Bandaríska Samóa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
American Samoa
Fáni Bandarísku Samóa Skjaldarmerki Bandarísku Samóa
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Samoa, Muamua Le Atua
(samóska: Guð veri fyrstur)
Þjóðsöngur:
Amerika Samoa
Staðsetning Bandarísku Samóa
Höfuðborg Pagó Pagó
Opinbert tungumál samóska og enska
Stjórnarfar Lýðveldi

Þjóðhöfðingi Joe Biden
Landstjóri Lemanu Peleti Mauga
Bandarískt yfirráðasvæði
 • Skipting Samóa 1899 
Flatarmál
 • Samtals

200 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
208. sæti
55.212
259/km²
VLF (KMJ) áætl. 2016
 • Samtals 0,658 millj. dala
 • Á mann 11.200 dalir
Gjaldmiðill Bandaríkjadalur
Tímabelti UTC-11
Þjóðarlén .as
Landsnúmer +1 684

Bandaríska Samóa (samóska: Amerika Sāmoa; enska: American Samoa) er bandarískt yfirráðasvæði í Suður-Kyrrahafi, suðaustan við sjálfstæða ríkið Samóa. Bandaríska Samóa er austan við daglínuna en Samóa er vestan megin. Eyjunum var skipt með samningi milli Þýskalands og Bandaríkjanna árið 1899.

Bandaríska Samóa eru fimm aðaleyjar og tvö kóralhringrif. Stærsta og fjölmennasta eyjan er Tutuila, en auk hennar eru þar Manu'a-eyjar, Rose-rif og Swains-eyja. Bandaríska Samóa er sá hluti Samóaeyja sem er vestan við Cooks-eyjar, norðan við Tonga og um 500 km sunnan við Tókelá. Í vestur eru Wallis- og Fútúnaeyjar. Bandaríska Samóa er syðsta yfirráðasvæði Bandaríkjanna og, ásamt Jarvis-eyju, annað tveggja sunnan miðbaugs. Helstu útflutningsafurðir eyjanna eru túnfiskur og helsta viðskiptaland þeirra er Bandaríkin.

Samóaeyjar hafa verið byggðar Pólýnesum frá því um 850 e.Kr. Franski landkönnuðurinn Louis-Antoine de Bougainville kom til eyjanna árið 1768 og nefndi þær „Stýrimannseyjar“. Á 19. öld hófu Evrópumenn trúboð á eyjunum. Í mars 1889 hófst Samóadeilan þegar Þjóðverjar gerðu innrás. Þrjú bandarísk herskip voru send til hafnarinnar í Apia til að ráðast á þrjú þýsk herskip sem þar voru. Áður en til átaka kom sökkti fellibylur öllum skipunum sem leiddi til vopnahlés. Deilan var leyst árið 1899 með þríhliða samningi milli Þjóðverja, Bandaríkjamanna og Breta sem kvað á um skiptingu eyjanna í tvennt. Bandaríkin fengu eystri hlutann. Bandaríkjamenn lögðu svo eyjarnar undir sig á næstu árum með því að neyða höfðingja eyjanna til að undirrita skjöl sem afhentu þeim yfirráð yfir landinu. Bandaríski sjóherinn fór með stjórn eyjanna. Árið 1956 tók svæðiskjörinn landstjóri við af þeim sem bandaríski sjóherinn hafði skipað. Jarðskjálftinn við Samóa 2009 olli miklu tjóni og tugir manna létust.

Í Bandaríska Samóa búa um 55.000 manns sem flestir eru jafnvígir á ensku og samósku. Þaðan kemur hæsta hlutfall nýliða í Bandaríkjaher af öllum yfirráðasvæðum Bandaríkjanna. Bandaríska Samóa hefur verið aðili að Kyrrahafssambandinu frá 1983.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Map of American Samoa

Bandaríska Samóa er hluti af Eyjaálfu og er annað af tveimur yfirráðasvæðum Bandaríkjanna á suðurhveli jarðar. Hitt svæðið er Jarvis-eyja. Heildarlandsvæði Bandarísku Samóa er um 200 ferkílómetrar, sem er örlítið stærra en Washington D.C., og nær yfir fimm fjalllendar eldfjallaeyjar og tvö hringrif.[1] Eldfjallaeyjarnar fimm eru Tutuila, Aunu'u, Ofu, Olosega og Ta‘ū. Hringrifin eru Swains-eyja og Rose-rif. Af þessum sjö eyjum er aðeins Rose-rif óbyggt; það er hafminjasvæði. Bandaríska Samóa nær syðst allra yfirráðasvæða Bandaríkjanna, fjórtán gráður sunnan miðbaugs.[2]

Ofu-strönd á Ofu-Olosega sem er hluti af Manu'a-eyjum.
Strönd Bandarísku Saóma (á Vatia).

Vegna staðsetningarinnar í Suður-Kyrrahafi er Bandaríska Samóa oft í leið fellibylja frá nóvember til apríl. Rose-rif er austasti hluti svæðisins og er einn af útpunktum Bandaríkjanna. [3] Þjóðgarðurinn á Bandarísku Samóa er í Bandarísku Samóa.

Hæstu fjöll landsins eru Lata-fjall (Ta‘ū), 970m; Matafao-tindur, 653m; Piumafua (Olosega), 639m; og Tumutumu (Ofu), 494m. Pioa-fjall, sem er uppnefnt „Rainmaker“, er 524m. Bandaríska Samóa býr líka yfir einhverjum af hæstu sjávarklettum heims, 910m á hæð.[4]

Vailulu'u er neðansjávareldfjall sem liggur 45 km austan við Ta‘ū á Bandarísku Samóa. Það var uppgötvað árið 1975 og hefur verið rannsakað síðan af alþjóðlegu teymi vísindamanna, sem hefur leitt til aukins skilnings á hreyfingum jarðskorpunnar.[5] Inni í gíg Va'ilulu er virk neðansjávareldkeila sem heitir Nafanua eftir stríðsgyðju Samóa.

Veðurfar[breyta | breyta frumkóða]

Á Bandarísku Samóa ríkir hitabeltisloftslag allt árið, með tvær árstíðir; þurrkatíma og regntíma. Regntíminn er venjulega frá desember fram í mars, og þurrkatíminn frá apríl til september. Meðalhiti er 27-28°C árið um kring.

Loftslag á Bandarísku Samóa er heitt og rakt. Meðalhiti er um 26,7°C og sveiflast um 8° yfir árið. Vetur á suðurhveli, frá júní fram í september, er svalasti tími ársins. Sumarmánuðina, frá desember til mars, er mestur hiti, en þurrkatíminn nær frá apríl til nóvember. Samt sem áður fellur regn nær daglega úr skýjum sem ferðast með staðvindum að eyjunum. Þau stöðvast við fjöllin umhverfis Pagó Pagó-höfn þar sem meðalársúrkoma er um 5.100 mm.[6]

Samgöngur[breyta | breyta frumkóða]

Vegaskilti á Bandarísku Samóa.

Á Bandarísku Samóa eru 240 km af þjóðvegum (áætlað 2008).[7] Hámarkshraði er 30 mílur á klukkustund.[8] Hafnir eru meðal annars í Aunu'u, Auasi, Faleāsao, Ofu-Olosega og Pagó Pagó.[7] Engar járnbrautir eru á Samóa. Aðalflugvöllurinn er Alþjóðaflugvöllurinn í Pagó Pagó á Tutuila. Tveir flugvellir eru á Manu'a-eyjum: Ofu-flugvöllur á Ofu, og Fitiuta-flugvöllur á Ta'u. Samkvæmt gögnum frá 1999 er enginn kaupskipafloti á eyjunum.[7]

Þann 8. júní 1922 hóf fyrsta almenningsvagnakerfið starfsemi.[9] Núverandi kerfi almenningsvagna er kallað aiga. Í því eru vagnar sem fara um Tutuila.[10][11]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Insular Area Summary for American Samoa“. U.S. Department of the Interior. 6. apríl, 2010. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. október, 2009. Sótt 11. apríl, 2011.
  2. Rauzon, Mark J. (2016). Isles of Amnesia: The History, Geography, and Restoration of America's Forgotten Pacific Islands. University of Hawai'i Press, Latitude 20. p. 7. ISBN 978-0824846794.
  3. http://www.fpir.noaa.gov/MNM/mnm_roseatoll.html Geymt 17 janúar 2018 í Wayback Machine Marine National Monument Program (Rose Atoll). NOAA.gov. Sótt 1. janúar 2018.
  4. Harris, Ann G. og Esther Tuttle (2004). Geology of National Parks. Kendall Hunt. p. 603. ISBN 978-0787299705.
  5. Hart, S.R.; og fleiri (8. desember, 2000). „Vailulu'u undersea volcano: The New Samoa“ (PDF). G3, an Electronic Journal of the Earth Sciences, American Geophysical Union. Research Letter, Vol. 1. Paper number 2000GC000108. Pacific Marine Environmental Laboratory, National Oceanic and Atmospheric Administration. 1 (12): n/a. Bibcode:2000GGG.....1.1056H. doi:10.1029/2000GC000108. ISSN 1525-2027. Afrit (PDF) af uppruna á 14. maí 2011. Sótt 20. mars, 2011.
  6. Sunia, Fofo I.F. (2009). A History of American Samoa. Amerika Samoa Humanities Council. ISBN 978-1573062992.
  7. 7,0 7,1 7,2 „Archived copy“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 13. maí, 2017. Sótt 14. júlí, 2017.
  8. http://www.asbar.org/index.php?option=com_content&view=category&id=583&Itemid=172 Geymt 8 október 2014 í Wayback Machine Asbar.org. Title 22 – Highways and Motor Vehicles. Chapter 03 – Rules of the Road. Sótt 30. ágúst, 2019.
  9. „Freedom Run and Obstacle Course back for third year“. www.samoanews.com. 11. júní, 2018. Afrit af uppruna á 18. ágúst, 2019. Sótt 27. ágúst, 2019.
  10. https://americansamoatourism.com/getting-around-bus Geymt 30 ágúst 2019 í Wayback Machine Americansamoatourism.com. Getting around on the bus. Sótt 30. ágúst, 2019.
  11. https://www.frommers.com/destinations/american-samoa/planning-a-trip Geymt 14 ágúst 2019 í Wayback Machine Frommer's – Planning a trip in American Samoa. Sótt 30. ágúst, 2019.
  Þessi Bandaríkja-tengda grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.