Papúa Nýja-Gínea

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Papúa Nýja Gínea)
Sjálf­stæða ríkið Pap­úa Nýja-Gín­ea
Independent State of Papua New Guinea
Independen Stet bilong Papua Niugini
Fáni Papúa Nýju-Gíneu Skjaldarmerki Papúa Nýju-Gíneu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Unity in diversity (enska)
Eining í fjölbreytni
Þjóðsöngur:
O Arise, All You Sons/God Save the King
Staðsetning Papúa Nýju-Gíneu
Höfuðborg Port Moresby
Opinbert tungumál enska, tok pisin, hiri motu
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Karl 3.
Landstjóri Bob Dadae
Forsætisráðherra James Marape
Sjálfstæði
 • frá Ástralíu 16. september 1975 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
56. sæti
462.840 km²
2
Mannfjöldi
 • Samtals (2011)
 • Þéttleiki byggðar
102. sæti
7.059.653
15/km²
VLF (KMJ) áætl. 2013
 • Samtals 17,430 millj. dala (128. sæti)
 • Á mann 2.491 dalir (142. sæti)
Gjaldmiðill Kina (PGK)
Tímabelti UTC +10
Þjóðarlén .pg
Landsnúmer ++675

Papúa Nýja-Gínea er eyríki í Eyjaálfu í Suðvestur-Kyrrahafi fyrir norðan Ástralíu sem tekur yfir eystri helming eyjunnar Nýju-Gíneu. Indónesía ræður yfir vestari helmingnum. Norðan við Papúu eru svo fjölmargar eldfjallaeyjar sem eru kallaðar Nýja-Gínea. Landið varð til við sameiningu nokkurra svæða undir tímabundna stjórn Ástralíu en það hlaut síðan sjálfstæði árið 1975. Þar búa um 7 milljónir manna af mörgum ættbálkum. Víða á hálendinu búa afar frumstæðir ættbálkar sem enn lifa á steinaldarstigi.

Kort af Papúa Nýja-Gíneu sem samanstendur af hundruðum eyja með mjög fjölbreytilegt landslag.

Landlýsing[breyta | breyta frumkóða]

Landið, sem er að heildarflatarmáli 462.840 km², nær yfir mörg hundruð eyjar með mjög fjölbreyttu landslagi, veðurfari og loftslagi. Hitabeltisloftslag er í landinu með jöfnum og háum hita allt árið og mikilli úrkomu í regnskóginum, en í fjöllunum sem rísa allt að 4000 metra yfir sjávarmál eru hitastigsbreytingarnar meiri og þar snjóar með reglulegu millibili. Í landinu er dýralífið með því fjölbreyttasta sem fyrirfinnst í heiminum.

Landið nær yfir austurhluta eyjarinnar Nýju-Gíneu, Bismarck-eyjar (Nýja-Bretland, Nýja-Írland, Nýja-Hannover), Aðmírálseyjar, D'Entrecasteaux-eyjar, Louisiade-eyjar, St. Matthiaseyjar, Woodlark-eyjar og Tróbríandeyjar, ásamt norðurhluta Salómonseyja, Bougainville og Buka. Að auki eru ótal smáeyjar, kóralrif og sker.

Loftslag[breyta | breyta frumkóða]

Veðurfar Papúa Nýju-Gíneu telst vera hitabeltisloftslag með jöfnum og háum hita allt árið og mikilli úrkomu í þéttum regnskóginum. En veðurfar landsins er fjölbreytt. Í fjöllunum sem rísa allt að 4000 metra yfir sjávarmál eru hitastigsbreytingar meiri og þar snjóar með reglulegu millibili.

Á láglendi er meðalhámarkshiti á bilinu frá 30 til 32°C, og að lágmarki á milli 23 til 24°C. Árstíðasveifla í hitastigi er smávægileg. Kaldara loftslag er á hálendinu en þar er næturfrost algengt yfir 2100 metrum. Hitastig er þar almennt yfir 22°C á daginn óháð árstíð. Eftir því sem hæð yfir sjó breytist breytist plöntu- og dýralífið.

Úrkoma, fremur en hitastig, greinir sundur árstíðirnar í landinu. Úrkoma er einkum háð tveimur vindakerfum, þ.e. suðaustanáttum annars vegar og hins vegar norðvestanáttum sem valda ókyrrð með monsúnvindum. Einnig fer úrkoman eftir breiddargráðum og hæð yfir sjávarmáli. Suðaustanvindar vara í sjö mánuði (frá maí til nóvember) í suðaustasta hluta landsins (Milne-flóa), en styttri tíma í norðurhluta landsins, eða í aðeins þrjá mánuði á Aðmírálseyjum. Norðvestanátt er algengari í norðvesturhluta landsins og í Bismarck-eyjaklasanum. Þeirra vinda gætir aðeins 3-4 mánuði ársins í höfuðborginni Port Moresby, á regntímanum frá desember til mars. Úrkoma í höfuðborginni er minni en 1300 mm á ári, sem hefur áhrif á vatnsveitu höfuðborgarinnar. Hálendið virðist hafa eigið vindakerfi, með rigningu allt árið (2500-4000 mm) ef frá er talinn þurrkatími um mitt árið.

Íbúar[breyta | breyta frumkóða]

Fjölbreytni landsins nær einnig til margvíslegra ættbálka í landinu. Hér er einn íbúa Bago-Bago eyjarinnar suðvestur af Papúu Nýju-Gíneu

Landið telst til þróunarlanda en er á hraðri leið til nýrra lífshátta. Atvinnuleysi er nokkuð og glæpatíðni fremur há. Stór hluti íbúa býr í dreifbýli með lítinn aðgang að nútímatækni. Íbúafjöldi er áætlaður sjö milljónir. Langflestir þeirra eru Papúar, Malajar, Melanesar og Pólýnesar. Að auki búa í landinu litlir hópar Evrópumanna og Kínverja. Hluti fólks lifir líkt og forfeður þeirra gerðu fyrir mörg þúsund árum; í ættbálkasamfélögum sem eru algjörlega einangruð frá umheiminum.

Landið er þekkt fyrir hina gífurlegu mannfræðilegu fjölbreytni sína. Hvergi í heiminum eru töluð fleiri tungumál. Opinberu tungumálin eru þó aðeins þrjú, tok pisin, enska og hiri motu. Að auki eru þar töluð 841 tungumál (sem er um 12% af tungumálum heims). Ríkið hefur 19 stjórnsýsluhéröð, og þingbundna konungsstjórn með Bretadrottningu sem þjóðhöfðingja, enda er landið í Breska samveldinu. Höfuðborgin heitir Port Moresby með ríflega 300 þúsund íbúa.

Trúarbrögð[breyta | breyta frumkóða]

Stærstur hluti íbúa Papúu Nýju-Gíneu (96%) eru kristnir en andatrú og fjölgyðistrú forfeðranna finnst á nokkrum stöðum. Dómstólar og stjórnvöld landsins styðja við stjórnarskrárbundinn rétt til tjáningar- og trúfrelsis, bæði í orði og í framkvæmd. Þrátt fyrir ríkjandi áhrif innfluttra trúarbragða blanda margir kristinni trú við hefðbundna anda- og fjölgyðistrú forfeðranna með helgiathöfnum, galdri og fjölkyngi.

Tveir fimmtu hlutar íbúanna eru mótmælendatrúar, flestir lúterstrúar. Tæpur þriðjungur eru rómversk-kaþólskir. Sjöunda dags aðventistar eru 10%. Að auki er lítill fjöldi baháia og múslima.

Efnahagur[breyta | breyta frumkóða]

Papúa Nýja-Gínea er mjög auðug af náttúruauðlindum, málmum og orkulindum á borð við jarðgas, en þéttur regnskógur og brattar fjallshlíðar gera það að verkum að erfitt er að vinna úr þessum auðlindum.

Papúa Nýja-Gínea liggur ofan á Kyrrahafseldhringnum svokallaða, en það er keðja virkra eldstöðva sem liggja í þessum hluta Kyrrahafsins. Vegna þessarar legu landsins, á svokölluðum flekaskilum, er talið að finna megi öflug jarðhitakerfi víða á eyjunum. Einungis eitt jarðvarmaorkuver er í landinu og enn eru ríflega 60% raforku framleidd með jarðefnaeldsneyti.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]