Sósíalistaflokkur Íslands (21. öld)
Sósíalistaflokkur Íslands | |
---|---|
Leiðtogi | Sanna Magdalena Mörtudóttir |
Stofnár | 2017 |
Stofnandi | Gunnar Smári Egilsson |
Stjórnmálaleg hugmyndafræði |
sósíalismi |
Einkennislitur | rauður |
Listabókstafur | J |
Vefsíða | sosialistaflokkurinn.is |
Sósíalistaflokkur Íslands oftast kallaður Sósíalistaflokkurinn er íslenskur stjórnmálaflokkur sem stofnaður var 1. maí árið 2017. Stofnun flokksins var undirbúin af um 1250 stofnfélögum[1]. Samkvæmt Gunnari Smára Egilssyni, einum af talsmönnum flokksins, á flokkurinn á að vera; málsvari launafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. Andstæðingar Sósíalistaflokks Íslands eru auðvaldið og þeir sem ganga erindi þess.[2]
Áherslumál
[breyta | breyta frumkóða]Aðaláherslumál flokksins eru mannsæmandi kjör (laun, atvinnuleysisbætur, lífeyrir, námslán o.fl.), aðgengi að öruggu og ódýru húsnæði, gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi, stytting vinnuvikunnar og enduruppbygging skattheimtunar (hærri álögur á auðmenn og lægri á verkafólk).
Saga og flokksskipulag
[breyta | breyta frumkóða]Samkvæmt Gunnari Smára höfðu 1400 manns skráð sig í flokkinn fyrir stofnfund hans. Bráðabirgðastjórn var kosin á stofnfundinum til að undirbúa sósíalistaþing haustið 2017[3]. Þinginu var frestað og fór fram 20. janúar 2018.[4]
Var þar meðal annars ákveðið að uppbygging flokksins yrði með þeim hætti að engin hefðbundin stjórn yrði, heldur væri honum stýrt af þremur stjórnum, framkvæmdarstjórn, málefnastjórn og félagastjórn sem kosnar voru á fundinum. Hver stjórn velur sér síðan formann úr sínum hópi. [5]
Framboð
[breyta | breyta frumkóða]Alþingiskosningar 2017
[breyta | breyta frumkóða]Flokkurinn ákvað að bjóða ekki fram fyrir Alþingiskosningar 2017 heldur einbeita sér að uppbyggingarstarfi og hafa áhrif með öðru móti.
Sveitarstjórnarkosningar 2018
[breyta | breyta frumkóða]Á flokksfundi 1. maí 2018 tilkynnti flokkurinn að hann myndi bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum 2018 í Reykjavík og Kópavogi.[6] Flokkurinn hlaut tæp 3,2% atkvæða í Kópavogi og engan mann, en 6,4% einn fulltrúa í Reykjavík, Sönnu Magdalenu Mörtudóttur.
Alþingiskosningar 2021
[breyta | breyta frumkóða]Sósíalistaflokkur Íslands, bauð fram í öllum kjördæmum landsins í alþingiskosningunum 2021. Flokkurinn byggir á flötu valdastigveldi, þar sem efstu frambjóðendur í hverju kjördæmi gegndu hlutverki helstu talsmanna.[7] Gunnar Smári Egilsson leiddi flokkinn í þeim kosningunum. Efstu frambjóðendur í kjördæmunum voru:
- Reykjavík Norður (RN): Gunnar Smári Egilsson
- Reykjavík Suður (RS): Katrín Baldursdóttir
- Suðurkjördæmi (SV): María Pétursdóttir
- Norðvesturkjördæmi (NV): Helga Thorberg
- Norðausturkjördæmi (NA): Haraldur Ingi Haraldsson
- Suðvesturkjördæmi (SJ): Guðmundur Auðunsson
Flokkurinn hlaut 8.181 atkvæði, sem jafngilti 4,1% af heildaratkvæðafjölda. Sósíalistaflokkurinn fékk engan fulltrúa kjörinn á Alþingi[8].
Sveitarstjórnarkosningar 2022
[breyta | breyta frumkóða]Þann 8. apríl 2022 var greint frá því að flokkurinn ætlaði að bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum árið 2022. Sanna Magdalena Mörtudóttir var oddviti í Reykjavík í annað sinn og fékk flokkurinn 7,7% og bætti við sig um einn fulltrúa, Trausti Breiðafjörð Magnússon.
Alþingiskosningar 2024
[breyta | breyta frumkóða]Í október 2024 tilkynnti flokkurinn að þau hyggðust bjóða fram lista í öllum kjördæmum fyrir alþingiskosningarnar 2024. Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi var kjörin eiginlegur leiðtogi flokkinn í kosningunum, eftir að hún tilkynnti um landsframboð í september. Efstu frambjóðendur í kjördæmunum voru:
- Reykjavík Norður (RN): Gunnar Smári Egilsson
- Reykjavík Suður (RS): Sanna Magdalena Mörtudóttir
- Suðurkjördæmi (SV): Unnur Rán Reynisdóttir
- Norðvesturkjördæmi (NV): Guðmundur Hrafn Arngrímsson
- Norðausturkjördæmi (NA): Þorsteinn Bergsson
- Suðvesturkjördæmi (SJ): Davíð Þór Jónsson
Flokkurinn hlaut 8.422 atkvæði, sem jafngilti 3,9% heildaratkvæða og því hlaut flokkurinn ekki fulltrúa á þinginu, þrátt fyrir gott gengi í könnunum fyrir kosningarnar.
Leiðtogar
[breyta | breyta frumkóða]Sósíalistaflokkur Íslands hefur ekki neinn eiginlegan formann, en þess í stað hefur flokkurinn hlutverk pólitísks leiðtoga.
Leiðtogar | Kjörinn | Hætti | |
---|---|---|---|
Gunnar Smári Egilsson | 1. maí 2017 | 20. október 2024 | |
Sanna Magdalena Mörtudóttir | 20. október 2024 | Enn í embættti |
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Sósíalistaflokkurinn stofnaður 1. maí“. Sósíalistaflokkurinn. Sótt 8. febrúar 2024.
- ↑ Gunnar Smári stofnar Sósíalistaflokk Íslands Rúv. skoðað 1. maí, 2017.
- ↑ Sósíalistaflokkur Íslands stofnaður Rúv, skoðað 1. maí, 2017.
- ↑ Sósíalistaþing 2018; stefna, skipulag, stjórnir og næstu átök sosialistaflokkurinn.is, skoðað 1. maí, 2018.
- ↑ Nýkjörnar stjórnir; málefna- félaga- og framkvæmdastjórnir sosialistaflokkurinn.is, skoðað 1. maí, 2018.
- ↑ Sósíalistaflokkurinn birtir framboðslista fyrir Reykjavík og Kópavog , vísir skoðað 1. maí, 2018.
- ↑ „Lög“. Sósíalistaflokkurinn. Sótt 8. febrúar 2024.
- ↑ „Úrslit alþingiskosninga eftir kjördæmi 2021“. PxWeb. Sótt 8. febrúar 2024.[óvirkur tengill]