Colorado

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Flagg Skjöldur
Kortið sýnir staðsetningu Colorado
Kort.
Skógur við San Juan-fjöll.

Colorado er fylki í Bandaríkjunum. Fylkið dregur nafn sitt af Colorado-fljóti sem var nefnt af spænskum landkönnuðum og merkir einfaldlega rauðleita áin. Árið 2016 bjuggu 5.540.545 manns í fylkinu.

Landafræði og náttúrufar[breyta | breyta frumkóða]

Colorado er er ferkantað að lögun og 269.837 ferkílómetrar að stærð. Fylkið liggur að Wyoming í norðri, Nebraska í norðaustri, Kansas í austri, Oklahoma í suðaustri, New Mexico í suðri og Utah í vestri. Colorado og Arizona eru horn í horn í suðvestri.

Colorado er eina fylki Bandaríkjanna sem liggur yfir 1000 metra yfir sjó að öllu leyti en lægsti punkturinn er 1011 metrar. Suðurhluti Klettafjalla liggur um fylkið. Mount Elbert er hæsti punkturinn (og hæsta fjall Klettafjalla); 4401 metrar. 53 tindar ná hæð yfir 4267 metra eða 14.000 fet (kallaðir forteeners). Trjálínan er í 3700 metra hæð. Þjóðskógar og þjóðgarðar þekja um 100.000 ferkílómetra í fylkinu eða 37% alls lands. Broddgreni er fylkistréð.

Fjöll, skóga, sléttur, hásléttur, gljúfur og eyðimerkur má finna í fylkinu. Colorado-fljót er stærsta áin og myndar gljúfur. Colorado-sléttan er í vesturhluta fylkisins og er það þurrt svæði.

Þjóðgarðar eru Great Sand Dunes-þjóðgarðurinn og verndarsvæði, Rocky Mountain-þjóðgarðurinn og Black Canyon of the Gunnison National Park. Fjöldi annarra verndaðra svæða, svokallaðra national monument eru í Colorado, þar á meðal The Colorado National Monument og Dinosaur National Monument.

Meginlandsloftslag er í fylkinu og hæsti hiti sem mælst hefur er 48 °C en lægsti hitinn −52 °C.

Samfélag[breyta | breyta frumkóða]

Höfuðborg Colorado heitir Denver og er jafnframt stærsta borg fylkisins. 70% af íbúum fylkisins búa austur af Klettafjöllum og er svæðið Denver-Aurora-Boulder með 3.157.520 íbúa. Hvítir eru 81.3%, svartir 4% asískir 2,8%. Um 21% eru af rómönskum uppruna (hispanics). En Colorado er það fylki með 6. hæstu prósentu mexíkansk-amerískra íbúa. Colorado Springs er næststærsta borgin. Vinsæll skíðastaður er Aspen.

Helstu trúarbrögð eru kristni; 66% (44% mótmælendur, 19% kaþólskir og 3% mormónar), gyðingdómur 2%, islam 1%, búddismi: 1%, hindúismi 0,5%. Ótengdir trúarbrögðum eru 25%.

Landbúnaðarframleiðsla er aðallega: Nautgriparækt, hveiti, mjólkurvörur og korn. Atvinnugreinar eins og hátækniiðnaður og fjármálaiðnaður hafa aukist í mikilvægi síðustu ár.

Árið 2013 varð Colorado fyrsta fylkið til að lögleiða maríjúana.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Frumbyggjar höfðu búið í meira en 13.000 ár á svæðinu áður en Evrópubúar komu þangar. Ættbálkar eins og Apache, Comanche, Ute og Pueblo hittu Evrópubúar fyrir.

Með Louisiana-kaupunum frá Frökkum árið 1803 áttu Bandaríkjamenn tilkall til svæðis austur af Klettafjöllum. En þetta gekk í berhögg við tilkall Spánverja til svæðisins. Síðar varð Mexíkó sjálfstætt ríki frá Spáni og eftir stríð við Bandaríkin (1848) lét það af hendi norðursvæði sitt sem innihélt meðal annars Colorado. Árið 1861 var stofnað til Territory of Colorado en árið 1875 varð Colorado 38. fylki Bandaríkjanna.

Í Bandaríska borgarastríðinu réðust Texas-búar til Colorado í því augnamiði að ná yfirráðum yfir gullnámum. Íbúar Colorado ráku þá í burtu eftir orrustuna í Glorietta-skarði. Um sama leyti varð blóðbað á frumbyggjum Cheyenne og Apache af höndum hvítra manna í Sand Creek massacre. Frumbyggjarnir voru sakaðir um að stela nautgripum og voru yfir 500 þeirra drepnir ásamt konum og börnum. Silfur var uppgötvað í San Juan-fjöllum árið 1872 og var Ute-frumbyggjum gert að yfirgefa svæðið vegna þess. Árið 1893 fengu konur kosningarétt í Colorado.

Fylkið fór illa út úr kreppunni árið 1930 en eftir síðari heimstyrjöld kom straumur innflytjenda og hagurinn vænkaðist. Í dag eru ferðaþjónusta og tæknigreinar mikilvægar greinar.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Colorado“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 11. feb. 2017.

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]


  Þessi Bandaríkja-tengda grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.