Jarviseyja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Jarvis-eyja)
Kort af Jarviseyju

Jarviseyja er óbyggð 4,5 km² stór eyja í Suður-Kyrrahafi um miðja vegu milli Hawaii og Cooks-eyja. Hún er yfirráðasvæði Bandaríkjanna. Engin vatnsból eru á eyjunni og engin höfn, en í Millersville eru leifar byggðar frá árunum 1935 til 1942. Þar er stundum höfð veðurstöð. Mjótt kóralrif er umhverfis eyjuna.

Eyjan sást fyrst þann 21. ágúst 1821 frá breska skipinu Eliza Francis sem var í eigu Edwards, Thomas og William Jarvis. Bandaríkin gerðu tilkall til eyjarinnar 1857 og innlimuðu hana formlega árið 1858, en yfirgáfu hana 1879 eftir að hafa numið þar mikið magn af gúanói. Bretland innlimaði eyjuna 1889 en nýtti hana ekki frekar. Bandaríkjamenn tóku eyjuna svo aftur yfir árið 1935.

Komur í eyjuna eru háðar sérstöku leyfi.