Fara í innihald

Móðir Teresa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Agnes Gonxha Bojaxhiu)
Móðir Teresa
Móðir Teresa (árið 1995)
Fædd
Agnes Gonxha Bojaxhiu

26. ágúst 1910
Dáin5. september 1997 (87 ára)
StörfNunna í rómversk-kaþólsku kirkjunni
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1979)

Móðir Teresa (fædd Agnes Gonxha Bojaxhiu 26. ágúst 1910, dáin 5. september 1997) var albönsk nunna rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Hún stofnaði Kærleiksboðberana og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1979. Móðir Teresa var tekin í dýrlinga tölu í september árið 2016.

Móðir Teresa fæddist árið 1910 undir nafninu Agnes Gonxha Bejaxhiu í Skopje, sem var þá hluti af Tyrkjaveldi en er nú höfuðborg Norður-Makedóníu. Hún ákvað tólf ára gömul að gerast nunna og gekk átján ára gömul í reglu Loreto-systranna í Dyflinni á Írlandi. Hún hlaut nafnið Teresa árið 1931.[1]

Nítján ára gömul var Teresa send til Indlands á vegum reglunnar og gerðist þar kennari við Skóla heilagrar Maríu í Kalkútta. Árið 1946 urðu kaflaskil í lífi Teresu er hún sat í lest á leið frá Kalkútta til Darjeeling. Hún sá langa röð vannærðra fátæklinga og öryrkja út um lestargluggann[2] og fékk „guðlega köllun“ um að gefa allt sem hún átti og fórna öllu lífi sínu í þágu „hinna fátækustu meðal hinna fátæku“.[1][3]

Teresa fékk lausn frá klausturheitum sínum frá Píusi 12. páfa og lagði þann 8. ágúst árið 1948 niður búning Loreto-reglunnar. Hún hóf þess í stað að klæðast hvítri sari-slæðu með blárri rönd og kross á vinstri öxlinni. Teresa ferðaðist til Patna og sótti þar þriggja mánaða námskeið í hjúkrunarfræði til þess að geta hlúað að sjúklingum sem kæmu til hennar í fátækrahúsið. Hún sneri síðan aftur til Kalkútta og settist þar að hjá nunnureglu Hinna litlu systra hinna fátæku. Hún hóf starf sitt meðal fátæklinga með því að kenna börnum af götunni í skóla sem staðstettur var í fjölbýlishúsi í einum af fátækrahverfum borgarinnar. Hún tók við börnum sem aðrir skólar tóku ekki við og kenndi þeim meðal annars undirstöðuatriði hreinlætis og lesturs.[4]

Þegar fregnir af kennslustörfum Teresu bárust út gekk smám saman fjöldi sjálfboðaliða til liðs við hana, meðal annars kennslukonur og nemendur úr skólanum þar sem hún hafði áður unnið og síðar læknar og hjúkrunarfræðingar. Árið 1950 stofnaði Teresa systrareglu Kærleiksboðberana í Kalkútta ásamt söfnuði sínum.[4] Í fyrstu einbeitti Teresa sér aðallega að því að hjálpa götubörnum, en smám saman hóf hún afskipti af fleiri málum. Eftir að ríkisstjórn Indlands gaf reglu hennar 34 hektara landsvæði við borgina Asansol opnaði Teresa þar holdsveikinýlenduna Shanti Nagar (ísl. „Borg friðarins“).[5]

Árið 1952 fékk Teresa leyfi stjórnvalda til að breyta gömlu hindúahofi gyðjunnar Kali í heimili hinna deyjandi, Khaligat, þar sem Kærleiksboðberarnir hjúkruðu dauðvona fólki sem fundust á götum borgarinnar. Árið 1965 hlaut Teresa leyfi frá Páli 6. páfa til breiða starf Kærleiksboðberanna út fyrir Indland og árið 1997 rak regla hennar 544 heimili fyrir börn og fátæka í rúmlega 80 borgum víða um heim.[5] Kærleiksboðberarnir stofnuðu meðal annars til lyfjadreifingar, fæðingarhjálpar og kvennaathvarfa í fátækrahverfum Kalkútta og sjálfboðaliðar þeirra kenndu meðal annars vélritun, sauma, smíðar, málmiðnað og meðferð húsdýra.[6][7][8]

Verðlaun og viðurkenningar

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1971 veitti Páll 6. páfi Móður Teresu friðarverðlaun Jóhannesar 23. páfa. Páll hafði áður gefið Teresu að gjöf lúxusbifreið sem hann ferðaðist með í heimsókn til Indlands en Teresa seldi hana til þess að fjármagna líknarstörf sín.[4] Móðir Teresa var sæmd friðarverðlaunum Nóbels árið 1979. Áður en hún fór til Óslóar til að taka við verðlaununum lýsti hún því yfir að hún afþakkaði hefðbundin veisluhöld og myndi aðeins þiggja te og kex í ferðinni. Við verðlaunaafhendinguna leiddi Teresa Nóbelssamkomuna í flutningi friðarbænar Frans frá Assísí og lýsti því yfir að „fátækustu þjóðirnar [væru] þær sem heimila fóstureyðingar“.[2]

Gagnrýni á Móður Teresu

[breyta | breyta frumkóða]

Teresa var gagnrýnd bæði í lifenda lífi og eftir dauða sinn fyrir lélegar aðstæður á upptökuheimilum sínum og fyrir ófagmannlega meðferð sjúklinga sem þangað komu.[9] Teresa sjálf sagði að upptökuheimilin væru ekki ætluð sem hefðbundin sjúkrahús, heldur væri þeim ætlað að vera staðir þar sem hinir snauðu gætu „dáið með reisn“ og notið umhyggju sem þau hefðu ekki fengið að kynnast áður.[10] Rannsóknarhópur frá Háskólanum í Montréal gagnrýndi Teresu árið 2013 fyrir að „hlúa að hinum veiku með því að vegsama þjáningar þeirra frekar en að lina þær“.[11]

Einn harðasti gagnrýnandi Teresu var bresk-bandaríski blaðamaðurinn Christopher Hitchens, sem fjallaði um meint afglöp Teresu í heimildarmyndinni Vítisengill (1994) og bókinni Trúboðsstellingin (1995). Hitchens sagði um Teresu að hún hafi „ekki verið vinur hinna fátæku, heldur vinur fátæktar“ og sakaði hana um að hafa ekkert gert til að ráða bót á undirliggjandi orsökum fátæktar og sjúkdóma þeirra sem leituðu til hennar.[12] Hitchens og fleiri hafa jafnframt gagnrýnt Kærleiksboðberana undir stjórn Teresu fyrir að skíra dauðvona hindúa og múslima á heimilunum án vitundar eða samþykkis þeirra.[13][14][15]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 „Ég get ekki hjálpað heiminum – en ég get rétt nokkrum einstaklingum hjálparhönd“. Morgunblaðið. 3. júní 1986. bls. 62.
  2. 2,0 2,1 „Móðir Teresa, konan sem vann friðarverðlaun Nóbels 1979“. Framsóknarblaðið. 20. desember 1979. bls. 4-5.
  3. „Móðir Teresa - stofnandi nunnureglu, sem hjálpar fátæklingum“. Tíminn. 17. janúar 1971. bls. 9.
  4. 4,0 4,1 4,2 „Móðir Teresa“. Kirkjuritið. 20. desember 1974. bls. 139-148.
  5. 5,0 5,1 Sigríður Birna Birnisdóttir (6. september 1997). „Dýrlingur í lifanda lífi“. Morgunblaðið. bls. 10.
  6. Árelíus Níelsson (7. júní 1973). „Mannsbarn jarðar – Móðir Teresa“. Tíminn. bls. 8-9.
  7. Philip Caraman (23. desember 1979). „„Ég vil að þið elskið hina fátæku". Morgunblaðið. bls. 36.
  8. Torfi Ólason (3. júlí 1982). „Að vera fremur en gera“. Morgunblaðið. bls. 31.
  9. Fox, Robin (1994). „Mother Teresa's care for the dying“. The Lancet. 344 (8925): 807–808. doi:10.1016/S0140-6736(94)92353-1.
  10. „Máttugasta kona heims“. Alþýðublaðið. 30. ágúst 1996. bls. 6.
  11. Larivée, Serge; Carole Sénéchal; Geneviève Chénard (2013). „Les côtés ténébreux de Mère Teresa“. Studies in Religion/Sciences Religieuses. 42 (3): 319–345. doi:10.1177/0008429812469894.
  12. „Vegið að Móður Teresu“. Morgunblaðið. 23. nóvember 1994. bls. 41.
  13. Christopher Hitchens (24. apríl 2012). The Missionary Position: Mother Teresa in Theory and Practice. McClelland & Stewart. bls. 51–. ISBN 978-0-7710-3919-5.
  14. Kempton, Murray. „The Shadow Saint“. www.nybooks.com. The New York Review of Books. Sótt 18. desember 2015.
  15. Leys, Simon. „In Defense of Mother Teresa“. The New York Review of Books. Sótt 18. desember 2015.
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.