Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Heimildir skortir fyrir staðhæfingum í þessari grein. Ef þú vilt bæta við heimild vinsamlegast bættu þeim við undir nýrri fyrirsögn („Heimildir“) eða skildu eftir athugasemd á spjallsíðunni. |
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (f. 1972) er íslenskur stjórnmálamaður. Hún er með BA-gráðu í sagnfræði frá Harvard og meistaragráðu í heimspeki frá Cambridge í Englandi.
Guðfríður Lilja varð ung kunnur skákmaður og varð 13 ára íslandsmeistari kvenna í skák. Hún varð fyrst kvenna til að gegna formennsku í Skáksambandi Íslands og Skáksambandi Norðurlanda.
Hún hóf afskipti af stjórnmálum fyrir Alþingiskosningarnar 2007 og tók þátt í forvali Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem haldið var sameiginlega fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Þar hafnaði hún í fjórða sæti og tók í kjölfarið annað sætið á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi. Guðfríður Lilja var varaþingmaður 2007-2009 og gegndi á sama tíma starfi framkvæmdastjóra þingflokksins.
Í febrúar 2009 tilkynnti Guðfríður Lilja um framboð sitt í forvali Vinstri grænna fyrir Alþingiskosningarnar 2009, þar sem hún stefnir á efsta sæti í suðvesturkjördæmi. Við sama tækifæri tilkynnti Ögmundur Jónasson, þingmaður flokksins í kjördæminu, að hann styddi Guðfríði Lilju í toppsætið og stefndi sjálfur á annað sæti.
Maki Guðfríðar Lilju er Steinunn H. Blöndal, hjúkrunarfræðingur og eiga þær saman þrjú börn.