Karl Marx

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Karl Marx.

Karl Heinrich Marx (5. maí 181814. mars 1883) var mjög áhrifamikill þýskur hagfræðingur, heimspekingur og stjórnmálaspekingur sem er frægastur fyrir greiningu sína á mannkynssögunni í anda þráttarefnishyggju Friedrichs Hegel sem röð átaka milli ólíkra stétta. Hann greindi samfélag kapítalismans (samfélagið eins og það er eftir iðnbyltinguna) og taldi meðal annars að reglulegar og sívaxandi efnahagskreppur væru innbyggðar í slíkt hagkerfi og myndu á endanum leiða til hruns þar sem stéttlaust samfélag tæki við. Frá honum koma grundvallarhugtök í marxískum fræðum sem eru kölluð „marxísk hugtök“.

Marx tók virkan þátt í stjórnmálum um og eftir miðja 19. öld. Hann skrifaði Kommúnistaávarpið ásamt Friedrich Engels 1848 og var leiðandi við stofnun Fyrstu alþjóðasamtaka verkalýðsins í London 1864. Höfuðrit hans, Auðmagnið, kom út árið 1867.

Útfærslur á sósíalisma sem byggjast á verkum Marx eru oft kallaðar einu nafni marxismi. Marxismi hafði mjög mikil áhrif á stjórnmál og vísindi á 19. og 20. öld, ekki síst eftir Októberbyltingu bolsévika í Rússlandi 1917.

Vinnugildiskenning Marx[breyta | breyta frumkóða]

Karl Marx byggði hugmyndir sínar á vinnugildi að stórum hluta til á vinnugildiskenningu David Ricardo. Í Auðmagninu er sú kenning hryggjarstykkið í greiningu Marx á kapítalisma og því sem við köllum arðrán verkalýðsins.

Ein af lífseigustu hugmyndum hagfræðinnar er að allir hlutir hafi eitthvað algilt mælanlegt gildi. Marx íhugaði notagildi eins og aðrir hagfræðingar höfðu gert, en hafnaði því sem grundvelli efnahagslegs virðis og þar með verðs, og tók í staðinn upp þráðinn frá Ricardo um að vinnan sé alls staðar og að vinnugildið búi í öllum gæðum. Marx nálgaðist vinnugildið á þann hátt að í öllum hlutum búi ákveðin vinna og þar af leiðandi sé til einhver ákveðin heildarvinna. Út frá því ímyndaði Marx sér að til væri einhverskonar meðalvinna sem myndar verðgildið. Hins vegar, rétt eins og hjá Ricardo, þurfti Marx að takast á við ýmis vandamál sem upp koma við slíka vinnugildiskenningu.

Vandamál faglærðs vinnuafls[breyta | breyta frumkóða]

Stærsta vandamálið sem Marx mætti í kenningu sinni er mannauðurinn. Kenning hans snýst um að flytja hreinan vinnutíma í vöruna sjálfa en þá er erfitt að skýra ólíkt verð ófaglærðs og faglærðs vinnuafls. Til þess að gera grein fyrir þessu horfði Marx á meðalvinnuna og tengdi hana við framleiðni. Þannig hefur vinna framleiðnari vinnuafls meira gildi í hlutfalli við meðalvinnuna. Hér víkur Marx frá hugmyndum Adam Smith um laun sem mælikvarða á vinnu.

Áhrif fastafjármuna á hlutfallslegt verð[breyta | breyta frumkóða]

Annað vandamál sem Marx stóð frammi fyrir var hvernig ætti að gera grein fyrir áhrifum fastafjármuna á hlutfallslegt verð vöru. Marx notaðist hér við niðurstöður Ricardo um að í þeim byggi uppsöfnuð vinna. Það þyrfti alltaf vinnu til þess að fá eitthvað fram og þannig endurspegli hlutfallslegt verð hlutfallslega vinnu.

Arðrán verkalýðsins[breyta | breyta frumkóða]

Enn eitt vandamálið sem felst í skilgreiningu vinnugildis er hvernig hlutfall vinnu og fjármagns hefur áhrif á hagnað ýmis atvinnugreina og fyrirtækja. Samkvæmt Marx þá eru gæði í kapitalísku samfélagi framleidd til þess að skapa hagnað. Arðrán verkalýðsins felst í því að verkalýðurinn selur vinnuaflið eftir samningum kapítalista. Vinnulaun eru ákvörðuð af „járnlögum launanna“ sem klassískir hagfræðingar aðhylltust, en lögmálið gengur út á að verkalýðurinn fái aldrei greitt meira fyrir vinnu sína en sem nemur kostnaði við „endurframleiðslu“ hans, þ.e. það lágmark sem þarf til að verkalýðurinn geti lifað af. Þar sem kapítalistarnir, eigendur framleiðslutækjanna (fjármagnsins), geta ákvarðað kjör verkalýðsins sem er algerlega upp á þá kominn, láta þeir verkamennina vinna lengur en það tekur þá að framleiða verðmæti sen duga til að greiða laun og annan kostnað. Þessum mismun heldur kapítalistinn eftir í formi arðráns.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni
  Þetta æviágrip sem tengist sögu og heimspeki er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.