Fara í innihald

Föníka

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Föníkumenn)
Verslunarleiðir milli helstu borga Föníkumanna í Miðjarðarhafi.

Föníka eða Fönikía var menningarsamfélag í fornöld sem átti uppruna sinn í norðurhluta Kananslands á ströndum þess lands sem nú heitir Líbanon. Föníka var sjóveldi og verslunarveldi sem stofnaði borgríki allt í kringum Miðjarðarhafið á 1. árþúsundi f.Kr. Föníkumenn kölluðu sjálfa sig líklega kena'ani (kananíta), en nafnið Föníka hefur orðið almennt vegna þess að Grikkir kölluðu landið Φοινίκη („foinike“) sem þeir fengu að láni úr fornegypsku Fnkhw („Sýrlendingar“). Gríska orðið var auk þess hljóðfræðilega líkt orðinu yfir blóðrauðan eða vínrauðan lit φοῖνιξ („foinix“ sbr fönix) og orðin urðu því samheiti vegna verslunar Föníkumanna með hinn eftirsótta týrosarrauða lit sem meðal annars er unninn úr kuðungum. Skip Föníkumanna sem voru undirstaða veldis þeirra voru stórar galeiður.

Föníkumenn töluðu fönísku sem er semískt mál og þekkt af ristum á stein og málm. Vitað er að Föníkumenn skrifuðu bækur, en engar bækur á fönísku hafa varðveist. Föníska stafrófið notaði hljóðstafaletur og er talið forveri gríska stafrófsins, latneska stafrófsins og arabíska stafrófsins.

Veldi Föníkumanna beið hnekki þegar Assýríumenn, Babýlóníumenn og síðan Persar lögðu undir sig heimalönd þeirra kringum borgirnar Býblos, Týros og Sídon á austurströnd Miðjarðarhafsins. Þegar hellenisminn ruddi sér til rúms í kjölfar landvinninga Alexanders mikla ruddu Grikkir Föníkumönnum úr vegi á verslunarleiðum um austurhluta Miðjarðarhafsins. Föníska borgin Karþagó í Norður-Afríku hélt þó áfram að blómstra þar til Rómverjar lögðu hana undir sig í lok púnversku stríðanna árið149 f.Kr.