Novaja Gazeta

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Novaja Gazeta
RitstjóriDmítríj Múratov
ÚtgáfutíðniÞrisvar á viku
StofnandiHópur fyrrum blaðamanna frá Komsomolskaja pravda
Stofnár1. apríl 1993; fyrir 30 árum (1993-04-01)
ÚtgefandiANO RID Novaja gazeta
LandRússland
HöfuðstöðvarMoskva
Vefurhttps://novayagazeta.ru/
ISSN1682-7384
OCLC-númer58481623
Stafræn endurgerð[1]

Novaja gazeta (rússneska: Новая газета; bókstaflega Nýja blaðið) er rússneskt dagblað sem hefur komið út frá árinu 1993. Blaðið kemur út þrisvar á viku og er þekkt fyrir baráttu sína í þágu tjáningarfrelsis í Rússlandi. Árið 2021 hlaut ritstjóri blaðsins, Dmítríj Múratov, friðarverðlaun Nóbels ásamt filippseysku blaðakonunni Mariu Ressa fyrir að verja tjáningarfrelsi og fjölmiðlafrelsi í heimalöndum sínum.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Novaja gazeta var stofnað árið 1993 af hópi blaðamanna sem hættu störfum hjá dagblaðinu Komsomolskaja Pravda í von um að geta stofnað nýtt dagblað til að fjalla um hversdagsleg vandamál í rússnesku samfélagi. Blaðið var upphaflega stofnað undir nafninu Novaja jezhednevnaja gazeta (ísl. Nýja dagblaðið) en nafnið var síðar stytt í Novaja gazeta (Nýja blaðið). Míkhaíl Gorbatsjov, fyrrum forseti Sovétríkjanna, varði verðlaunafé sínu eftir að hafa unnið friðarverðlaun Nóbels árið 1990 til að hjálpa blaðinu af stað og kaupa fyrstu tölvurnar á skrifstofu þess.[1]

Þrátt fyrir að blaðið stæðist ekki allar þær kröfur sem það hafði gert til sjálfs sín varð Novaja gazeta að sjálfstæðu dagblaði og varð fyrir vikið fyrir fjölda lögsókna. Árið 2017 kallaði The Washington Post blaðið „helsta málgagn rússnesku stjórnarandstöðunnar.“[2]

Frá árinu 2000 hafa sex blaðamenn Novaja gazeta verið myrtir.[3] Þau höfðu í greinum sínum fjallað um spillingu, mannréttindabrot og um voðaverk í Téténíustríðunum:

Árið 2017 ákvað ritstjóri Novaja gazeta, Dmítríj Múratov, að vopna allt starfsfólk sitt með byssum hlöðnum með gúmmíkúlum af ótta um öryggi þeirra.[2]

Þann 1. ágúst 2017 tók hverfisdómstóll í Basmanníj í Moskvu þá ákvörðun að brottvísa starfsmanni Novaja gazeta, Alí Ferúz, til Úsbekistan. Ákvörðunin vakti hörð viðbrögð þar sem Ferúz gat átt von á ofsóknum og pyntingum í Úsbekistan vegna stuðnings síns við réttindi samkynhneigðra. Hæstiréttur Rússlands ógilti ákvörðunina í kjölfarið og heimilaði Ferúz að yfirgefa Rússland til þriðja ríkis.[4]

Míkhaíl Gorbatsjov og rússneski milljarðamæringurinn og fyrrum þingmaðurinn Aleksandr Lebedev áttu saman tæpan fjórðungshlut í Novaja gazeta. Starfsfólk blaðsins á saman hin 76 prósentin.

Þann 1. apríl 2017 birti blaðið grein eftir Jelenu Mílashínu þar sem ofsóknir yfirvalda Téténíu á samkynhneigðum karlmönnum voru fordæmdar.[5] Í kjölfarið gáfu klerkar í Mosku Akhmads Kadyrov í Grozníj út yfirlýsingu þar sem því var heitið að blaðamönnum Novaja gazeta yrði „refsað.“[6]

Þrír blaðamenn Novaja gazeta, þeir Kíríll Radtsjen­ko, Aleksandr Ras­torgújev og Ork­h­an Dzhemal, voru drepnir í Mið-Afríkulýðveldinu árið 2018. Þeir voru staddir þar til að rannsaka starfsemi rússneska Wagner-hópsins í landinu.[7]

Árið 2021 var ritstjóri Novaja gazeta, Dmítríj Múratov, sæmdur friðarverðlaunum Nóbels ásamt filippseysku blaðakonunni Mariu Ressa fyrir framtak þeirra í baráttu fyrir tjáningar- og fjölmiðlafrelsi.[8]

Í mars árið 2022, eftir upphaf innrásar Rússa í Úkraínu, fékk Novaja gazeta nokkrar áminningar fyrir brot gegn lögum um meinta erlenda útsendara í Rússlandi. Blaðið neyddist síðan til að gera hlé á útgáfu sinni vegna nýrra laga sem lögðu allt að fimmtán ára fangelsisvist við dreifingu „rangra“ upplýsinga um gang stríðsins (þ. e. upplýsinga sem samræmast ekki sýn Kremlar á átökin).[9]

Þann 7. apríl 2022 varð Dmítríj Múratov fyrir árás á lestarstöð í Moskvu þar sem rauðri málningu með asetóni sem brenndi augu hans var skvett á hann.[10] Síðar sama mánuð stofnaði Novaja gazeta nýja útgáfu með aðsetur í Ríga í Lettlandi til þess að geta komist í kringum ritskoðun og hótanir frá rússneskum stjórnvöldum.[11]

Í september 2022 ógilti rússneskur dómstóll prentleyfi Novaja gazeta með vísan til þess að blaðið hefði ekki tilkynnt um eigendaskipti árið 2006 með réttum hætti. Múratov kallaði niðurstöðuna „pólitíska aftöku án nokkurrar lagastoðar“.[12]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „Gorbachev Buys into Kremlin's Most Vocal Critic“. MosNews. 7. júní 2006. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. júní 2006.
 2. 2,0 2,1 Andrew Roth (26. október 2017). „Editor of Russia's biggest opposition newspaper says he will arm his staff to protect them from attacks“. washingtonpost.com (enska). The Washington Post. Sótt 6. september 2022.
 3. Axel Gyldéen og Alla Chevelkina, « Novaïa Gazeta, le journal qui dit Niet au Kremlin », L'Express, 18. nóvember 2009.
 4. „Gay reporter to avoid deportation to Uzbekistan after Russia ruling - The Express Tribune“ (bandarísk enska). The Express Tribune. 2. febrúar 2018. Sótt 6. september 2022.
 5. Russia: Chechen Officials and Clerics Threaten Journalists, Mannréttindavaktin, 17. apríl 2017.
 6. Laurence Habay (18. apríl 2017). „Russie. Homosexuels persécutés : le régime tchétchène n'en fait qu'à sa tête“ (franska). Courrier international. Sótt 6. september 2022.
 7. „Engin merki um pyntingar“. mbl.is. 2. ágúst2018. Sótt 31. janúar 2022.
 8. „Múratov og Ressa hljóta friðarverðlaunin“. mbl.is. 8. október 2021. Sótt 8. október 2021.
 9. „Blað rússnesks nóbelsverðlaunahafa gerir útgáfuhlé“. mbl.is. 28. mars 2022. Sótt 31. mars 2022.
 10. Einar Þór Sigurðsson (8. apríl 2022). „Nóbels­verð­launa­hafi varð fyrir árás í Rúss­landi“. Fréttablaðið. Sótt 14. maí 2022.
 11. „Suspendue en Russie, «Novaïa Gazeta» écrit une nouvelle page en Lettonie“. Libération. 18 avril 2022. Sótt 31. mars 2022.
 12. „Þrengja enn að rússneskum fjölmiðlum og ógilda prentleyfi Novaya Gazeta“. Stundin. 5. september 2022. Sótt 6. september 2022.