Fara í innihald

Dmítríj Múratov

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Dimitrí Múratov)
Dmítríj Múratov
Дмитрий Муратов
Dmítríj Múratov árið 2018.
Fæddur30. október 1961 (1961-10-30) (63 ára)
ÞjóðerniRússneskur
MenntunRíkisháskólinn í Kújbyshev (BA)
StörfBlaðamaður
FlokkurJabloko
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (2021)
Vefsíðanovayagazeta.ru/authors/12

Dmítríj Andrejevítsj Múratov (rússneska: Дмитрий Андреевич Муратов; f. 30 október 1961) er rússneskur blaðamaður, sjónvarpskynnir og ritstjóri rússneska fréttablaðsins Novaja Gazeta.[1] Hann vann til friðarverðlauna Nóbels árið 2021 ásamt filippseyska blaðamanninum Mariu Ressa fyrir baráttu þeirra í þágu fjölmiðlafrelsis í heimalöndum sínum.[2]

Múratov stofnaði Novaja Gazeta árið 1993 ásamt fleiri blaðamönnum. Hann var ritstjóri blaðsins frá 1995 til 2017 og tók aftur við því starfi árið 2019. Blaðið er þekkt fyrir að fjalla um viðkvæm málefni eins og spillingu og mannréttindabrot rússnesku ríkisstjórnarinnar.[3] Sem ritstjóri birti Múratov greinar eftir Önnu Polítkovskaja þar sem stjórn Vladímírs Pútín Rússlandsforseta var tekin til rannsóknar. Að sögn hópsins Nefndar til verndar blaðamönnum stofnaði Múratov „eina raunverulega gagnrýna fréttablaðið sem nýtur þjóðaráhrifa í Rússlandi samtímans.“[4] Blaðið hefur einnig leikið lykilhlutverk í að upplýsa fólk um rósturástandið í Téténíu og Norður-Kákasus.

Dmítríj Múratov fæddist þann 30. október 1961 í Kújbyshev, sem heitir í dag Samara. Hann nam í fimm ár við textafræðideild Rannsóknarháskólans í Kújbyshev, þar sem hann fékk áhuga á blaðamennsku. Á háskólaárum sínum vann hann í hlutastarfi fyrir nokkur svæðisdagblöð.

Eftir að Múratov lauk háskólanámi gegndi hann þjónustu í rauða hernum frá 1983 til 1985. Múratov vísar gjarnan til ára sinna í hernum og segist þar hafa haft umsjón með því að flokka hergögn.

Árið 1987 hóf Múratov störf sem blaðamaður hjá dagblaðinu Volzhkíj Komsomolets. Hann hlaut þar tækifæri til að tjá sig og yfirmönnum hans þótti svo mikið til hans koma að undir lok fyrsta árs hans þar var hann útnefndur deildarstjóri ungdómsdeildar Komsomolskaja Pravda. Hann fékk síðan stöðuhækkun og var gerður aðalritstjóri blaðagreina.[5]

Dmítríj Múratov hætti störfum hjá Komsomolskaja Pravda árið 1988. Árið 1993 stofnaði hann ásamt rúmlega 50 samstarfsmönnum sínum nýtt blað fyrir stjórnarandstæðinga, Novaja Gazeta. Markmið þeirra var að reka „heiðarlegan og sjálfstæðan“ fjölmiðil fyrir rússneska borgara.[6] Jafnframt vildu stofnendur blaðsins beina kastljósi að mannréttindamálum og valdníðslu stjórnvalda. Rekstur Novaja Gazeta hófst með aðeins tveimur tölvum, tveimur herbergjum, einum prentara og engum föstum launum fyrir starfsfólkið. Míkhaíl Gorbatsjov, fyrrum leiðtogi Sovétríkjanna, gaf hluta af verðlaunafé sínu eftir að hafa unnið friðarverðlaun Nóbels til þess að borga kaup og tölvur blaðsins.

Novaja Gazeta afhjúpaði peningaþvætti hjá rússneska Alþjóðlega iðnbankanum þann 26. nóvember 2001. Múratov lét vopna blaðamenn sína og þjálfa þá í vopnaburði eftir að blaðið varð fyrir ítrekuðum árásum. Fjöldi blaðamanna hjá Novaja Gazeta hefur látist undir grunsamlegum kringumstæðum í gegnum árin.[7] Múratov sagði af sér sem ritstjóri árið 2017 og viðurkenndi að starfið hefði verið lýjandi.[8] Hann sneri aftur til starfa árið 2019 eftir að starfsfólk blaðsins kaus að gera hann aftur að ritstjóra.[9]

Dmítríj Múratov hefur fengið fjölda verðlauna og viðurkenninga á ferli sínum. Hann hlaut Alþjóðlegu fjölmiðlafrelsisverðlaunin frá Nefndinni til verndar blaðamanna árið 2007 fyrir hugdirfsku sína í baráttu fyrir fjölmiðlafrelsis í hættulegu umhverfi.[10] Þann 29. janúar 2010 sæmdi ríkisstjórn Frakklands hann frönsku heiðursorðunni, æðstu viðurkenningu sem veitt er af hinu opinbera í Frakklandi.[11] Múratov fór til Hollands í maí árið 2010 og tók við Fjórfrelsisverðlaunum Roosevelt-stofnunarinnar fyrir hönd Novaja Gazeta.[12] Árið 2016 tók hann við Gullpenna frelsisins frá Alþjóðasambandi dagblaða.

Múratov hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2021 ásamt filippseyskri starfssystur sinni, Mariu Ressa. Hann tileinkaði verðlaunin sex blaðamönnum sem hafa verið myrtir í starfi hjá honum í Rússlandi.[13]

Árið 2022 gagnrýndi Múratov innrás Rússa í Úkraínu og lét prenta eintök af Novaja Gazeta bæði á rússnesku og úkraínsku til að sýna Úkraínumönnum stuðning.[14] Hann setti Nóbelsverðlaunamedalíu sína á uppboð fyrir styrktarsjóð til stuðnings úkraínsks flóttafólks.[15] Þann 28. mars gerði Múratov hlé á útgáfu Novaja Gazeta svo lengi sem stríðið varir til þess að blaðið þurfi ekki að sæta ritskoðun á umfjöllun um innrásina.[16]

Ráðist var að Múratov þann 7. apríl í járnbrautarlest og rauðri málningu með asetóni skvett yfir hann úr fötu, að því er virðist vegna umfjöllunar hans um stríðið í Úkraínu.[17] Bandarískir embættismenn sögðu rússnesku leyniþjónustuna síðar hafa staðið fyrir árásinni.[18]

Í september 2022 ógilti rússneskur dómstóll prentleyfi Novaja Gazeta með vísan til þess að blaðið hefði ekki tilkynnt um eigendaskipti árið 2006 með réttum hætti. Múratov kallaði niðurstöðuna „pólitíska aftöku án nokkurrar lagastoðar“.[19]

Stjórnmálaskoðanir

[breyta | breyta frumkóða]

Dmítríj Múratov er meðlimur í stjórnmálaflokknum Jabloko, frjálslyndisflokki sem var stofnaður árið 1993 af fyrrum varaforsætisráðherra Sovétríkjanna, Grígoríj Javlínskíj.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Главным редактором "Новой газеты" стал Сергей Кожеуров“. Novaya Gazeta. 17. nóvember 2017. Afrit af upprunalegu geymt þann 17 nóvember 2017. Sótt 17. nóvember 2017.
  2. „Múratov og Ressa hljóta friðarverðlaunin“. mbl.is. 8. október 2021. Sótt 8. október 2021.
  3. „Dmitry Muratov, Editor of Novaya Gazeta, Russia“.
  4. „Biography of 2016 Golden Pen of Freedom Laureate Dmitry Muratov“. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. október 2020. Sótt 8. október 2021.
  5. „Dmitry Muratov: biografija, novinarske aktivnosti“.
  6. „Dmitry Muratov, Editor of Novaya Gazeta, Russia“.
  7. „Russian opposition newspaper will arm its journalists“. The Guardian. 26. október 2017. Sótt 8. október 2021.
  8. „After 22 Years, Novaya Gazeta Editor Dmitry Muratov Steps Down“. The Moscow Times.
  9. „Russian media veteran Dmitry Muratov returns to 'Novaya Gazeta' editor-in-chief post“. Sótt 8. október 2021.
  10. „CPJ To Honor Five Journalists“. Committee to Protect Journalists. 24. september 2007. Sótt 8. október 2021.
  11. „Longtime Novaya Gazeta Chief Editor To Step Down“.
  12. „THE FRANKLIN DELANO ROOSEVELTFOUR FREEDOMS AWARDS2010“ (PDF).
  13. Samúel Karl Ólason (8. október 2021). „Tileinkar friðarverðlauninn sex blaðamönnum hans sem voru myrtir“. Vísir. Sótt 8. október 2021.
  14. Aðalheiður Ámundadóttir (24. febrúar 2022). „Ó­sáttur rúss­neskur rit­stjóri ætlar að gefa dag­blað sitt út á úkraínsku“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. september 2022. Sótt 1. mars 2022.
  15. Lovísa Arnardóttir (22. mars 2022). „Gefur Nóbelsverðlaunin í upp­boð fyrir flótta­fólk frá Úkraínu“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. september 2022. Sótt 23. mars 2022.
  16. „Blað rússnesks nóbelsverðlaunahafa gerir útgáfuhlé“. mbl.is. 28. mars 2022. Sótt 31. mars 2022.
  17. Einar Þór Sigurðsson (8. apríl 2022). „Nóbels­verð­launa­hafi varð fyrir árás í Rúss­landi“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. september 2022. Sótt 14. maí 2022.
  18. Einar Þór Sigurðsson (29. apríl 2022). „Leyni­þjónustan sögð hafa staðið á bak við á­rásina“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. september 2022. Sótt 14. maí 2022.
  19. „Þrengja enn að rússneskum fjölmiðlum og ógilda prentleyfi Novaya Gazeta“. Stundin. 5. september 2022. Sótt 6. september 2022.