Fara í innihald

Antwerpen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Fáni
Upplýsingar
Hérað: Antwerpen
Flatarmál: 204,51 km²
Mannfjöldi: ca 523.000 (1. janúar 2018)
Þéttleiki byggðar: 2.413/km²
Vefsíða: [1] Geymt 3 febrúar 2011 í Wayback Machine
Borgarmynd

Antwerpen (franska: Anvers) er önnur stærsta borgin í Belgíu með tæplega 523 þúsund íbúa (1.200.000 á stórborgarsvæðinu). Hún er jafnframt höfuðborg samnefnds héraðs. Á 16. öld var Antwerpen ríkasta verslunarborg heims og komu þangað hundruðir skipa daglega. Hún er enn í dag ein mesta hafnarborg Evrópu og mesta verslunarborg demanta í heimi. Nokkrar byggingar í gömlu miðborginni eru á heimsminjaskrá UNESCO.

Antwerpen.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Antwerpen liggur nær nyrst í Belgíu, við fljótið Schelde, sem rennur út í Norðursjó um fjörðinn Westerschelde. Næstu stærri borgir eru Turnhout til austurs (45 km), Brussel til suðurs (50 km), Gent til suðvesturs (50 km) og Breda í Hollandi til norðvesturs (55 km). Hollensku landamærin eru beint við norðurjaðar borgarinnar. Í Antwerpen er ein stærsta og umsvifamesta höfn Evrópu og liggur hún sitthvoru megin við Schelde fyrir norðan borgina. Til að komast til sjávar verða skip að sigla um skipastiga til Westerschelde í Hollandi.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Heitið kemur úr þýsku og er dregið af orðunum an de warp, sem merkir við hólmana. Hólmarnir voru eiginlega litlar manngerðar smáeyjar á fljótinu Schelde sem fólk bjó á.

Saga Antwerpen[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Á tímum Rómverja mun þorp hafa legið nálægt núverandi borgarstæði. Á 4. öld settust frankar að á staðnum og stofnuðu bæinn við suðurbakka árinnar Schelde. Bærinn óx hratt og hlaut brátt virkisgarð. Það var heilagur Amand frá Maastricht sem kristnaði héraðið og bæinn á 7. öld. Árið 726 kom borgin fyrst við skjöl. 836 sigldu víkingar upp Schelde og gerðu strandhögg við bæinn og brenndu hann niður. Á 9. öld, eftir fráfall Karlamagnúsar, varð áin Schelde landamæri Frakklands og þýska ríkisins, og lá Antwerpen þá rétt innan þýska ríkisins. Borgin og landið í kring varð að markgreifadæmi og tilheyrði hertogadæminu Brabant. 1291 hlaut Antwerpen borgarréttindi, sem brátt varð að stórborg. 1430 erfði fyrst Búrgund borgina, en 1477 Habsborg.

Gullöldin[breyta | breyta frumkóða]

Efnahagur borgarinnar snerist um höfnina og verslun með klæði. Þegar höfnin í Brugge lokaðist, var öll erlend verslun flutt til Antwerpen að auki. Eftir fund Ameríku varð borgin helsta sykurhöfn Evrópu. Hundruðir skipa sigldu inn eða út höfnina á degi hverjum, hlaðin ýmsum vörum, sem dreifðar voru um alla norðanverða álfuna. Silfur frá Ameríku, krydd frá Asíu og alls konar aðrar vörur streymdu í gegnum höfnina. Mikið bankakerfi myndaðist við efnahaginn, sem stóð Medici-ættinni í Mílanó og Fugger-ættinni í Ágsborg lítið eftir. Á 16. öld var Antwerpen ríkasta borg heims og næststærsta borg Evrópu norðan Alpa. Talið er að á þeirri öld hafi um 40% af öllum viðskiptum heims með vefnaði farið fram í borginni.

Spænska heiftin[breyta | breyta frumkóða]

Spænskir hermenn drepa íbúa Antwerpen 1576

1566 hófst umrót siðaskipta í borginni. Siðaskiptin sem slík ollu litlum breytingum á verslun borgarinnar, en þau urðu til þess að Niðurlönd hófu uppreisn gegn Spánverjum (Habsborg) sem Antwerpen studdi. Það leiddi til þess að öll verslun við Spánverja lagðist af. 1575 lýsti Spánn sig gjaldþrota og gat ekki greitt hermönnum laun. 4. nóvember 1576 réðist spænskur her inn í Antwerpen í þeim tilgangi að ræna hana í stað þess að bíða launagreiðslna. En þegar uppi var staðið var herinn heila þrjá daga í borginni. Hermennirnir rændi öllu sem hönd festi á, drápu allt að 10 þús íbúa borgarinnar, brenndu niður heil 800 byggingar og ollu gríðarlegum skaða. Atburður þessi gekk í sögubækurnar sem Spænska heiftin (Spaanse Furie) og varð til þess að jafnvel kaþólikkar gengu í lið með uppreisnarmönnum í Hollandi. Efnahagslega náði Antwerpen sér aldrei á strik á ný. Hin mikla verslun borgarinnar fluttist að mestu til Amsterdam. Á hinn bóginn varð Antwerpen miðstöð uppreisnarmanna gegn spænskum yfirráðum næsta áratuginn, eða þar til Alessandro Farnese, nýi spænski landstjórinn, settist um borgina 1585. Eftir stutt umsátur féll borgin og hertóku Spánverjar hana öðru sinni. Í friðarsamningum 30 ára stríðsins 1648, sem einnig voru friðarsamningar Hollands og Spánar, var kveðið svo á um að loka Schelde (þ.e. Westerschelde) fyrir allri umferð skipa. Þetta þýddi endanlegan niðurgang Antwerpens sem hafnarborg næstu 200 árin.

Frakkar og belgíska uppreisnin[breyta | breyta frumkóða]

1796 hertóku Frakkar Niðurlönd og var suðurhluti þeirra innlimaður Frakklandi. Antwerpen var því til skamms tíma frönsk borg meðan Napoleons naut við. Frakkar mynduðu reyndar núverandi hérað í kringum Antwerpen og varð borgin þá í fyrsta sinn héraðshöfuðborg, sem hún er enn. Þrátt fyrir það viðhélst fátækt í borginni. Íbúum hafði fækkað niður í 40 þús. Napoleon sá Antwerpen fyrir sér sem mikilvæga hafnarborg og reyndi að stækka höfnina og leyfa siglingar um Westerschelde. En siglingatímabilið stóð of stutt yfir til að efnahagurinn kæmist í gang að einhverju ráði. 1830 gerðu Belgar uppreisn gegn Hollendingum og lýstu yfir sjálfstæði. Belgískir uppreisnarmenn hertóku Antwerpen og héldu henni þegar konungsríkið Belgía var stofnað. Því varð borgin belgísk, en ekki hollensk. Hollendingar héldu að vísu virkinu í borginni í tvö ár, en urðu að lokum að gefast upp og hverfa frá.

Ný gullöld[breyta | breyta frumkóða]

Belgískir hermenn verja Antwerpen í heimstyrjöldinni fyrri

1863 opnuðu Hollendingar fyrir siglingar um Westerschelde. Í kjölfarið upplifði Antwerpen nýtt blómaskeið, enda var höfnin stækkuð og samfelldur friður ríkti það sem eftir lifði 19. aldar. Með aukinni verslun, ásamt umrótum iðnbyltingarinnar, varð Antwerpen á ný að auðugri heimsborg. 1885 og 1894 voru heimssýningar haldnar þar í borg, sem milljónir manna sóttu heim. Einnig var fyrsta HM í fimleikum haldið í borginni árið 1903. Eftir hið mikla viðnám í borginni Liege í upphafi heimstyrjaldarinnar fyrri 1914 gegn þýska innrásarliðinu, hörfaði belgíski herinn til Antwerpen, ásamt ríkisstjórn landsins. Þjóðverjar gerðu umsátur um borgina og í 11 daga var hart barist. Að lokum flúði ríkisstjórnin og herinn úr borginni, ásamt um einni milljón Belga. Flestir fóru til Hollands. Síðustu belgísku hermennirnir yfirgáfu borgina 8. október 1914. Daginn eftir hertóku Þjóðverjar borgina og héldu henni til stríðsloka í nóvember 1918. Borgin náði sér fljótt eftir stríð. Til marks um það voru sumarólympíuleikarnir haldnir þar í borg 1920 og enn önnur heimssýning 1930.

Seinna stríð og nútími[breyta | breyta frumkóða]

Hluti af höfninni í Antwerpen

Þjóðverjar hertóku Antwerpen aftur í maí 1940, að þessu sinni nær bardagalaust. Sökum hernaðarmikilvægis hennar, t.d. vegna hafnarinnar og iðnaðarins, gerðu bandamenn ítrekaðar loftárásir á borgina. Þær hörðustu voru gerðar 5. apríl 1943, en þá létust um 2000 manns. Í september 1944 náðu Bretar að frelsa borgina. Sökum þess að höfnin reyndist óskemmd, varð hún að mikilvægri birgðastöð fyrir heri bandamanna. Á hinn bóginn gerðu nú Þjóðverjar loftárásir á Antwerpen, aðallega með flugskeytum, allt frá október 1944 til mars 1945. 1200 flugskeyti hæfðu borgina á þessum tíma. Í þessum árásum létust allt að 7000 manns. Flugskeytin voru svo fljót að ekki var hægt að vara við þeim. Þau lentu víða í borginni, íbúum oftast að óvörum. Time Magazine í New York kallaði borgina The City of Sudden Death (Borg hins óvænta dauða). Á hinn bóginn slapp höfnin aftur við allar meiriháttar skemmdir. Eftir stríð var höfnin í Antwerpen enn stækkuð. Hún var á þessum tíma þegar orðin stærsta borg landsins. Frá Antwerpen er hægt að sigla um skurði víða um landið, t.d. til fljótsins Maas. Í upphafi 21. aldar var höfnin sú sjötta stærsta í heimi hvað umsvif varðar. Antwerpen er einnig mikið stórveldi á efnahagssviðinu. Hún er mesta viðskiptaborg með demöntum, en til skamms tíma voru um 80% allra demanta heims seldir þar í borg. Ein 1.600 fyrirtæki sem versla með demönta eru staðsett í borginni einni saman. Nokkrar byggingar í miðborg Antwerpen eru á heimsminjaskrá UNESCO.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Sinksenfoor er heiti á skemmtigarði sem tvisvar á ári setur upp leiktjöld í borginni. Þar er boðið upp á 150 mismunandi skemmtiatriði og er garðurinn því einn sá stærsti í Belgíu.

Antwerp Pride er hátíð samkynhneigðra í borginni og er hún haldin árlega í júní.

Rubensmarkt heitir flóamarkaður í borginni sem helgar sig 17. öldinni. Verslunarfólk er klætt gömlum búningum og fötum eins og þau voru á 17. öld, á tímum málarans Rubens sem starfaði lengi í borginni.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Sumarólympíuleikarnir voru haldnir í Antwerpen haldnir 1920. Engir keppendur kepptu frá Íslandi en nokkrir Íslendingar kepptu fyrir hönd annarra þjóða.

WTA Antwerpen er tenniskeppni í borginni sem haldin var innanhús árlega frá 2002 til 2009.

Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er Beerschot AC, sem hét Germinal Beerschot til 2011, sem aftur varð til við samruna Germinal Ekeren og Beerschot VAC árið 1999. Félögin hafa hvert fyrir sig landað titlum, en síðasti titillinn var sigur í bikarkeppninni 2005. Með félaginu lék Íslendingurinn Jón Guðni Fjóluson leiktíðina 2011-12. Nökkvi Þeyr Þórisson spilar með félaginu (frá 2022).

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Peter Paul Rubens bjó og starfaði í Antwerpen. Sjálfsmynd ásamt eiginkonu sinni.

Antwerpen viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Frúarkirkjan
Rubenshúsið
  • Frúarkirkjan í Antwerpen er dómkirkja borgarinnar. Hún var reist 1352-1521, en aðeins annar turninn var reistur. Hann er 123 metra hár og þar með hæsti kirkjuturn Niðurlanda. Í kirkjunni eru nokkur málverk eftir málarann Peter Paul Rubens. Frúarkirkjan var sett á heimsminjaskrá UNESCO 1999.
  • Safn Plantin Moretus í Antwerpen er gömul prentsmiðja frá 16. öld. Hún var stofnuð 1555 af Plantin Moretus og var á sínum tíma ein stærsta prentsmiðja heims og jafnframt fyrsta iðnaðarprentsmiðja heims. Pressubekkirnir voru 16 og störfuðu rúmlega 80 manns við þá. 1876 keypti borgin húsið og breytti því í safn. Þar er nú elsta prentvél heims, en hún var smíðuð árið 1600. Safnið var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 2005 og var það fyrsta safnið sem komst á þann lista.
  • Rubenshuis (Rubenshús) er safn í borginni, en í húsinu bjó og starfaði flæmski málarinn Peter Paul Rubens. Það var hann sjálfur sem lét reisa bygginguna 1610 og bjó hann þar allt til dauðadags 1640. 1937 keypti borgin húsið og breytti því í safn 1946. Þar eru ýmsir munir frá tíð Rubens, sem og nokkur af málverkum hans.
  • Het Steen (Steinninn) er gamla borgarvirkið í Antwerpen. Það var reist á 12. öld og er því langelsta mannvirkið sem enn stendur í borginni. Virkið stendur við Schelde, að norðanverðu við borgina, og átti að verja hana fyrir óvinum sem komu upp Westerschelde. Síðar var virkið notað sem fangelsi og voru ófáir fangar teknir af lífi þar. 1823 var fangelsinu svo lokað. Eftir það var virkið ýmist notað sem íbúðarhús, sögunarverksmiðja og fiskilager. 1862 varð því breytt í fornmunasafn og er svo enn í dag. Einnig er í því sjóminjasafn.
  • Gamla ráðhúsið í Antwerpen er geysifögur bygging við aðalmarkaðstorgið. Það var reist 1561-65 í endurreisnarstíl. Neðst eru súlnagöng sem eitt sinn hýstu verslanir. Efsta hæðin er með langar svalir. Miðjustykkið er fagurlega skreytt styttum af konum sem tákna réttlæti og visku. Þar er einnig stytta af Maríu mey. Þrír stórir skildir hanga á framhliðinni. Sá fyrsti af greifadæminu Brabant, annar af spænsku Habsborgarlínunni, þriðji af markgreifadæminu Antwerpen. Byggingin var brennd af Spánverjum í Spænsku heiftinni 1576, en endurgert þremur árum síðar. Í húsinu eru nokkrir fagurlega skreyttir salir. Það er enn notað sem ráðhús í dag.
  • Begínuhverfið (Begijnhof) í Antwerpen er óvenjuleg vel viðhaldið. Það var reist á 13. öld upphaflega, en flest húsin eru frá 16. öld. Í hverfinu er kirkjan, Katrínarkirkja, í nýgotneskum stíl. Begínur lifðu óvenjulega lengi í hverfinu, langt fram á 20. öld. Síðasta begínan í hverfinu lést 1986. Hverfið hefur ekki verið sett á heimsminjaskrána enn.

Gallerí[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]