Jafnaðarstefna

Jafnaðarstefna eða sósíaldemókratismi er félagsleg, efnahagsleg og stjórnspekileg hugmyndafræði innan sósíalisma sem styður pólitískt og efnahagslegt lýðræði og hægfara, umbótasinnaða og lýðræðislega nálgun til að ná fram takmörkuðum sósíalisma. Í nútímasamfélagi er jafnaðarstefna yfirleitt iðkuð innan kapítalískra hagkerfa þar sem ríkið hefur eftirlit með efnahagnum með velferðarkapítalisma, markaðsafskiptum, takmörkuðu eignarhaldi hins opinbera, sterku velferðarríki, stefnum í þágu félagslegs jafnréttis og jafnari skiptingu tekna og auðs.[1]
Jafnaðarstefna gerir ráð fyrir að stjórnkerfi byggi á fulltrúalýðræði og þátttökulýðræði. Meðal algengra markmiða jafnaðarstefnunnar eru barátta gegn ójöfnuði og gegn kúgun jaðarsettra hópa, útrýming fátæktar og stuðningur við opinberar þjónustur eins og barnabætur, menntun, umönnun aldraðra, heilsugæslu og bætt launakjör.[2] Hugmyndafræðin styður við endurskiptingu tekna og eftirlit með efnahagnum í þágu almannahagsmuna.
Jafnaðarstefna hefur lengi átt í nánum tengslum við stéttarfélög og verkalýðshreyfinguna almennt. Stefnan styður ýmsar ráðstafanir til að auka lýðræðislega ákvarðanatöku á efnahagslegum vettvangi, meðal annars að verkafólk eigi sæti í framkvæmdastjórnum fyrirtækja, að verkafólk eigi rétt til að gera sameiginlegra kjarasamninga og aukningu í eignahlutfalli starfsfólks og annarra hagsmunaaðila á fyrirtækjum.
Rekja má sögu jafnaðarstefnunnar aftur til verkalýðshreyfinga 19. aldar. Upphaflega var orðið regnhlífarhugtak yfir sósíalista úr ýmsum hugmyndafræðilegum hreyfingum en eftir rússnesku byltinguna fór hugtakið fyrst og fremst að vísa til umbótasinnaðra sósíalista sem voru mótfallnir valdboðshneigð og miðstýringu sem einkenndi sósíalisma í Sovétríkjunum.[3] Eftir seinna stríð tileinkuðu flestir jafnaðarmenn sér blandað hagkerfi þar sem einkaeign er virt en töluðu fyrir eftirliti með kapítalisma fremur en fyrir því að kapítalisma yrði alfarið skipt út með sósíalísku hagkerfi. Síðan þá hefur jafnaðarstefna gjarnan verið bendluð við keynesíska hagfræði, norræna módelið og velferðarríki.
Bent hefur verið á jafnaðarstefnu sem algengustu tegund vestræns eða nútímalegs sósíalisma. Viðhorf jafnaðarmanna til sósíalisma eru margbreytileg: Sumir líta enn á sósíalisma sem langtímamarkmið og líta á jafnaðarstefnu sem pólitískt og efnahagslegt lýðræðiskerfi sem styður hægfara umbætur í átt til sósíalismans. Aðrir líta á það sem siðferðislega hugsjón að leiða umbætur innan kapítalismans. Ein leið til að greina jafnaðarstefnu frá lýðræðislegum sósíalisma er að jafnaðarstefna leitast við að skapa jafnvægi á milli blandaðs markaðshagkerfis þar sem kapítalismi sætir regluverki en lýðræðislegur sósíalismi leggur áherslu á að afnema einkaeignarhald.[4] Skilin á milli þessara stjórnmálastefna eru þó á köflum óljós.
Þriðja leiðin er afbrigði af jafnaðarstefnu sem leitast við að blanda saman efnahagslegu frjálslyndi og mið-vinstrisinnuðum félagsmálastefnum. Hún er endurskoðun á jafnaðarstefnu sem átti upptök sín á tíunda áratugnum og sumir jafnaðarflokkar aðhyllast hana enn. Sumir stjórnmálaskýrendur líta hins vegar á þriðju leiðina sem afbrigði af nýfrjálshyggju.[5]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Adams, Ian (1993). Political Ideology Today. Politics Today (1st hardcover. útgáfa). Manchester University Press. ISBN 978-0-7190-3346-9.
- Astor, Maggie (22. september 2018). „Are You a Democratic Socialist?“. The New York Times. ISSN 0362-4331. Sótt 18 janúar 2024.
- Hinchman, Lewis P.; Meyer, Thomas (2007). The Theory of Social Democracy. Cambridge, England: Polity Press. ISBN 978-0-7456-4113-3.
- Romano, Flavio (2006). Clinton and Blair: The Political Economy of the Third Way. Routledge Frontiers of Political Economy. 75. bindi. London: Routledge. ISBN 978-0-415-37858-1.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Miller, David. „Social democracy“. Routledge Encyclopedia of Philosophy. doi:10.4324/9780415249126-S057-1. Sótt 22 janúar 2025.
- ↑ Hinchman & Meyer 2007, bls. 137.
- ↑ Adams 1993, bls. 102–103.
- ↑ Astor (2018).
- ↑ Romano 2006, bls. 11.