Fara í innihald

Marshalleyjar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Aolepān Aorōkin M̧ajeļ
Republic of the Marshall Islands
Fáni Marshalleyja Skjaldarmerki Marshalleyja
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Jepilpilin ke ejukaan (marshalleyska)
Árangur með sameiginlegu átaki
Þjóðsöngur:
Forever Marshall Islands
Staðsetning Marshalleyja
Höfuðborg Majúró
Opinbert tungumál Marshalleyska og enska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Hilda Heine
Sjálfstæði
 • frá Bandaríkjunum 21. október 1986 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
213. sæti
181, 43 km²
~0
Mannfjöldi
 • Samtals (2018)
 • Þéttleiki byggðar
211. sæti
58.413
293/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 0,215 millj. dala (193. sæti)
 • Á mann 3.789 dalir (150. sæti)
VÞL (2019) 0.704 (117. sæti)
Gjaldmiðill Bandaríkjadalur
Tímabelti UTC+12
Þjóðarlén .mh
Landsnúmer +692

Marshalleyjar eru míkrónesískt eyríki í Vestur-Kyrrahafi, norðan við Nárú og Kíribatí, austan við Sambandsríki Míkrónesíu og sunnan við Varsímaeyju. Eyjarnar voru í umsjá Bandaríkjanna til 1979 þegar lýðveldi var stofnað (í sérstöku sambandi við Bandaríkin). Fullt sjálfstæði var staðfest árið 1990. Marshalleyjar gera tilkall til Varsímaeyju sem er undir stjórn Bandaríkjanna.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Míkrónesar hófu búsetu á eyjunum á 2. árþúsundinu f.Kr. en annars er lítið vitað um sögu þeirra. Spænski landkönnuðurinn Alonso de Salazar lenti við eyjarnar 1529 en Evrópubúar komu þangað sjaldan næstu aldirnar. Eyjarnar voru nefndar í höfuðið á breska skipstjóranum John Marshall sem kom þangað árið 1788. Spánn gerði tilkall til eyjanna árið 1874.

Árið 1885 setti þýskt fyrirtæki upp verslunarstöð á Jaluit-rifi til að kaupa hið verðmæta kopra (þurrkaður kókoshnetukjarni) og fyrir milligöngu páfa viðurkenndi Spánn yfirráð Þýskalands gegn bótagreiðslu.

Í upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar tók Japan yfir stjórn eyjanna. Eftir stríðið lýsti Þjóðabandalagið því yfir að eyjarnar væru japanskt umdæmi. Í síðari heimsstyrjöldinni, árið 1944, lögðu Bandaríkjamenn eyjarnar undir sig og síðar urðu þær hluti af Kyrrahafseyjaverndarsvæði Bandaríkjanna.

Til 1958 gerðu Bandaríkjamenn tugi kjarnorkutilrauna á eyjunum og enn standa yfir málaferli vegna heilsufarslegs skaða sem tilraunirnar ollu íbúunum.

1979 fengu eyjarnar heimastjórn og þær gerðust frjálst sambandsland Bandaríkjanna árið 1986 þegar þær urðu fullvalda ríki. Formlegt sjálfstæði fékkst árið 1990 í gegnum Sameinuðu þjóðirnar.

21. mars 2007 lýsti stjórn eyjanna yfir neyðarástandi eftir að langvarandi þurrkar urðu til þess að ekkert vatn var eftir á eyjunum.

Landafræði[breyta | breyta frumkóða]

Kort af Marshalleyjum.

Marshalleyjar eru 29 hringrif og fimm stakar eyjar. Stærstu hringrifin og eyjarnar mynda tvo eyjaklasa, Ratakeyjaklasann og Ralikeyjaklasann. Tveir þriðju hlutar íbúanna búa í borginni Majúró, sem er jafnframt höfuðborg eyjanna, og Ebeye. Ytri eyjarnar eru strjálbýlli þar sem þar eru minni atvinnutækifæri og líf þar byggir á hefðbundnum veiðum og söfnun.

Mestur hluti landsvæðis eyjanna er við sjávarmál. Loftslag á eyjunum er heitt og rakt. Margir hvirfilvindar í Kyrrahafi eiga upptök sín við Marshalleyjar og vaxa eftir því sem þeir færast vestar yfir Maríanaeyjar og Filippseyjar.

Marshalleyjar gera tilkall til Varsímaeyju sem er undir stjórn Bandaríkjanna.

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Marshalleyjar eru lýðveldi með forsetaræði. Hvert af 24 kjördæmum landsins kýs einn fulltrúa í neðri deild þings eyjanna (nema höfuðborgin Majuro sem kýs fimm fulltrúa). Neðri deildin fer með löggjafarvald. Efri deild þingsins er ráð tólf ættbálkahöfðingja. Fulltrúarnir kjósa síðan forseta.

Forseti eyjanna skipar tíu ráðherra ríkisstjórn sem fer með framkvæmdavaldið í umboði þingsins.

Umdæmin 24 eru:

Efnahagslíf[breyta | breyta frumkóða]

Uppistaðan í efnahagslífi Marshalleyja er fjárhagsaðstoð frá Bandaríkjunum. Nokkur landbúnaður fer fram á litlum sveitabæjum, aðallega ræktun kókoshneta, tómata, melóna og brauðávaxta. Smáiðnaður er rekinn kringum handverk, fiskvinnslu og framleiðslu kopra. Innan við 10% íbúa vinna við ferðaþjónustu.

Marshalleyjar eru ekki aðilar að Alþjóðavinnumálastofnuninni og því ekki bundnar af samningum um grundvallarréttindi verkafólks (bann við nauðungarvinnu, bann við barnaþrælkun og réttur verkafólks til að mynda samtök).

Bandaríkin reka herflugvöll og skotpall fyrir flugskeyti á Kwajaleinrifi sem veitir nokkrum íbúum atvinnu og skapar leigutekjur af landinu.

Menning[breyta | breyta frumkóða]

Marshalleyingar eru Míkrónesar að uppruna og fluttust forfeður þeirra til eyjanna frá Asíu fyrir um fjögur þúsund árum. Marshalleyska er það tungumál sem almennt er talað þótt enska sé líka opinbert tungumál eyjanna. Japanska er einnig víða töluð. Nánast allir íbúar eyjanna aðhyllast mótmælendatrú.

Marshalleyingar hafa löngum verið færir í siglingum á eintrjáningum og gátu stýrt eftir stjörnunum og kortum gerðum úr skeljum og spýtum. Árlega eru haldnar siglingakeppnir á eintrjáningum og tvíbytnum.

Samfélagsgerð Marshalleyja byggist á landareign. Allir eyjarskeggjar eiga rétt á landi í gegnum þá ætt (jowi) sem þeir tilheyra. Ættarhöfðingjar (Alap) sjá um daglegan rekstur landsins en ættbálkahöfðingjarnir (Iroij) stjórna landnotkun og dreifingu afurðanna og setja niður deilumál. Neðstir í virðingarstiganum eru verkamenn (Rijerbal). Börn tilheyra ætt móður sinnar.