í janúar árið 2011 neyddist Ben Ali hins vegar til þess að flýja land ásamt fjölskyldu sinni og hafði með sér mikinn hluta af gullforða landsins.[3] Ben Ali hlaut hæli í Sádi-Arabíu en eftir flótta hans frá Túnis var réttað yfir honum þar án viðveru hans og hann dæmdur til 35 ára fangelsisvistar fyrir að stela ríkisfjármunum. Forsætisráðherrann Mohamed Ghannouchi stofnaði bráðabirgðastjórn sem skipuð var mörgum ráðherrum fyrri stjórnarinnar en mótmælendurnir létu þetta ekki nægja og knúðu Ghannouchi fljótt til afsagnar.[1] Fouad Mebazaa, forseti þingsins, var skipaður forseti Túnis til bráðabirgða og leiddi þjóðstjórn fram að þingkosningum til að koma til móts við kröfur mótmælendanna.[2] Lýðræðislegar kosningar fóru fram í október 2011 og í kjölfarið kaus þingið mannréttindafrömuðinn Moncef Marzouki nýjan forseta Túnis.[1]
Mikið hefur verið rætt um hlutverk internetsins og samfélagsmiðla í að hleypa byltingunni af stokkunum. Miðlar á borð við Facebook, X og YouTube voru notaðir til þess að miðla upplýsingum meðal mótmælenda og virkja bæði ungt fólk og millistétt landsins í byltingunni.[1] Deilt hefur verið um hvort internetið sem slíkt hafi blátt áfram hrundið byltingunni af stað eða hvort undirliggjandi samfélagsaðstæður í Túnis hafi skipt mestu máli.[2]
Túnisk stéttarfélög léku jafnframt mikilvægt hlutverk í byltingunni og í að stýra landinu í átt að lýðræði í kjölfar hennar. Árið 2013 stofnuðu fjögur atvinnusamtök með sér túniska þjóðarsamræðukvartettinn og gegndu lykilhlutverki í að stofna til lýðræðislegs fjölflokkakerfis eftir byltinguna. Fyrir framlag sitt til lýðræðisþróunar í Túnis hlaut þjóðarsamræðukvartettinn friðarverðlaun Nóbels árið 2015.[4]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 „Arabíska vorið“. Globalis. Sótt 9. júlí 2020.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 Björn Teitsson (21. janúar 2011). „Byltingarástand ríkir í Túnisborg“. Dagblaðið Vísir. bls. 10.
- ↑ Björn Teitsson (19. janúar 2011). „Stakk af með gullið“. Dagblaðið Vísir. bls. 17.
- ↑ „Túnis-kvartettinn fær friðarverðlaun Nóbels“. RÚV. 10. desember 2015. Sótt 9. júlí 2020.